föstudagur, 25. janúar 2008

Pereat

Ég er gamall MR-ingur og sótti m.a. tíma í listasögu á sal lærða skólans þar sem sjálfstæðisforvígismenn Íslands “mótmæltu allir” um miðja nítjándu öld. Áður höfðu nemendur skólans hrópað niður rektor skólans, “Pereat, pereat”, í eiginlegri baráttu fyrir félagafrelsi.

Innblásnir voru þessir hlutar sögu lærða skólans, auk annarra, í brjóst allra MR-inga og geri ég ráð fyrir að svo sé enn.

“Vér mótmælum allir” og “Pereat” – gott ef MR-ingar telja sig ekki eiga einskonar sögulegan einkarétt á þessum upphrópunum.

Mér varð hugsað til þessa eftir að lesa leiðara MR-inganna sem ritstýra annars vegar Morgunblaðinu og hins vegar 24 stundum.

Í báðum tilfellum gagnrýna þeir mótmælin sem fram fóru í og við ráðhúsið í gær. Morgunblaðið talar um skrílslæti og vanvirðu við lýðræðislega stjórnarhætti. 24 stundir talar sömuleiðis um skrílslæti en toppar Morgunblaðið og segir að mótmælendur hafi framið lögbrot.

Gott og vel.

Það liggur þá fyrir að ráðsettum ritstjórum ráðstjórnarritanna var misboðið þegar fólk nýtti sér lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla.

Þeim var misboðið því mótmæli eiga að fara að ákveðnum mörkum, og ekki lengra. Eða eins og segir í leiðara 24 stunda: “Þeir hefðu getað borið mótmælaspjöld eða bara bloggað eða skrifað blaðagrein þegar þeir komu heim.”

En hvað gerðist? Fundurinn tafðist um klukktíma, hróp voru gerð að mönnum og ýmsum var heitt í hamsi. Sumum fullheitt og viðurkenni ég að sjálfum fannst mér á köflum fulllangt gengið.

Og seint verður sagt að smekklaus hróp eins og “Þú ert engin hel... f....ing borgarstjóri!” nái sama skáldlega áhrifamættinum og “Pereat”. Slík ósmekklegheit dæma sig sjálf.

En...

Enginn var laminn. Engar skemmdir voru unnar. Mótmælendur fóru í friði eftir að fundur hafði tafist í u.þ.b. klukkutíma. Í engu var þetta sambærilegt við nýleg mótmæli erlendis, s.s. gegn niðurrifi ungdómshússins á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, eða gegn fundi alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle um árið.

Þetta var ekki einu sinni sambærilegt við sum þau stóriðjumótmæli sem fram hafa farið hér heima með hlekkjum og skemmdum.

Þegar að um þúsund manns koma saman í mótmælaskyni, sama hvort þau eru sjálfsprottin eða til þeirra boðað, má alltaf búast við að eitthvað fari úr böndum. Atburðir gærdagsins voru þrátt fyrir allt tiltölulega hófstilltir, þó sumt hafi orkað þar tvímælis. Íslenskt lýðræði hlaut engan skaða af og ekki er þörf á viðvarandi lögregluvakt við ráðhúsið, hvað þá við heimili aðalpersónanna.

Mótmæli af þessu tagi eru hins vegar alltaf tvíbent og vissulega má setja spurningamerki við hlutverk áhrifamanna innan fráfarandi meirihluta í því að hvetja mótmælendur áfram, rétt eins og stórhneykslan þeirra sem voru að taka við var ekki alveg í samræmi við tilefnið.

Það breytir þó ekki því að við íslendingar getum prísað okkur þokkalega sæla ef þetta eru mestu mótmælin sem við eigum von á. Í engu jafn sögulega mikilvægt og “Vér mótmælum allir” eða eftirminnilegt og “Pereat.” Fyrir gamla MR-inga var þetta kannski frekar pínu kjánalegt í sögulegum samanburði, en íslenskt lýðræði lifir áfram óskaddað.

1 ummæli:

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.