föstudagur, 17. október 2008

Egill, utanríkisþjónustan og öryggisráðið

Hinn mæti sjónvarpsmaður Egill Helgason bloggkollegi minn hér á eyjunni er einn fjölmargra sem á þessum síðustu og verstu er uppsigað við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Það er skoðun sem á alveg rétt á sér.

Hins vegar rennur manni blóðið til skyldunnar þegar sú andstaða kemur fram í færslum af þessu tagi.

Hér fullyrðir Egill beinlínis að utanríkisþjónustan sé ekki að sinna vinnu sinni við "að laga orðspor Íslendinga í útlöndum" vegna þess að þar séu allir svo uppteknir við framboðið til öryggisráðsins.

Ekkert er eins fjarri sanni.

Utanríkisþjónustan eins og hún leggur sig er undirlögð í þetta verkefni, þar með talið það teymi sem nú er statt í New York að sinna öryggisráðsframboðinu nú á síðustu metrunum.

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar erlendis, í öllum okkar sendiráðum, er vakið og sofið að sinna þessu verkefni. Eðli máls samkvæmt mæðir meira á sumum en öðrum og leitar hugurinn sérstaklega til minna samstarfsfélaga í London sem nú sinna störfum sínum undir vopnaðri gæslu - ekki af tilefnislausu.

Í athugasemd við tilvísaða færslu tekur Anna Jóhannsdóttir, formaður starfsmannafélags utanríkisþjónustunnar, upp hanskan fyrir þjónustuna og leyfi ég mér að birta hana hér í heild sinni:

Það er virkilega ódýrt og vanhugsað að slengja fram fullyrðingum af því tagi sem koma fram hjá Agli hér í þessum stutta pistli. Við sem störfum í utanríkisþjónustunni þurfum því miður oft að sitja undir atvinnurógi af þessu tagi - í fyrsta lagi vegna þess að menn reyna á stundum að koma höggi á okkar pólitísku yfirmenn og í öðru lagi vegna þess að sem opinberir starfsmenn erum við almennt bundin þagmælsku og trúnaði um þau verkefni sem við sinnum. Ég get hins vegar fullvissað þig Egill og þá sem hér hafa kastað inn sínum athugasemdum, að við höfum sett allan okkar kraft í að vinna gegn því gjörningaveðri sem nú gengur yfir íslensku þjóðina á alþjóðavettvangi og munum halda því áfram.

Undanfarnar vikur hafa samstarfsmenn mínir víða um heim unnið myrkranna á milli við að koma málstað okkar Íslendinga á framfæri, í alþjóðastofnunum, hjá stjórnvöldum í sínum umdæmislöndum, gagnvart sendiherrum annarra ríkja, erlendum fjölmiðlum og viðskiptalífi. Starfsmenn úr ráðuneytinu hafa verið lánaðir til starfa við fjölmiðlamiðstöð og samskipta við erlenda fjölmiðla, upplýsingamiðstöð stjórnkerfisins er rekin og mönnuð af starfsmönnum okkar og allt okkar fólk hefur lagt nótt við dag og verið kallað til starfa við margskonar verkefni sem kallað hefur verið eftir.

Sem betur fer hefur íslenska þjóðin á að skipa öflugri og sveigjanlegri utanríkisþjónustu sem getur, þó hún sé smá í sniðum, brugðist við, upplýst og aðstoðað. Margir Íslendingar hafa fengið aðstoð, ráðgjöf og fyrirgreiðslu í gegn um íslensku sendiráðin og borgaraþjónusta ráðuneytisins er með vakt allan sólarhringinn.Við höfum öflugt fólk í New York sem er að ljúka ákveðnu verkefni sem Ísland ákvað fyrir löngu að ráðast í. Ég veit að það fámenna teymi mun ljúka því með sóma hvernig sem atkvæðagreiðslan fer. Uppbygging á orðspori, trausti og ímynd Íslands á ný verður eflaust eitt stærsta verkefni okkar næstu árin og þá búum við að reynslu og tengslum sem munu nýtast okkur áfram í því starfi.

Anna Jóhannsdóttir
formaður starfsmannafélags utanríkisráðuneytisins

Egill Helgason svarar þessari athugasemd með þessum hætti:

Útþanin utanríkisþjónustan, sem ætlar að bæta við sig útgjöldum upp á 33 prósent á fjárlögum næsta árs, með gamla pólitíkusa sem sendiherra – alltof mikinn fjölda sendiherra – óþarflega mörg sendiráð – alltaf verið að stofna ný – framboð til Öryggisráðs sem nýtur stuðnings mikils minnihluta þjóðarinnar.
Allt þetta í ríki sem telur 300 þúsund hræður.

Þetta er ekkert sérstaklega til þess fallið að auka virðingu á starfseminni.

Kemur því ekkert við hvort fólkið sem vinnur í ráðuneytinu er gott eða vont.

Og - það sér voða lítil merki þess að kynning á málstað Íslands hafi verið árangursrík og varla er hægt að segja að erlendu fréttamönnunum sem hingað komu hafi mætt eitthvert súper-PR.

Eitt aðalvandamáli með utanríkisþjónustuna er að hún er yfirleitt í höndum formanns næst stærsta flokksins í ríkisstjórn. Hann vill náttúrlega setja sitt mark sem ráðherra og pólitíkus – og af því hlýst endalaus ofvöxtur.

Er ekki hugsanlegt að skera utanríkisþjónustuna niður um ja... einn þriðja? helming? tvo þriðju?

Virkar frekar eins og massívt klúður.

Þessi athugasemd ber ekki vott um mikla greiningu - hún er fullyrðing út í loftið án mikilar fyllingar. Hún er reyndar í anda færslu Egils frá því fyrr í mánuðinum, en við hana gerði ég eftirfarandi athugasemd:

Stærsti hluti kostnaðar vegna veru Íslands í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er þegar kominn fram, en var vegna framboðsins sjálfs. Stórum hluta kostnaðarins við veruna í sjálfu ráðinu verður mætt með sparnaði annars staðar innan utanríkisþjónustunnar, eða eins og segir á upplýsingasíðu framboðsins:

“Þó að óumflýjanlegt sé að fjölga frekar starfsmönnum í fastanefnd Íslands í New York, verður það gert með tilfærslu starfsmanna úr ráðuneytinu. Litið verður á framboðið sem tímabundið forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar, sem önnur verkefni víkja fyrir á meðan á því stendur.”

(Sjá:
http://www.iceland.org/securitycouncil/islenska/frambod-islands/kostnadur/ )

Tugprósenta aukning framlaga til utanríkisráðuneytisins í nýju fjárlögunum, eða um 28% frá fyrra ári (2,5 milljarðar) eiga sér þær skýringar að a.m.k. 3/5 hlutar eru vegna aukinna framlaga til þróunarmála (1,5 milljarðar), en afgangurinn er vegna launabreytinga í kjölfar kjarasamninga og vegna neikvæðrar gengiþróunar sem endurspeglast í hærri kostnaði vegna sendiskrifstofa erlendis.

(Sjá: http://hamar.stjr.is/Fjarlagavefur-Hluti-II/GreinargerdirogRaedur/Fjarlagafrumvarp/2009/Seinni_hluti/Kafli_3-03.htm )

Má ekki frekar búast við að ef Ísland kemst í Öryggisráðið, fyrir utan að eiga þangað fullt erindi, að þá verði það gott fyrir þjóðarskapið?

Utanríkisþjónustan, umfang hennar og kostnaður er alls ekki hafin yfir gagnrýni og umræðu, þvert á móti. Hafa ber jafnframt í huga að verkefni utanríkisþjónustunnar eru ákvörðuð af okkar pólitísku leiðtogum. Tugprósentahækkun framlaga til utanríkisráðuneytisins milli ára skýrist, eins og fram kemur hér að ofan, fyrst og fremst af stórauknu framlagi okkar til þróunarmála. Að baki því hvílir sú pólitíska ákvörðun að Ísland standi sig betur í þeim efnum og færi sig nær hinum Norðurlöndunum hvað það varðar. Þrátt fyrir þessa aukningu, erum við enn miklir eftirbátar þeirra á þessu sviði.

Um þetta verkefni, og önnur, sem utanríkisþjónustan sinnir, stærð hennar, markmið og umfang, er sjálfsagt að ræða. Í slíkum umræðum er þó alltaf betra að halda sig við staðreyndir frekar enn fullyrðingar. Þannig verður umræðan markvissari og getur haft áhrif til betri stefnumörkunnar og ákvarðanatöku.

Ég minni svo á að kosningin í öryggsráðið fer fram nú í dag, og eins og fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá því í gær verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá kjörinu á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna (http://un.org/webcast/).

Áfram Ísland!

4 ummæli:

  1. Gott hjá þér Friðrik að koma fram með svona færslu. Í henni kristallast nákvæmlega það sem ég og margir í kringum mig óttast mest;flokkshollir, bitlingaþegar og pólitískir atvinnumenn koma til með að verja brunarústir kerfisins fram í rauðan dauðan. Þú eins og sumir aðrir sem titla sig "framsóknarmenn" eða "sjálfstæðismenn" gera sér ekki grein fyrir því að það þarf að gefa uppá nýtt. Nú eða er hrætt við að verða úti nú í vetur.
    Það að fólk sem tengist ráðuneyti eða utanríkisþjónustu sé um leið yfirlýst pólitískir sendlar og messaguttar er eitt það fyrsta sem þarf að hreinsa út. Betri leið en að skera þennan allan af er besta leiðin til að koma heilbrigðri fagmennsku að í opinbera geiranum. Ef þú ert hæfileikamaður á þínum vettvangi þá þarft þú ekkert að óttast þú kemst að nýju jötunni. Þú veist að gamla fjárhúsið og framsóknarfjósið eru hinsvegar brunnin og verða ekki byggð upp aftur ef almenningur fær að ráða. Almenningur hefur nú áunnið sér rétt til að gefa uppá nýtt og commissaraliðið verður bara að bíta í það.Hættu að verja þinn stað við brunna jötuna og hjálpaðu okkur að byggja nýtt og betra hús.

    SvaraEyða
  2. Reynum að semja við Norðmenn eða Dani um samstarf í utanríkisþjónustu.
    Þá getum við hreinsað þessar lýs af okkur svona að mestu. Varla er meiri sársauki í uppsögnum þarna en annarsstaðar
    Ég held að áhugi Íslands á sæti í öryggisráðinu og öll hirðin í kring um þann gjörning sé til kominn vegna græðgi Halldórs Ásgrímssonar fyrrverandi utanríkisráðherra í sporslur og dagpeninga Þarna má svo sannarlega hreinsa til.

    SvaraEyða
  3. Bloggfærslur Egils Helgasonar minna mig meir og meir á Útvarp Sögu, Ágætir sprettir af og til, en flest hálfgert bull. Má ekki fara að kalla síðuna "Sögueyjan".

    SvaraEyða
  4. Það hlýtur að þurfa að endurskoða þá upphæð sem við erum að setja í þróunaraðstoð(1,5 mia), þar sem við sjálf erum orðin 3.heimsríki

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.