miðvikudagur, 10. september 2008

Formannaskipti framundan?

Þessi littla frétt á visir.is um áskorun á hendur Sigurjóni Þórðarsyni um að bjóða sig fram til formanns Frjálslyndaflokksins er athyglisverð. Hún ber það með sér að núverandi formanni er vart hugað pólitískt líf lengur en núverandi kjörtímabil og má telja víst að margur þar innan flokks mun telja sig sjálfan hinn augljósa valkost í formannsstólinn.

Guðjón Arnar er fæddur 1944 og varð 64 ára nú í sumar. Hann verður því við það að verða 67 ára við lok þessa kjörtímabils og alls ekki fráleitt að ætla að hann muni stíga til hliðar. Auk Sigurjóns má gera ráð fyrir að Magnús Þór Hafsteinsson, núverandi varaformaður, muni gera tilkall til formannsstólsins, og ekki skal útiloka Kristinn H. Gunnarsson í þessum vangaveltum. Ekki kæmi á óvart ef til tíðinda drægi í þessum efnum hjá Frjálslyndum - jafnvel nú í vetur.

Þetta leiðir hugann óneitanlega að stöðu annarra formanna þeirra flokka sem nú sitja í stjórnarandstöðu. Þeir virðast einnig í vandasamri stöðu.

Formaður Vinstri-Grænna, Steingrímur J. Sigfússon, virðist orðinn þreyttur og leiður á þingi. Skapvonskan er hætt að vera fyndin og mælska hans farin að bera þess merki að hann er búin að vera á þingi í 25 ár. Deja-vu, einhver? Aldarfjórðungs þingseta er meira en nóg fyrir hvern sem er, sérstaklega þegar menn virðast dæmdir til eilífðar stjórnarandstöðu. Þess ber þó að geta að Steingrímur var ráðherra landbúnaðar- og samgöngumála í þrjú ár (1988 – 1991) og hann á sér a.m.k. einn betrung í aldursforsetanum, en það er Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sem hefur setið á þingi í 30 ár.

Steingrímur er hins vegar ekki það gamall, rétt rúmlega fimmtugur, þ.a. það skapar ákveðin vanda fyrir vænleg formannsefni eins og Svandísi Svavarsdóttir. Steingrímur gæti hæglega setið í formannsstólnum í tíu ár í viðbót, en það væri tæpast gott fyrir hvorki Steingrím né flokkinn. Þetta vandamál mætti hæglega leysa með t.d. skipan Steingríms í embætti sendiherra, en í því hluverki myndi hann án efa taka sig vel út. Sjálfur lýsti hann yfir í þingræðu undir lok síðasta kjörtímabils að hann væri meira en til í að verða sendiherra í frjálsum Færeyjum!

Vg hefur til þessa ekki komist í þá stöðu að komast í ríkisstjórn. Að auki hefur flokknum ekki tekist að ná í kosningum því fylgi sem hann virðist reglulega ná í skoðanakönnunum. Það er vandamál sem núverandi formaður og forysta flokksins ætti að taka til sín og því sjá hag flokksins betur borgið með því að hleypa öðrum að.

Formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, tók við flokknum á erfiðum tíma, í kjölfar mesta kosningaósigurs flokksins. Á því rúma ári sem liðið er frá því að Guðni tók við hefur honum hins vegar ekki tekist að snúa þeirri þróun við, nema síður sé. Fylgi flokksins í skoðanakönnunum hefur farið neðst í tæpan helming af síðasta kjörfylgi og mest í u.þ.b. þrjá-fjórðu hluta þess.

Fyrir Framsóknarflokkinn er það óásættanlegt að ekki skuli skapast betri sóknarfæri fyrir flokkinn í þeim efnahagsörðugleikum sem nú ganga yfir. Með réttu ætti frjálslyndur umbótaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn, með skýra atvinnustefnu, að raka til sín 20 – 25% fylgi í skoðanakönnunum. Í staðinn hangir flokkurinn mest í tæpum tíu prósentustigum og virðist fyrirmunað að ná hærra.

Þessi staða Framsóknarflokksins á sér ýmsar skýringar. Hart hefur verið sótt að flokknum á undanförnum árum – bæði innan og utan frá. Hlutverk núverandi forystu – með formann í broddi fylkingar – er hins vegar að sameina flokkinn að baki sér og blása til nýrrar sóknar. Eftir undangengin hjaðningavíg virðist þokkalegur friður í flokknum. Af skoðanakönnunum að dæma er flokkurinn hins vegar ekki að uppskera eins og til er ætlast og því hlýtur sú spurning að vakna hvort flokknum sé það ekki lífsnauðsyn að skipta alveg út forystunni í góðum tíma fyrir næstu kosningar.

Það hlýtur a.m.k. að vera fleiri framsóknarmönnum en mér umhugsunarefni. Sérstaklega ef ekki verða nein merki þess á þeim fimm til sex mánuðum sem eru fram að næsta flokksþingi að fylgið sé að rétta verulega úr kútnum.

Ég efast heldur ekki um að núverandi formaður flokksins mun, ef til þess kemur, taka hagsmuni flokksins fram yfir sína eigin.

Framsóknarflokkurinn á hins vegar við þann vanda að stríða eftir hjaðningavígin undanfarin ár, að þar blasir ekki við hinn augljósi valkostur í formannsstöðuna. Núverandi formaður verður sextugur næsta vor og 62 þegar kemur að næstu kosningum. Ef hann verður ennþá formaður, blasir við að hann væri þá að byrja sitt síðasta kjörtímabil. Guðni hefur þegar setið á þingi í 21 ár þ.a. í því ljósi er engin skömm af því, nema síður sé, ef hann ákveður að láta þetta kjörtímabil verða sitt síðasta.

Núverandi varaformaður, Valgerður Sverrisdóttir, er búin að sitja jafnlengi og Guðni á þingi og er ekki nema árinu yngri. Þó frú Valgerður sé án efa allra beittasti þingmaður núverandi stjórnarandstöðu, er tæpast hægt að gera ráð fyrir því örlögin ætli henni formannsembætti flokksins.

Af núverandi þingmönnum væri þá næst í röð hugsanlegra formannsefna Siv Friðleifsdóttir. Siv er rétt rúmlega 46 ára, með þrettán ára þingsetu að baki, þar af rúm 6 ár sem ráðherra. Hún myndi þannig óneitanlega sem formaður koma inn sem fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystusveit flokksins, auk þess að hafa mikla reynslu í farteskinu. Vandi Sivjar er hins vegar sá að hún hefur verið umdeild innan flokksins og hluti af þeim átakalínum sem hafa legið um hann þveran og endilangan (að mér skilst).

Þ.a. hjá Framsóknarflokknum er engin augljós valkostur í formanninn, a.m.k. ekki enn sem komið er. Það kann þó að breytast hratt, sérstaklega ef núverandi formaður ákveður í aðdraganda næsta flokksþings að stíga til hliðar

Það gæti því farið svo að allir flokkarnir sem nú sitja í stjórnarandstöðu mæti til næstu kosninga með nýja menn og konur í brúnni. Fyrir alla áhugaaðila um íslensk stjórnmál er það óneitanlega spennandi tilhugsun.

2 ummæli:

  1. Aumt er að sjá í einni lest
    Áhaldsgögnin slitin flest
    Dapra konu drukkin prest
    Drembin þræl og meiddan hest

    Þessi frá Bólu Hjálmari kom í hugan vegna samantektar þinnar um vanda Frammsóknar í mannvali til forustu

    SvaraEyða
  2. Allt saman i raun satt og rett og kominn timi til adgerda a fleiri vigstødvum en einum.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.