fimmtudagur, 11. september 2008

30,5% samdráttur hagkerfisins!

Hagstofa Íslands kynnti í dag nýja þjóðhagsreikninga og tölur um landsframleiðslu. Við fyrstu sýn virðist hér um fínar fréttir að ræða og ennþá bullandi hagvöxtur á Íslandi. Er það í hrópandi andstöðu við allt krepputal.

Skv. Hagstofu Íslands var landsframleiðslan fyrstu sex mánuði þessa árs hvorki meira né minna en 466 milljarðar króna, samanborið við 448 milljarða á síðasta ári m.v. fast verðlag ársins 2000. Hagstofan telur þ.a.l. hagvöxtinn fyrstu 6 mánuði ársins vera hvorki meira né minna en 4,1%.

Þetta hljóta að vera nokkuð merkilegar tölur og ættu að koma vel út í alþjóðlegum samanburði.

Eða hvað?

Ef þessar landsframleiðslutölur eru umreiknaðar yfir í erlendan gjaldmiðil, t.d. evru, og miðað við skráð gengi 1. júlí annars vegar 2007 (við lok fyrsta árshelmings þess árs) og hins vegar 2008 verður niðurstaðan allt önnur. Í stað 4,1% hagvaxtar er rúmlega 30% samdráttur.

Gengi evrunnar þann 1. júlí 2007 var 84,02 krónur, en þann 1. júlí 2008 125,66 krónur. Landframleiðslan fyrstu sex mánuði ársins 2007 var því 5,3 milljarðar evra, en landsframleiðslan fyrstu sex mánuði þessa árs ekki nema 3,7 milljarðar evra.

Sem sagt samdráttur upp á rúm 30%, ekk hagvöxtur upp á 4,1%.

Já, eins og ég hef áður bent á getur tölfræðin sagt ýmsar mismunandi sögur eftir því hvaða aðferðir eru notaðar!

PS: Uppfærsla kl. 21:54. Útreikningarnir hér að ofan eru pínulítið ábyrgðarlausir þar sem ég tek verðleiðréttu upphæðir Hagstofunnar hráar og umreikna þær yfir í evrur m.v. gengið í fyrra og svo í ár. Samvisku minnar vegna fór ég því aftur á vef Hagstofunnar og gróf upp rauntölur landsframleiðslunnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa og síðasta árs og umreiknaði það yfir í evrur á gengi við lok hvers ársfjórðungs og lagði saman. Síðan reiknaði ég hlutfall hagvaxtar/samdráttar milli ára og niðurstaðan varð ögn hagfelldari: samdrátturinn er þá ekki nema 23%! Og í þessum útreikningum er þá engin leiðrétting vegna verðbólgu.

Meginpunkturinn er hins vegar óbreyttur - tölfræðinni er ekki treystandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.