mánudagur, 20. október 2008

Óróamenn í Framsóknarflokknum

Það er hárrétt sem kemur fram hjá Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, í Fréttablaðinu í morgun, að á síðustu árum hafa ýmsir óróamenn gengið í flokkinn og unnið honum tjón. Það versta er að sumir þessara manna hafa átt það til að enda inni á þingi fyrir hönd flokksins!

Á síðasta kjörtímabili var Kristinn H. Gunnarsson þessi óróamaður. Allir vita hvernig sú saga endaði. Á þessu kjörtímabili hefur hins vegar téður þingmaður, Bjarni Harðarson, tekið við hlutverki óróamannsins.

Evrópusambandsandstaða Bjarna er vel þekkt, en hefur sífellt meir nálgast móðursýkisstigið eftir því sem umræðan um mögulega aðildarumsókn hefur þyngst í þjóðfélaginu. Hún hefur nú gengið svo langt að þingmaðurinn hótar nú bæði stjórnmálalegri borgarastyrjöld, sbr. þessi bloggfærsla hans hér, og helst úrsögn úr EES-samstarfinu. Í þættinum Í kallfæri með Jóni Kristni Snæhólm á sjónvarpsstöðinni ÍNN í síðustu viku lýsti Bjarni því einmitt yfir að næsta verkefni væri að koma Íslandi úr EES-samningnum.

Það er gott til þess að vita að framsóknarmenn í suðurkjördæmi hafa lært ákveðna lexíu af reynslu framsóknarmanna í norðvesturkjördæmi. Á síðasta kjörtímabili fór nefnilega töluverður tími á kjördæmisþingum í norðvesturkjördæmi í það að "hafa kallinn góðann!"

Framsóknarmenn í suðurkjördæmi virðast hins vegar hafa lítinn áhuga á að dekstra óróamanninn Bjarna Harðarson. Því var tillögum hans til stjórnmálaályktunar kjördæmisþingsins hafnað. Ein endurspeglaði andstöðu hans við EES-samninginn - henni var hafnað. Önnur var gegn matvælareglugerð Evrópusambandsins, en upptaka hennar var undirbúin í landbúnaðarráðherratíð formanns flokksins - henni var hafnað. Og sú þriðja var sú sem vísað er til í frétt Fréttablaðsins "...að kjördæmisþingið tæki undir með orðum formannsins að umræða um Evrópumál væri ekki tímabær" - henni var líka hafnað, að frumkvæði formannsins!

Sú yfirlýsing formannsins féll í grýttan farveg meðal margra flokksmanna, þ.m.t. undirritaðs. Formaðurinn virðist hins vegar að einhverju leyti hafa séð að sér, ef dæma má þessa frétt á visir.is frá því sl. laugardag.

Stórt spurningamerki hlýtur nú að vera við pólitíska framtíð Bjarna Harðarsonar innan Framsóknarflokksins.

5 ummæli:

 1. Það er merkilegt með okkur framsóknarmenn að við eigum voðalega erfitt með að standa saman þessa dagana. Vandamálið er að við höfum formann sem er ekki í takt við tímann, flokkinn og höfðar ekki til hins almenna kjósanda. Hann skynjar ekki þær breytingar sem eru og hafa orðið á þjóðfélaginu á undaförnum árum. Því fer svo að þegar hann kveður sér hljóðs þá er það einfaldlega alveg óskiljanlegt fyrir fólk. Hann lifir í gamla tímanum. Það hefur enginn sagt við hann, að hann valdi ekki þessu starfi. Því er nauðsynlegt að skipta um formann, ef að þessi flokkur á að lifa. Það kemur bara einn til greina og það er Valgerður.

  kv.

  Helgi Njálsson

  SvaraEyða
 2. Mér finnst reyndar Guðni sýna talsvert meiri vísýni en margir aðrir; í Eldhúsdagsumræum var hann sá eini sem lagði fram vitræna og framkvæmanlega stefnu.

  Fyrir mig, sem hálfgidings framsóknarmann, þá er sú stefna sem fylgir Bjarna ekki góð því henni mun fylgja gríðarlegur landflótti. Ef hins vegar Framsókn tekst að feta sig í þá átt sem Friðrik stefnir þá er kominn flokkur sem maður getur stutt.

  SvaraEyða
 3. hvernig væri að njóta þess að vera í stjórnarandstöðu?

  Forréttindin við það eru m.a. þau að flokksmenn geta leyft sér að halda fram ólíkum skoðunum, eitt útilokar ekki annað.

  Þegar flokkurinn kemst svo aftur í stjórn kemur í ljós hvaða kúrs verður tekinn, stjórnarsáttmáli sú almenna málamiðlunargleði sem þeim gjörningi fylgir.

  Þú fyrirgefur mér ef ég fer með rangt mál en eru ekki veigameiri mál og gildi sem sameina Framsóknarmenn en Evrópumálin (sem kljúfa alla flokka).

  SvaraEyða
 4. Sæll Friðrik og þakka þér þessa skáldsögu um Kjördæmisþing okkar í Suðurkjördæmi. Ósannindi eru þér auðvitað frjáls eins og öðrum sem stunda undirróður. Bara sem dæmi um missagnir er ein af þeim miklu breytingatillögum sem þú nefnir að hafi verið beint gegn mér tillaga frá mér sjálfum...

  En eftir lestur þessa merkilega pistils held ég að lesendur þessa bloggs ættu að lesa nefnda frétt Fréttablaðsins í morgun um óróamenn í flokknum,- ég er að tala um vinnubrögð eins og þau sem eru tíðkuð á þessari síðu.

  Datt reyndar ekki í hug að menn kveinkuðu sér svo undan þeim sannleika að þeir gripu til ósanndina eða þess eins og að kalla undirritaðan móðursjúkan. En svo það sé á hreinu er það hverjum manni heimilt ef hann hefur af því fró. En slíkt hjálpar engum málstað.

  Tilfellið er að nefnd stjórnmálaályktun félaganna í Suðurkjördæmi var samþykkt í mikilli eindrægni og samhljómi um öll atriði. Þar voru samt menn með ýmsar skoðanir en allt uppbyggjandi fólk og þannig fólki er gott að vinna með Friðrik, hvort sem það eru svo Evrópusinnar eða ekki.

  PS: Hvenær var lagt bann við því innan flokksins Friðrik minn að vera gagnrýninn á EES samninginn sem enginn í flokknum studdi þegar honum var þröngvað inn 1993!

  SvaraEyða
 5. @Nafnlaus / Helgi Njálsson:

  Það dylst engum að Guðni og Valgerður eru bráðabirgðateymi sem forysta. Hvorugt á mikla framtíð í pólitík. Ég held þó að ef þú hugsar eitthvað um vinsældir, þá sé Guðni skárri kostur. En það var söknuður að Jóni Sig. Hann var frábær. Framtíðin hlýtur úr því sem komið er að liggja í nýrri kynslóð. Það er smátilvísun í þetta á mínu bloggi ..
  http://einarsmaeli.blog.is
  ef einhver nennir að lesa.

  En ég er sammála þér um hitt að við þyrftum að standa betur saman. Ég held samt ekki að við eigum að vera kór eintómra jábræðra, þá stefnum við að því að vera bara lítill flokkur með pláss fyrir þá eina sem eru sammála.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.