miðvikudagur, 10. september 2008

38,25% aukning atvinnuleysis!

Þegar tölur Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi og þróun þess það sem af er ári eru skoðaðar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Þar má t.d. sjá að þrátt fyrir að munur á skráðu atvinnuleysi í janúar og ágúst á þessu ári sé einungis 0,2% (sem hægt væri að kalla 20% aukningu atvinnuleysis) er aukning á fjölda atvinnulausra 38,25% ef miðað er við meðalfjölda einstaklinga.

Í upplýsingagögnum Vinnumálastofnunar segir: “Skráð atvinnuleysi er mælt á þann veg að fjöldi atvinnuleysisdaga er umreiknaður í meðalfjölda einstaklinga, þar sem allir dagar í hverjum mánuði eru taldir nema laugardagar og sunnudagar og útkomunni deilt í áætlaðan mannafla á vinnumarkaði í hverjum mánuði sem út er gefin í upphafi hvers árs af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og endurskoðaður eftir atvikum.”

Þessi meðalfjöldi atvinnulausra einstaklinga var í janúar 2008 1.545 en í ágúst 2.136. Raunaukning 38,25%.

Í ljósi þeirra uppsagna sem tilkynntar hafa verið nú yfir sumarið og ekki eru allar komnar til framkvæmda má gera ráð fyrir að nú þegar líður á haustið muni atvinnuleysistölur fara ört hækkandi. Þó atvinnuleysi teljist enn hverfandi hér á landi, er sú hætta fyrir hendi að það taki snöggan kipp upp á við samfara þeirri snöggkólnun hagkerfisins sem nú stendur yfir.

5% atvinnuleysi myndi t.d. þýða að yfir 10.000 manns væru hér án atvinnu. Verður það staðan um næstu áramót?

2 ummæli:

 1. Þessi ríkisstjórn sem ég hafði svo mikla trú á í upphafi er gersamelga búin að missa það! Atvinnuleysisstjórn krata og íhalds í upphafi tíunda áratugarins er orðin vel heppnuð miðað við þessa!
  Sjá nánar:

  Þjóðarsátt undir forystu ASÍ og SA eina raunhæfa leiðin!

  www.hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/639210/

  SvaraEyða
 2. Opinberu tölurnar segja lítið. Þar koma ekki fram þeir sem hafa horfið með einum eða öðrum hætti af vinnumarkaði. T.d. er óvenjulega mikið um að fólk hafi fari inn í framhaldsskólana. Stór hópur erlendra er farinn af landi brott. Einnig er allstór hópur enn á uppsagnarfresti

  Eftir er einungis kjarninn, og þá getur farið að fara um marga þegar hann fer að missa vinnuna á meðan erlendir launmenn eru hér í verkum á vegum m.a. borgarinnar við byggingar á skólum

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.