föstudagur, 11. janúar 2008

Myndarlegur?

Þá er hafin tilraun. Í engu er um víðtæka, afdrífaríka eða merkilega tilraun að ræða, en tilraun engu að síður.

Ég er orðinn bloggari.

Það er ekki laust við að það sé gert bæði í ákveðinni auðmýkt og eilitlum kvíða, því bloggheimar eru jú fjölmennir og þar margir fyrir velreyndir og pennafærir mjög.

Ætli það gildi ekki í þessum heimi eins og mannheimum að kapp sé best með forsjá og rétt sé að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Óneitanlega er það svo sérstakur heiður, hlýtur að vera, að gerast bloggari hér á Eyjunni í skjóli ritstjórans Péturs Gunnarssonar, þó ekki væri nema vegna teiknimyndarinnar af undirrituðum gerða af snillingnum Halldóri Baldurssyni. Mér er sagt að hún nái mér nokkuð vel – einhver sagði að hún hefði mýkra og mildilegra yfirbragð en fyrirmyndin, hvað sem það nú þýðir.

Sjálfur hafði ég áhyggjur af því að ég virkaði ellilegri en efni stæðu til, en kannski gerir myndin mig frekar, svo maður sletti, “distinguished”!

En hvað um það, hér er ég mættur og mun vonandi hafa eitthvað athyglisvert til málanna að leggja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.