Í Fréttablaðinu sl. sunnudag var boðið upp á nýjan pólitískan dúet í þætti sem kallaður er “Bitbein” þar sem persónur og leikendur eru annars vegar Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og hins vegar Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Þátturinn fór vel af stað. Ekki varð þó umfjöllunarefnið mikið bitbein þeirra í millum í þessari fyrstu tilraun. Árni Páll reið á vaðið og spurði: “Á að breyta reglum um heimildir fyrirtækja til að gera upp í erlendri mynt?”
Í stuttu máli voru þau hjartanlega sammála. Bæði komust þau að þeirri niðurstöðu að engin ástæða væri til að hindra fyrirtæki í því að taka upp aðra starfrækslumynt en krónu ef þau þess óska. Bæði voru sammála um það að ef núverandi lög og reglur væru einhver hindrun í þeim efnum bæri að skýra eða breyta þeim á þann hátt að gera fyrirtækjunum auðveldar fyrir.
Málið var einnig stuttlega rætt í Silfrinu sl. sunnudag og þar tók Þórlindur Kjartansson, formaður SUS, undir það að engin ástæða væri til þess að hindra fyrirtæki í því að nota þá starfrækslumynt sem þeim sýndist. Annað væri í andstöðu við viðskipta- og athafnafrelsi
Þótt Þórlindur sitji ekki á þingi má fastlega reikna með að hann eigi sér a.m.k. einhverja skoðanabræður í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Vandalítið ætti þannig að vera að ná fram vænum þingmeirihluta til þess að breyta núverandi lögum um ársreikninga þannig að óþarfa sjálfskapaðar tæknilegar viðskiptahindranir standi ekki íslenskum fyrirtækjum fyrir þrifum í þeirra vexti og útrás.
Fyrir Kaupþing þýðir þetta að enn er von...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.