föstudagur, 19. september 2008

Framsókn og ESB: Að hrökkva eða stökkva...

Mig minnir að það hafi verið haustið 1994 sem ég var beðin að halda fyrirlestur á SUF-málþingi um Evrópusambandið og álit mitt á því hvaða stefnu Ísland ætti að hafa. Mér var það bæði ljúft og skilt, en ekki verður sagt að ég hafi fundið á því þingi marga skoðanabræður - ég hvatti til aðildar Íslands!

Vorið 1995 tók ég síðan þátt í því, ásamt fleirum, og undir forystu Ólafs Stephensen, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að stofna Evrópusamtökin. Þetta var mánuði fyrir kosningar og hafa ýmsir haldið því fram að þessi opinbera trúvilla mín í Evrópumálum hafi verið helsta ástæða þess að Halldór Ásgrímsson hætti við að bjóða mér starf aðstoðarmanns utanríkisráðherra í kjölfar kosninganna.

Halldór staðfesti reyndar við mig að ýmsir hefðu ámálgað það við hann að það myndi leiða til ófriðar í flokknum ef "þessi Evrópuvillingur" yrði gerður að pólitískum aðstoðarmanni - en það hefði ekki haft áhrif á hans ákvarðanatöku. Hann vissi sem var að hugur minn þá hneigðist meira í átt til embættismennsku og starfa á erlendum vettvangi.

Það er síðan athyglisvert að bæði Halldór og Jón Sigurðsson, sem tók við formennskunni af Halldóri, eru nú opinberir stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu þó aldrei hafi þeir viljað segja það opinberlega á meðan að þeir gegndu formennsku. Jón skrifar nú orðið reglulega greinar þar sem hann færir sterk rök fyrir því af hverju Ísland eigi að sækja um aðild.

Framsóknarflokkurinn hefur í sögulegu samhengi verið tortryggin á aukið alþjóðasamstarf og aukna opnun á íslenskum markaði. Þar hefur flokkurinn jafnan viljað fara að öllu með gát, en þó á endanum látið til leiðast. Þessi varfærni, og jú á köflum afturhald, hefur hins vegar ekki, a.m.k. í seinni tíð, staðið í vegi fyrir því að flokkurinn taki þátt í að opna frekar aðgengi að mörkuðum, innlendum og erlendum. Undirbúningur að EES-samningnum hófst þannig í ríkisstjórnartíð Steingríms Hermannssonar.

Flokkurinn hefur enn fremur í seinni tíð orðið mun frjálslyndari. Hann styður samkvæmt stefnuskrá sinni aukið viðskiptafrelsi á vegum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og vann ötullega að því í ríkisstjórnartíð sinni með Sjálfstæðisflokknum að opna íslenskan markað með útvíkkun EES-samstarfsins og fjölgun fríverslunarsamninga.

Það hefur því verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með hvernig Evrópuumræðan hefur verið að þróast innan flokksins á allra síðustu árum. Langt er enn í land að sammæli verði innan flokksins um aðild að Evrópusambandinu, hvað þá að aðild verði opinber stefna flokksins, en hins vegar hefur flokkurinn færst til þess að sjálfsagt sé að láta á málið reyna, ef þjóðin þess óskar.

Sú aðferð sem formaður flokksins mælti fyrir og var í reynd samþykkt á síðasta miðstjórnarfundi, að beita tvöfaldri atkvæðagreiðslu um aðild að ESB, fyrst um hvort sækja eigi um og síðan - ef þjóðin vill aðildarumsókn - um niðurstöðu aðildarviðræðna, er þannig lýðræðislegt viðbragð við pólitísku þrátefli. Það er athyglisvert og jákvætt í sjálfu sér.

Samningsmarkmiðaskýrsla flokksins frá 2007 og gjaldmiðilsskýrslan sem kynnt var í þessari viku eru, eins og Þorsteinn Pálsson ristjóri Fréttablaðsins benti á, "...mikilvægt og þakkarvert pólitískt framlag til þeirrar umræðu sem nú fer fram um þetta stærsta álitaefni í íslenskum stjórnmálum."

Það sem kemur fram í grein Birkis Jóns Jónssonar, Páls Magnússonar og Sæunnar Stefánsdóttur í Fréttablaðinu í gær er þannig rökrétt framhald á þeirri vinnu sem farið hefur fram innan flokksins og þróunar umræðu innan hans. Þó Birkir Jón sé sá eini þeirra sem nú situr á þingi er hann þess fullmegnugur að fylgja grein þeirra eftir þegar þing kemur saman að nýju 1. október og leggja fram þingsályktunartillögu um málið. Ef hann vill væri sjálfsagt að nota drög mín að slíkri þingsályktunartillögu úr færslu minni frá því fyrr í mánuðinum - það þarf væntanlega ekki að breyta miklu.

Enn athyglisverðara verður síðan að fylgjast með afdrifum slíkrar tillögu í þinginu.

1 ummæli:

  1. Framsóknarflokkurinn nýtti sér í æsku sinni framsæknar hugmyndir og störf fólks í þeim anda, aðalega í bændastétt og kenndi sig við samvinnuhugsjón. Nú er þessi flokkur búin að kasta þeirri hugsjón fyrir róða og hefur lagst í það að rífa niður síðustu minjar hennar, þ.e sparisjóðina. Sumir forystumanna þessa fyrrum bændaflokks vilja nú gera betur til að eyða síðustu hugsjónaglýjunni og boða frjálsan innflutning landbúnaðarvara og siglingu erlendra fiskiskipa inn í landhelgi okkar, með inngöngu í EB.
    Blind kreddutrú á markaðshagkerfið hefur gagntekið leiðtoga þessa aumkunnarverða flokks. Þeir eru lokaðir fyrir djúpum skilningi á hinum hnígandi ferli þessarar hugmyndafræði kaupsýslustéttarinnar. Það hefur engin áhrif á þá þótt hin "ósýnilega hönd" Adams Smith sé skyndilega orðin sýnileg í Bandaríkjunum og víða og birtist sem krumla ríkisvaldsins sem í örvæntingu er að reyna að bjarga hinu kapitalíska fjármálakerfi Vesturlanda.
    Framsóknarflokkurinn hefur hent frá sér öllum góðum hugsjónum og hælað sig fastan við gróðahyggjuöfl í samfélaginu. Þau öfl vildu fyrir nokkrum árum setja krónuna á "flot" og við erum að súpa seyðið af því. En í stað þess einfaldlega að setja hindranir á gjaldeyrisviðskipti, þá vilja þeir smala okkur inn í EB.

    Guttormur Sigurðsson, fyrrum framsóknarmaður

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.