Bréf Seðlabanka Íslands til Ársreikningaskráar, dags. 3. des. sl. með umsögn bankans um umsókn Kaupþings um heimild til þess að færa bókhald sitt, og öllu því sem því tilheyrir, í evrum er einkar athyglisvert aflestrar. Seðlabankinn má eiga það að þar kemur bankinn fram algerlega grímulaus og án vafninga tekur af skarið með það að íslensk fjármálafyrirtæki eigi ekkert með það að færa hvorki hlutafé né bókhald í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni.
Í bréfinu segir strax í annarri málsgrein:
Seðlabankinn er mótfallinn því að innlend fjármálafyrirtæki taki alfarið upp erlendan gjaldmiðil í reikningshaldi sínu. Stefni fjármálafyrirtæki jafnframt að því að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli og draga úr viðskiptum sínum með innlendan gjaldmiðil telur Seðlabankinn fulla ástæðu til að staldra við og gaumgæfa afleiðingar þessa fyrir peningakerfi þjóðarinnar.
Hér liggur í orðanna hljóðan að slíkt myndi væntanlega hafa hörmulegar afleiðingar fyrir peningakerfi landsins, enda hafa einhverjir fulltrúar Seðlabankans þegar lýst þeirri skoðun sinni opinberlega. En er það svo? Er ekki allt eins hægt að taka þveröfugan pól í hæðina og horfa á björtu hliðarnar. Við skráningu hlutafjár og færslu bókhalds yfir í alþjóðlega meginmynt, eins og evru, fæst alþjóðlega viðurkenndur verðmiði á fyrirtækið. Allt eins má því ætla að því fleiri fyrirtæki og félög, hvort heldur sem er á sviði fjármálaviðskipta eða annarra viðskipta, færi bókhald og hlutafé yfir í erlenda mynt, því styrkari stoðum verði skotið undir íslenskt hagkerfi og þar með íslenskt peningakerfi. Því meira sem íslenskt hagkerfi byggir á eignum og verðmætum með raunverulegum meginmyntar verðmiða, því betra.
--------
Í bréfinu lýsir Seðlabankinn sig einnig ósammála túlkun Kaupþings á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, en Kaupþing setur víst fram það álit að endurskoðendur bankans kynnu að hafna því að staðfesta þaðað reikningar bankans samræmist alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ef starfsrækslumynt bankans verður ekki breytt í evru. Hér er augljós túlkunarmunur og í ljósi þess hve rökstuðningur Seðlabankans byggir mikið á þáttum sem eru “aðallega”, “almennt”, “nánast gefnir”, “jafnvel þótt” og því að “meginreglan hljóti að vera” er hér væntanlega á ferð blautur draumur einhvers lögfræðingsins, en bæði Seðlabankinn og Kaupþing hafa eitthvað til síns máls.
Það sem vakti athygli mína sérstaklega var þó þegar Seðlabankinn segir á einum stað (bls. 3 í bréfinu, fyrsta málsgrein) að það gæti verið “... í anda staðalsins að birta reikningsskil móðurfélags... í starfrækslugjaldmiðli... [og] ...því kemur vel til álita að Kaupþing banki haldi bókhald sitt í íslenskum krónum og semji reikningsskil á grundvelli þess til að nota í samskiptum við Seðlabankann... en umreikni reksturinn í evrur til birtingar í ársreikningi fyrir hlutabréfamarkaðinn.”
S.s. ekkert mál. Kaupþing þarf ekkert að fara út í þetta evru dæmi. Þarf bara að umreikna bókhaldið í evrur fyrir hlutabréfamarkaðinn og óþarfi að vera með þetta vesen.
Ef það er svona lítið mál að umreikna á milli, þá gæti leikmaður í þessum bransa kannski ætlað að slíkt gæti virkað í báðar áttir. Af hverju ætti t.d. Kaupþing ekki bara að fá að færa bókhald og hlutafé í evrur, eins og Kaupþing hefur óskað eftir, og svo umreikna einfaldlega í íslenskar krónur fyrir Seðlabankann það sem við á?
Nei. Seðlabankinn hefur skýra skoðun á slíku fúski, enda segir í bréfi þeirra orðrétt (bls. 4, neðsta málsgrein) “...fráleitt að hlutafé sé skráð í starfrækslugjaldmiðli en reikningsskil samin í heimagjaldmiðli, enda er þá hætta á að þau geti villt mönnum sýn um afkomu og efnahagsþróun...”
Athyglisvert, ekki satt?
Að auki má velta fyrir sér hvort Seðlabankinn fari ekki út fyrir valdsvið sitt, en bankinn bendir á í bréfi sínu að þegar ársreikningalögunum var breytt þ.a. heimild var sett inn til þess að félög gætu fært bókhald í erlendri mynt “...var tekið mið af nýlegum sambærilegum lagaákvæðum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en þess ekki gætt að í öllum þessum löndum eru takmarkandi sérákvæði fyrir fjármálafyrirtæki.” Að mati Seðlabankans klúðraði Alþingi s.s. málinu.
Það mat Seðlabankans breytir því hins vegar ekki að það eru engin takmarkandi sérákvæði í íslenskum lögum hvað varðar fjármálafyrirtæki, og í ljósi þess að ekki hefur verið borin upp breytingartillaga þess efnis á þingi, virðist vilji löggjafans nokkuð skýr. Seðlabankinn má því í raun hafa hvaða skoðun sem hann vill á því hvort fjármálafyrirtæki eigi að taka upp erlendan gjaldmiðil sem uppgjörsmynt, en lögin eru skýr. Ég velti því a.m.k. fyrir mér hvort hið skilyrta leyfi Ársreikningaskráar til Kaupþings varðandi það að yfirfærsla þeirra á bókhaldi og reikningsskilum í evrur geti fyrst komist til framkvæmda eftir að yfirtöku þeirra á NIBC er lokið sé í samræmi við lögin eins og þau standa.
Velkominn í bloggheima. Spái góðu gengi miðað við þessa byrjun.
SvaraEyðaÞórir G.