miðvikudagur, 10. september 2008

Dauði gjaldmiðils

Það fjarar hratt undan þjóðagjaldmiðlinum þessa dagana. Frá því að forsætisráðherra flutti efnahagsræðu sína fyrir rúmri viku síðan hefur verðgildi krónunnar fallið um rúm 5% til viðbótar við það 40% plús fall sem þegar hefur orðið á þessu ári.

Í ræðu sinni fór forsætisráðherra yfir þær aðgerðir sem hið opinbera hefur þegar gripið til, og eru í kortunum í náinni framtíð, til þess að renna styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Vandamálin við þær aðgerðir eru hins vegar í hnotskurn þau að þar hefur verið boðið upp á brauðmola þegar þörf var á góðri steik!

Ef rétt er að hluti 12 punkta áætlunar Samtaka atvinnulífsins að nýrri þjóðarsátt feli í sér að krónan verði yfirgefin eru það stórtíðindi. Hins vegar hefur það blasað við lengi að íslenskt atvinnulíf hefur fengið sig fullsatt af hverfugleika krónunnar.

Í Silfri Egils sl. sunnudag má segja að Jónas Haralz hafi sett gjaldmiðilsmálin í nýtt sjónarhorn þegar hann sýndi fram á með rökum að frjáls og óháð króna væri undantekning í efnahagssögu Íslands sl. hundrað ár og að reynsla landsins af þátttöku í alþjóðlegu myntsamtarfi væri undantekningarlaust jákvæð.

Undiralda gjaldmiðilsumræðunnar þyngist þannig stöðugt og við því að búast að hún þyngist enn meir á næstu vikum. Þar munu nokkrir þættir vega þungt.

Í fyrsta lagi vaxtaákvörðun Seðlabankans í fyrramálið, en áframhaldandi hávaxtastefna bankans hefur fyrst og fremst þau áhrif að gera aðila vinnumarkaðarins fráhverfari sjálfstæðum gjaldmiðli. Engin gerir ráð fyrir að vaxtalækkunarferli hefjist á morgun, en óbreytt vaxtastig, hvað þá ef vextir verða hækkaðir, verður enn einn naglinn í líkkistu krónunnar.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir að styttist í skýrslur þær sem viðskiptaráðherra pantaði sl. janúar sem áttu að fela í sér “Rannsóknir á áhrifum tengingar við evru á viðskipti, fjármálastöðugleika, samfélag og lagalegt umhverfi”. Í fréttatilkynningunni frá því í janúar sl. er sagt að fyrirhugað sé “...að niðurstöður liggi fyrir í ágúst 2008 í formi skýrslna og/eða rannsóknaritgerða og verði kynntar opinberlega í kjölfarið.” Nú er komin september þ.a. það hlýtur að styttast í skýrslurnar.

Í þriðja lagi styttist væntanlega í að skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem unnið hefur verið að í tæpt ár sjái dagsins ljós. Hver sem niðurstaða þeirrar skýrslu verður þá má gera ráð fyrir að hún muni hafa a.m.k. nokkur áhrif á hina pólitísku umræðu um gjaldmiðilsmálin.

Í fjórða lagi virðist þolinmæði íslensku bankanna gagnvart krónunni og Seðlabankanum á þrotum. Þó að bankastjórarnir flestir séu sparir á gagnrýni á Seðlabankann virðist greiningardeildum þeirra vera gefin æ lausari taumur í gagnrýni á Seðlabankann og starfsaðferðir hans. Enda vita bankarnir fyrir víst að vaxtahagnaður þeirra vegna verðtryggingarinnar er skammgóður vermir ef greiðendurnir kikna undan greiðslubyrðinni.

Lífslíkur krónunnar virðast þannig minnka stöðugt.

4 ummæli:

 1. Öll umræða og allar aðgerðir ríkisstjornarinnar og Seðlabanka bera það með sér að fyrr en seinna munum við neyðast til að sækja um aðild að ESB. Sem er nattúrulega bara frábært en ekki eins og ráðandi öfl vilja. Krónan er dauð,eins og Ariel Sharon, þó að hún sé i öndurnarvél núna þá er ekkert líf í henni!

  SvaraEyða
 2. þessi yfirlýsing SA er náttúrulega stór frétt í sjálfu sér. Ef til vill er það til marks um þögnina um ESB aöild að aðeins RUV skuli segja frá þessi aðrir fjölmiðlar en segja ekki orð um þetta. Úti í hinum stóra væri svona tillaga á forsíðum allra blaða. Við skulum athuga að þetta eru nú einu sinni atvinnurekenda samtök sem leggja það til við launþegasamtök landsins að krónan sé slegin af. Ef að atvinnurekenda samtök landsins hafa ekki lengur trú að krónunni á þá almenningur að hafa trú á henni eða gjaldeyrismarkaðurinn! Ég held ekki. Peningastefnan er komin í algjört þrot.

  SvaraEyða
 3. Svo væri ekki úr vegi, að skoða stöðu Evru miðað við US$.

  Hvaða gjaldmiðill er feigur?

  Hefur ú lesið Spiegel nýlega eða farið á vef hans?

  ÞAr er nú ekki mikill fögnuður með Evru.

  Ekki að heldur í Danaveldi, sem sést af bloggi þaðan.

  Spánverjar eru í stórvandræðum vegna hennar og svo kvað líka vera með Ítali.

  Hvað fáum við út úr Evru-aðild? ekki afnám Verðtryggingar, ef marka má Viðskiptaráðherra.

  Hvða er þa´eftir sme við fáum út sem við ekki fengjum með harðri stýringu gjaldmiðils okkar og strangri framfylgni á reglum um fjármálastofnanir, líkt og gert er í Þýskalandi.

  Ef við verðum að skipta út gjaldmiðli til að öðlast fró og frið í ólgusjó mynta, er ekki til jafn stabíll gjaldmiðill og Sviss Farrnkinn.

  Því mun svo, að EF menn vilja bara stöðugleika og stabílitet í peningamálum og slíku en EKKI INNGÖNGU æi KRATAAPPÍRATIÐ ESB, er það auðvitað Frankinn þeirra í Sviss sem rúlar og ætti að stefna að upptöku á. Hitt er hjóm og léleg afsökun til að KRATAVÆÐA okkur enn frekar.

  Miðbæjaríhaldið
  þolir ekki bla bla sósíalisma, hann er skelfilegur, sjáið bara hvernig UMRÆÐUSTJÓRNMÁLIN fóru með fjárhag Rvíkurborgar.

  SvaraEyða
 4. Er ekki spurning um að launafólk og atvinnurekendur taki sig saman og taki upp evruna, burtséð frá stefnu ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins. Þetta var gert í Svartfjallalandi á sínum tíma með sæmilegum árangri (ef ég man rétt).

  Það er óþolandi að við íslendingar búum við þau örlög að þurfa að bíða eftir því að framamenn sjálfstæðisflokksins komist á níræðisaldur áður en þeir fara að skoða málin af skynsemi og yfirvegun.

  Persónulega finnst mér of langur tími að bíða eftir því að Sigurður kári og Bjarni Ben ofl nái níræðisaldrinum...

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.