þriðjudagur, 16. september 2008

Evru-frumkvæði Framsóknar

Í dag var kynnt á Sólon ný skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins þar sem farið er yfir valkosti í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Í skýrslunni er farið yfir þá helstu kosti sem hafa verið í umræðunni og er niðurstaða skýrslunnar nokkuð afgerandi.

Nefndin hafnar upptöku annarrar myntar en evrunnar sem valkosti, ef skipta á út krónu. S.s. niðurstaða nefndarinnar er sú að Svissneski frankinn, norska krónan eða bandaríkjadalur séu ekki raunhæfir valkostir.

Nefndin hafnar einnig óbreyttu ástandi í gjaldeyrismálum þjóðarinnar sem valkosti. Núverandi peningamálastefna og stjórn efnahagsmála gangi ekki upp.

Ef krónan á að vera gjaldmiðill okkar til framtíðar (nota bene, það er engin annar valkostur til skemmri tíma) þá verður að renna styrkari stoðum undir bæði stjórn efnahags- og peningamála, þ.m.t. með stórefldum gjaldeyrisvarasjóði upp á a.m.k. 1300 milljarða með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.

Upptaka evru er hinn valkosturinn og er það afdráttarlaus niðurstaða nefndarinnar að sá valkostur eigi að vera án afsláttar, þ.e. með fullri aðild að myntbandalaginu og Seðlabanka Evrópu þar sem hann þjónar sem lánveitandi til þrautavara. Einhliða upptöku evru er s.s. hafnað sem valkosti með rökum.

Nefndin telur að sú leið feli að óbreyttu í sér aðild að Evrópusambandinu, en segir sjálfsagt að kanna kost þess að ganga í myntbandalagið án aðildar að Evrópusambandinu. Sjálfum finnst mér liggja á milli línanna í skýrslunni að nefndarmenn gefi ósköp lítið fyrir þann valkost. Spurningarinnar eigi helst að spyrja til þess að fá hana út af borðinu.

Til skemmri tíma er ljóst að við sitjum uppi með krónuna, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Skýrsla gjaldmiðilsnefndarinnar er hins vegar mikilvægt innlegg í framtíðarstefnumótun Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Stefnan til langframa verður að öllum líkindum rædd í þaula á næsta flokksþingi, í febrúar eða mars á næsta ári, og þar verður ákvörðun líklega tekin um framtíðarstefnu Framsóknarflokksins – enda flokksþing æðsta ákvörðunarvald um stefnu flokksins.

Þetta er önnur skýrsla flokksins um Evrópumál. Sú fyrri kom út í aðdraganda síðustu kosninga og voru þar reifuð megin áherslu atriði Íslands ef til kæmi aðildarviðræðna. Framsóknarflokkurinn er þannig eini stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur með kerfisbundnum hætti skoðað Evrópumálin að einhverju marki. Í þeim efnum er vinna flokksins til fyrirmyndar og ætti að verða öðrum flokkum til eftirbreytni. Þangað til geta þeir, og stuðningsmenn þeirra, heimsótt heimasíðu Framsóknarflokksins, sótt sér eintak og án efa orðið margs vísari.

1 ummæli:

  1. Mér finnst þetta nú svolítið skondið. Þó að Framsókn hafi vissulega haft formenn sem hafa sýnt ESB áhuga þá er nokkuð augljóst að Samfylkingin hefur gengið hvað lengst í þessum málum - enda vill flokkurinn aðild að ESB.

    Það er hægt að skila endalausum einhliða skýrslum um kosti og galla ESB en það breytir því ekki að það segir voða lítið. Það þarf einfaldlega að sækja um aðild og kanna hvað við myndum fá.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.