sunnudagur, 7. september 2008

Hið vandmeðfarna vald tölfræðinnar

Frétt sem þessi vekur mann, einu sinni sem oftar, til umhugsunar um hið gífurlega vald sem falið er í hendur tölfræðispekúlöntum tveggja opinberra stofnanna. Og það án nokkurs sýnilegs aðhalds eða eftirlits.

Hagstofa Íslands annars vegar og Seðlabanki Íslands hins vegar eru sitt hvor hlið sama peningsins í orðsins fyllstu merkingu þegar kemur að virði gjaldmiðilsins og kostnaði vegna hans. Árum saman hefur t.d. verið gagnrýnt með rökum með hvaða hætti Hagstofa Íslands mælir verðbólgu, t.d. þá staðreynd að í þeirri mælingu sé blandað saman neyslu- og eignaverðbólgumælingu með aðferð sem HVERGI er beitt annarsstaðar.

Vaxtaákvarðanir Seðlabankans byggja svo aftur á þessari sömu verðbólgumælingu – og stendur þannig á sama grunni.

Seðlabankinn hefur sjálfur sýnt fram á, eða a.m.k. hagfræðingar bankans í riti bankans, en birt án ábyrgðar bankans, að á sömu tölur er hægt að beita mismunandi reikniaðferðum og fá þannig út mismunandi niðurstöður, mishagfelldar fyrir þjóðarbúið!

Tölur og niðurstöður eru svo birtar í mismunandi formi að því er virðist án tillits til þess hvort og hvaða afleiðingar þær geta haft.

Það á að vera grundvallarmarkmið að hin opinbera tölfræði hagkerfisins sé hafin yfir vafa að eins miklu marki og hægt er. Í því samhengi ætti það a.m.k. að vera umhugsunarefni, sérstaklega á viðsjárverðum tímum í ástandi efnahagsmála eins og nú, að birta tölur með jafn gífurlega stórum óvissuþætti og í birtingu Seðlabankans á tölum um viðskiptajöfnuð nú fyrir helgi. Vörn Seðlabankans um að í þessum efnum séu þeir að lúta boðvaldi Alþjóða gjaldeyrisjóðsins er hjóm eitt. Innan þess samstarfs sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn byggir á er án efa gert ráð fyrir því að frestun geti orðið á birtingu ákveðinna hagtalna, sérstaklega ef færa má fyrir því rök að birting þeirra geti beinlínis verið skaðleg í ljósi stærðar skekkju eða óvissuþáttar innan þeirra.

Það er hins vegar tæplega hægt að búast við því að frumkvæði um leiðréttingar eða endurskoðun á þeim aðferðum sem Hagstofan og Seðlabankinn beita muni koma innan frá stofnununum sjálfum. Enda má færa fyrir því rök að stofnanirnar séu til þess vanhæfar. Þær eiga innbyggða hagsmuni af því að viðhalda og réttlæta núverandi kerfi. Því verði breytingar að koma utan frá, ef þeirra er þörf.

Ofantengd frétt um viðskiptajöfnuðartölfræði Seðlabankans ætti að verða mönnum hvatning til þess að fara í allsherjar yfirferð og hugsanlega endurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála og þeirri aðferðarfræði sem er beitt. Það væri t.d. ekki vitlaust verkefni fyrir hinn nýja efnahagsráðgjafa forsætisráðherra að taka að sér að leiða slíka vinnu með aðstoð nokkurra vel valinna sérfræðinga.

Betri tölfræði gæti þannig orðið grunnur að betri stefnumótun og markvissari ákvarðanatöku. Í slíkri vinnu mætti jafnvel velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að sérgreina vísitölumælingar með víðtækari hætti en nú er gert, t.d. með því að reikna út gengisleiðrétta vísitölu neysluverðs þ.a. sjá megi raunverulegan kostnaðarþrýstings vegna innlendra þátta, sem aftur þjónaði sem rökstuðningur til efnahagsákvarðanna í samræmi við raunverulega stöðu innlendra efnahagsmála. Hver er t.d. gengisleiðrétt verðbólga á Íslandi í dag? Er hún jafnvel neikvæð? Hvaða áhrif hefðu slíkar upplýsingar á stefnumótun og aðgerðir á sviði efnahagsmála?

Er ekki full ástæða til að kanna málið?

2 ummæli:

  1. gott dæmi um lið sem erfitt er að meta er kostnaður við eigiðhúsnæði.Þetta er liður sem hefur þrýst verðbólgu upp hér a landi undanfarin ár. Gallinn við húsnæðislið neysluvisitölu er að hér er ekki virkur leigumarkaður. Heldur er hér verið að reyna að meta kaupverð húsnæðis inn í vísitöluna. En þetta eru eins og allir vita mjög óregluleg kaup gerð á mismunandi tíma og við mismundandi aðstæður. Samevrópsk neysluvisitala sem birt er reglulega og við miðum verðbólgu stig okkar við, tekur til dæmis ekki á þessum lið, þó að þar sé "virkur" leigumarkaður. Ástæðan er víst sú að markaðir ESB eru svo mismunandi að mæling á þeim mun vera ónákvæm!

    SvaraEyða
  2. Hver er t.d. gengisleiðrétt verðbólga á Íslandi í dag?

    Hverskonar rugl er þetta? Heldurðu í alvöru að gengislækkun krónunnar nú hafi ekkert með íslenskt verðlag að gera? Held þú ættir að líta aðeins í gömlu hagfræðibækrunar þínar, ef þú hefur þá einhvern tíman lært nokkurn skapaðan hlut í þeirri fræðigrein, áður en þú ferð að segja öðrum til. Það er einmitt svona bull og vitleysa sem sem veldur því að misvitrir stjórnmálamenn vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og hvern þeir eiga á að hlusta.

    Kynntu þér svo líka aðeins vísitölu neysluverðs og aðferðir annarra þjóða í því sambandi. Að sjálfsögðu taka nær allar þjóðir heims kostnað við eigið húsnæði inn í slíkar vísitölur, annað væri líka fráleitt. Eða er kannski eitthvað fleira sem þú vilt taka út úr vísitölunni, sem þér finnst púkó að hafa þar?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.