miðvikudagur, 17. september 2008

Tilhugalíf?

Það er hressandi að lesa saman pistla Valgerðar Sverrisdóttur og Össurar Skarphéðinssonar. Þó þau skjóti fast á hvort á annað er yfir því stríðnisbragur, sem minnir mest á kraumandi unglingaást sem enn hefur ekki verið fullnustuð í fyrstu bíóferðinni, fyrsta hönd í handar göngutúrnum, eða fyrsta kossinum.

Hver veit nema líkurnar á því hafi aukist í ljósi þróunar Evru- og Evrópumála innan Framsóknarflokksins.

Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu innan Framsóknarflokksins um afstöðu til aðildar Íslands að ESB liggur fyrir að hvorum megin þeirrar víglínu sem menn standa er enginn ótti við það að leyfa lýðræðinu að taka völdin, þ.e. setja málið í dóm kjósenda.

Það skýrir m.a. áhuga flokksins á tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar um aðildarumsókn, og, ef hún samþykkir, að leggja níðurstöðu viðræðna undir dóm kjósenda sömuleiðis.

Vissulega væri það pólitíkinni til meiri sóma ef hægt væri að ná niðurstöðu um aðildarumsókn á þeim vettvangi. Því miður virðist það ekki hægt. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er þannig leið til að ná Evrópumálum upp úr hjólförum undanfarinna ára og koma þeim at stað í áttina til niðurstöðu.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort miðjan og vinstrið í íslenskum stjórnmálum gætu sameinast um þessa leið. Opinber stefna Vinstri Grænna er enn sú að vera á móti Evrópusambandsaðild, en skoðanakannanir gefa sterklega til kynna að um málið séu jafn skiptar skoðanir þar innan dyra sem annarsstaðar. Vg eru hins vegar tæplega á móti því að setja þjóðina sjálfa í ökumannssætið í þessu máli.

Kannski Össur og Valgerður ættu að bjóða Katrínu Jakobsdóttur eða Svandísi Svavarsdóttur með í bíó?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.