miðvikudagur, 24. september 2008

Jólagjöfin í ár

Haustið 2006 áttu Jón og Gunna 4 milljónir í peningum. Ábyrg sem þau voru höfðu þau lagt hart að sér að safna sér fyrir útborgun í sinni fyrstu íbúð. Þeim stóð stuggur af 100% lánum og öðrum slíkum gylliboðum og ákváðu frekar að ástunda íhaldssama afstöðu til sparnaðar og íbúðakaupa.

Þannig fannst þeim rétt að eiga fyrir 20% af útborgun í íbúðinni eins og þeim hafði löngum lærst að væri skynsamast og heilladrýgst.

Með 4 milljónir í vasanum drifu þau sig í því að fjárfesta loks í íbúð, samtals fyrir krónur 20 milljónir. 16 milljónir voru teknar að láni. Að flytja saman inn í nýja íbúð var jólagjöfin þeirra það árið.

Þetta voru góð kaup. Hér var fjárfest til framtíðar með skynsamlegt eiginfjárhlutfall í eigninni sem fyrirsjáanlegt var að gæti vaxið eftir því sem borgað væri af láninu.

Núna um jólin, rétt rúmum tveimur árum síðar, munu Jón og Gunna halda upp á það að eiginfjárhlutfall þeirra í íbúðinni verður brunnið upp í verðbólgunni. Íbúðin verður ennþá (eða réttara sagt aftur) metin á kringum 20 milljónir (ef hún getur selst), en milljónirnar fjórar verða horfnar og heildarskuldin orðin svipuð og markaðsvirði íbúðarinnar, ef ekki hærri.

Spurningin sem mun brenna á vörum þeirra þessi jólin verður: “Hvaða jólasveinn kom með þessa gjöf?”

7 ummæli:

  1. Þetta er hryllingur. Og hvað gera þau sem tóku 100% lán og geta ekki staðið í skilum?

    SvaraEyða
  2. Við mörgum blasir lítið annað við en gjaldþrot. Næsta ár á eftir að verða mörgum erfitt.

    SvaraEyða
  3. hvaða lúserar eru þetta ?

    SvaraEyða
  4. Helvíti flott dæmi hjá þér :)

    Hegðun hjá hinum óskynsama getur nefnilega skollið á hinum skynsama með leiðinlegum afleiðingum.

    En og aftur flott dæmi.. Þekki tvö-þrjú slík... mjög lík :)

    Kveðja Bori-Gor

    SvaraEyða
  5. En hvernig gátu þau eignast þessar fjórar milljónir? Hvað ef það var ekki innistæða fyrir þessum fjórum milljónum?

    SvaraEyða
  6. Til nafnslauss kl. 23:27, þetta fólk eru ekki lúserar! Þetta annars skynsama fólk eru fórnarlömb fjárglæfra og verðtryggingar lána. Þau eru því ekki miður ein um það.
    Næsta ár út af þessu og árið þar á eftir mun Ísland lenda í húsnæðiskreppu af jafnvel verri skala en þeir í Bandaríkjunum.
    Nauðasölur verða á húsnæði þeirra sem tóku gylliboðum um 100% lánin á sínum tíma þegar vextir hækka á þeim vegna 5 ára endurskoðunarákvæðisins. Greiðsluþrot verður hjá mörgum og bankar munu sitja uppi með óseljanlegt húsnæði sem þeir hafa tekið upp í skuldir og sem þeir geta ekki losnað við. Afleiðingarnar af þessu verða að bankarnir lenda í alvarlegum þrenginum og jafnvel fjárhagskreppu, sem gæti leitt til þess að margir þeirra færu í þrot.

    SvaraEyða
  7. Já þetta hljómar nokkurn veginn nákvæmlega eins og það sem ég stend frammi fyrir... Nema að ég keypti síðasta sumar en ekki jól.
    Sverrir

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.