Karpið um frá hverjum frumkvæðið að hækkun stýrivaxta er komið er ekki sérlega hjálplegt. Sérstaklega þar sem gera má ráð fyrir að allir hafi að einhverju marki rétt fyrir sér.
Fyrir liggur að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur nú til umfjöllunar aðstoðarbeiðni Ríkisstjórnar Íslands. Hún er sett fram m.a. með svokölluðu “Letter of intent” sem samkvæmt venju er yfirleitt undirritað af oddvita ríkisstjórnar, í okkar tilviki forsætisráðherra, og seðlabankastjóra seðlabanka viðkomandi ríkis. Í “Letter of intent” felst aðgerðaráætlun stjórnvalda, sem, í ljósi uppljóstrunar Seðlabankans í gær, við vitum nú að er í a.m.k. 19 liðum.
Aðgerðaáætlun eins og sú sem þar er sett fram verður að jafnaði til í samræðum milli fulltrúa stjórnvalda viðkomandi ríkis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í tilfelli eins og Íslands, þar sem um er að ræða vestrænt lýðræðisríki með opið markaðshagkerfi, og hvers vandræði stafa af markaðshruni, en er ekki bein afleiðing stjórnvaldsástands (ríkisútgjöld og -skuldir úr öllum böndum, stjórnarkreppa o.þ.h.) er ekki um hefðbundnar samningaviðræður að ræða. Þaðan af síður er um það að ræða að sjóðurinn stilli Íslandi upp við vegg og setji úrslitakosti.
Undanfarnar vikur hafa fulltrúar sjóðsins verið hér á landi. Þeir hafa fundað með fulltrúum stjórnvalda og seðlabanka. Á þeim fundum hafa án efa komið fram ráðleggingar um stefnumörkun, m.a. með tilliti til hvað sé líklegast til þess að fá jákvæða afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Niðurstaðan er síðan endurspegluð í aðgerðaráætluninni, eða “letter of intent”. Íslensk stjórnvöld ráða þannig sjálf hvað er á endanum í því skjali, en augljóslega mun það endurspegla það sem ráðgjafar sjóðsins hafa gefið til kynna að verði vænlegast til árangurs. Annars vegar í því verkefni sem hér er að vinna við endurreisn hagkerfisins, og hins vegar til að skapa aðgerðaráætluninni þann trúverðugleika til að hljóta náð fyrir augum stjórnar alþjóðagjaldeyrissjóðsins og, þar í framhaldi, í augum þeirra ríkja sem munu koma Íslandi til aðstoðar með frekara fjármagn.
Er ákvörðunin um stýrivaxtahækkun þannig krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Nei, en samt!
Þörfin á stýrivaxtahækkun og uppstilling hennar sem hluta að aðgerðaráætluninni var líkast til sameiginleg niðurstaða viðræðna fulltrúa ríkisstjórnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans. Hver á endanum var í ökumannssætinu er þannig hálf tilgangslaus þræta.
Ákvörðun Seðlabankans að birta með þeim hætti sem gert var í gær sérstaka yfirlýsingu um þennan þátt aðgerðaráætlunarinnar er hins vegar óneitanlega sérkennileg. Ég efast um að yfirmenn í öðrum ríkisstofnunum myndu komast upp með að koma fram með viðlíka hætti án ákúru, líkast til formlegrar áminningar og jafnvel brottreksturs. Trúnaðarbresturinn milli Ríkistjórnar Íslands og bankaráðs Seðlabankans virðist alger og vandséð annað en að önnur hvor hljóti að víkja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.