laugardagur, 26. janúar 2008

Tímatakmörkun á embættisveitingum

Fyrir nokkrum árum ritaði ég lítin pistil fyrir þáverandi vefrit framsóknarmanna, timinn.is, um tímatakmörkun æðstu embættismanna. Í þeim pistli velti ég því fyrir mér af hverju einungis embætti umboðsmanns barna (að því er ég best veit) er bundið að lögum þeirri tímatakmörkun að ekki má endurskipa nema einu sinni, nema sérstaklega standi á. Fyrsta skipun er til fimm ára, þ.a. samtals getur umboðsmaður barna setið lengst í tíu ár.

Í pistlinum setti ég m.a. fram eftirfarandi:

Þetta fyrirkomulag varðandi ráðningu og skipan umboðsmann barna er, að því undirritaður best veit, einstakt í íslenskri stjórnsýslu. Umboðsmaður barna er því líklega eina embættið sem sætir slíkri tímatakmörkun. Í athugasemdum við frumvarp til laga um umboðsmann barna sem lagt var fram á 117. löggjafarþingi (veturinn 1993-94) er sagt eftirfarandi um þessa tímatakmörkun:

“Með því að tímabinda skipunartíma er verið að reyna að tryggja að sami einstaklingur gegni starfinu ekki í of langan tíma. Heppilegt er talið að sami einstaklingur gegni embættinu að jafnaði ekki lengur en 10 ár eða tvö skipunartímabil. Embætti umboðsmanns barna kemur til með að mótast af þeim embættismanni sem gegnir því hverju sinni. Þannig má búast við að áherslur í starfi verði mismunandi eftir því hver gegnir því á hverjum tíma og verður að telja það af hinu góða.”

Allt hljómar þetta gott og blessað og mjög skynsamlegt. Sem vekur upp hina augljósu spurningu, af hverju sæta önnur æðstu embætti stjórnsýslunnar ekki sömu takmörkunum? Af hverju gildir t.d. ekki sama tímatakmörkun á embætti ríkisskattstjóra, ríkislögreglustjóra, seðlabankastjóra, ríkislögmann, veiðimálastjóra, yfirdýralækni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, forstjóra Hafrannsóknarstofnunnar, hæstarréttardómara, biskup Íslands, ríkissáttasemjara, forstjóra Tryggingastofnunnar, embætti landlæknis, ferðamálastjóra, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, Orkustofnun, Fjármálaeftirlitið, Nýsköpunarsjóð, Landmælingar og Veðurstofu Íslands, svo nokkur dæmi séu tekin?

Á það ekki við um flest, ef ekki öll þessi æðstu embætti og stöður að þau “mótast af þeim embættismanni sem gegnir því hverju sinni”? Mætti ekki því að sama skapi og með sömu rökum segja að sambærileg tímatakmörkun og er á embætti umboðsmanns barna á önnur æðstu embætti og stöður yrði “af hinu góða”? Einkum í ljósi þess að hið sama hlýtur að eiga við um þessi embætti og stöður “að áherslur í starfi verði mismunandi eftir því hver gegnir því á hverjum tíma.”

--------------------------

M.a. í ljósi atburða undangenginna vikna má velta því fyrir sér hvort ekki myndi verða meiri sátt um skipanir í embætti af þessu tagi ef þau væru bundin sambærilegum tímatakmörkum að lögum og embætti umboðsmanns barna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.