miðvikudagur, 15. október 2008

Leiðin að nýju Íslandi

Eftirfarandi grein skrifuð sameiginlega af undirrituðum, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, formanni Sambands ungra framsóknarmanna, og Gesti Guðjónssyni, ofurbloggara og meðlimi í málefnanefnd Framsóknarflokksins, birtist í Fréttablaðinu í dag og einnig á visir.is:

Leiðin að nýju Íslandi

Þungbært áfall síðustu viku hefur gert okkur það ókleift að halda úti sjálfstæðri mynt.

Fyrir hrunið var eðlilegt að skoða og meta alla kosti til hlítar. Gjaldmiðilsskýrsla Framsóknarflokksins sýndi með rökum að kostirnir voru í raun aðeins tveir, en nú blasir aðeins einn kostur við að okkar mati.

Upptaka evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu er eini raunhæfi valkosturinn í núverandi stöðu ef Ísland á áfram að vera hluti af innri markaði Evrópu. Atburðir undanfarinna tveggja vikna, meðal annars árangurslaus málaleitan Seðlabankans hjá Englandsbanka og Evrópska seðlabankanum, sýna svo ekki verður um villst að varnaglar og stoðkerfi EES-samningsins eru ekki fullnægjandi hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.

Sá kostnaður sem mun falla á ríkissjóð í kjölfar atburða síðustu daga, liggur ekki fyrir, en ekki er óraunhæft að ætla að hann geti numið allt að þúsund milljörðum króna. Heilli billjón.

Það er jafnmikið og talið var að þyrfti að hafa í gjaldeyrisvarasjóði til að styðja við krónuna og íslenskt efnahagslíf fyrir hrun fjármálakerfisins. Eftir hrunið er ljóst að gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera enn stærri hlutfallslega. Krónan hefur verið auglýst sem mynt sem ekki er hægt að standa á bak við, sérstaklega í kjölfar misheppnaðrar tilraunar Seðlabankans í síðustu viku til að festa gengi krónunnar. Líklega þarf gjaldeyrisvarasjóðurinn af þessum sökum að vera þreföld þessi upphæð, en sérfræðingar kunna betur að meta það.

Einungis vaxtakostnaðurinn af slíkri upphæð, auk þess taps sem er að falla á okkur núna, yrði að lágmarki 100 milljarðar á ári, eða allt að 10% af landsframleiðslu fyrir hrun. Það er að því gefnu að Ísland fengi yfirhöfuð slíka fjármuni að láni til lengri tíma.Ísland hefur þannig tæplega efni á því til frambúðar að vera með slíka fjármuni liggjandi um leið og greiða þarf niður reikninginn eftir hrunið. Að auki þarf að halda áfram að greiða annan rekstur, s.s. heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið. Óhugsandi er að aðild að ESB verði Íslandi svo kostnaðarsöm.

Því leggjum við til eftirfarandi:

1. Íslendingar taki boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um aðstoð. Í þeirri aðstoð felst m.a. að sjóðurinn mun koma í kjölfarið með verulega fjármuni sem munu styrkja gengi krónunnar og færa það til meiri stöðugleika. Rætt hefur verið um að sjóðurinn, ásamt öðrum aðilum, geti komið með allt að 8-9 milljarða evra að láni hingað til lands. Æskilegt væri að samhliða yrði gerður samningur við Evrópska seðlabankann um að hann samþykki að gengi krónunnar yrði tímabundið fest við evru og hann gefi yfirlýsingu um stuðning sinn við það fyrirkomulag.


2. Einn eða fleiri af nýju bönkunum verði seldir erlendum banka.

3. Farið verði í mikla atvinnuuppbyggingu og sköpuð störf fyrir þá sem nú hafa misst vinnuna. Ívilnandi möguleikar gagnvart erlendum fjárfestum verði nýttir til hins ítrasta, en verðmætin í starfsfólkinu og hagsmunir af takmörkun atvinnuleysis eru svo mikil að það er réttlætanlegt.

4. Sótt verði um aðild að ESB hið fyrsta og samningur um aðild lagður í þjóðaratkvæði. Fordæmi benda til þess að við getum haldið fiskimiðunum fyrir okkur, eins og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur rakið. Stjórnmálaleiðtogar og æðstu embættismenn sambandsins hafa þegar lýst yfir vilja til samninga um þetta efni.

5. Samtímis verði þjóðaratkvæðagreiðsla um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

6. Strax í kjölfar aðildar verði Ísland aðili að gengisstöðugleikasamkomulagi ESB (ERM) og bindi þannig varanlega gengi krónunnar við evru innan ákveðinna vikmarka. Þegar skilyrði Maastricht verða uppfyllt, gerist Ísland aðili að Evrópska seðlabankanum, evra verður tekin upp sem lögeyrir á Íslandi og hægt verður að greiða IMF aftur lán sitt - með þökkum.

7. Einn eða fleiri af bönkunum yrðu á ný boðnir þjóðinni í dreifðri sölu.

8. Með þessu verður Íslendingum gert kleift að endurheimta að fullu sitt traust á alþjóðavettvangi, þó það gæti tekið einhver ár.

Að öðrum kosti er líklegt að traust okkar muni seint, ef nokkurn tímann, endurheimtast og við sætum verulegum takmörkunum í alþjóðaumhverfinu. Afleiðingar þessa yrðu þær að lífskjörum hér mun hraka þannig að helst verði hægt að bera þau saman við þróunarlönd. Að auki mun flest okkar besta fólk og bestu fyrirtæki flýja land. Það yrði stærsta tjónið til frambúðar.

Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum.

5 ummæli:

 1. Heyr, heyr. Það er félagshyggjuhugsjónirnar sem byggðu landið upp. Það eru hugsjónir félagshyggjunar sem munu reisa landið við á ný. Það besta sem íhaldið getur gert er að vera ekki fyrir, og hafa vit á því.

  Einnig, enga norðmenn og nýja "Gamla Sáttmála". Það tók okkur yfir 400 hundruð ár að losna undan liðinu sem hefði betur farið í fallöxina. Við eigum heima með öðrum lýðveldum í ESB.

  SvaraEyða
 2. Þessi yndislegu sjórnmálasamtök sem færðu okkur hinn mikla og glæsta leiðtoga Halldór Ásgrímsson sem réði til starfa vitringinn Davíð Oddsson í stöðu seðlabankastjóra eru alltaf fús til góðra verka.Samt fækkar stöðugt þeim sem bera traust til þeirra.Staða flokksins er því óljós.
  Þar sem þjóðkirkjan hefur lagt niður æskilegt framtíðarheimili flokksins óska ég þess að forusta hans og fylgi megi ráfa um sólsviðnar eyðimerkur Íraks allt til dómsdags.

  SvaraEyða
 3. Nú hef ég aldrei kosið Framsóknarflokkinn og yfirleitt ekki verið sammála stefnumálum flokksins þegar að kemur að atvinnu uppbyggingu.

  Ég er þó 100% sammála ofangreindum atriðum.

  Það mistókst að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Það einfaldlega gengur ekki í alþjóðahagkerfi nútímans að halda úti örmynt sem að þjónar tæplega 310.000 manns. Til þess er hún of smá og of veikburða. Kostnaðurinn við krónuna er ekki aðeins of mikill fyrir heimilin í landinu heldur hefur líka reynst byrði fyrir fyrirtækin. Það sem að skiptir kannski mestu máli er að hún hefur nú þegar skaðað komandi kynslóðir á Íslandi. Það verður þeirra verk að borga skaðann sem að nú hefur skollið á af fullum þunga á íslensk heimili og fyrirtæki.

  Viljum við virkilega að börnin okkar og barnabörn þurfi að borga fyrir hagstjórnarmistök síðustu ára og áratuga ?

  Hérna í Danmörku á að kjósa um Evruna fyrir árið 2011. Hérna eru menn að tala um þvílík mistök það hafi verið að ganga ekki strax í myntbandalagið. Fólki finnst það út í hött að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli fyrir 5.000.000 íbúa.

  Ísland nær ekki einu sinni einum tíunda af þessum íbúafjölda og samt er stærsti stjórnmálaflokkurinn sannfærður um ágæti eigin stefnu og íslensku krónunnar.

  Það hefur engin aðildarþjóða Evrópusambandsins upplifað kreppuna á jafn harkalegan hátt og íslenska þjóðin. Hvaða tilfinningar sem að við kunnum að hafa gagnvart ESB og Evru þá skuldum við komandi kynslóðum að hérna ríki stöðugleiki, blómstrandi nýsköpun, náttúra sem að gengið er um af virðingu (en ekki resit álver við hverja einustu lækjarsprænu) og að hérna hé sanngjarnt skattaumhverfi, góð laun í samræmi við menntun og reynslu, að Íslendingar njóti trausts á alþjóðavettvangi, að á Íslandi sé öflugur og stöðugur gjaldmiðill sem að þjóni hagsmunum almennings og atvinnulífsins og að Ísland sitji við sama borð og aðrar aðildarþjóðir Evrópusambandsins og geti þar með lagt fram kunnáttu sýna og þekkingu og komið skoðunum sínum á framfæri þegar að kemur að löggjöf sambandsins.

  Bendi að lokum á pistil eftir þingmann Framsóknarflokksins, Bjarna Harðarsson frá 23 September sem að er eilítið grátbroslegur miðað við ástandið í dag:

  http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/650187/

  Með bestu kveðju úr Kaupmannahöfn,

  J.H.Jakobsson

  SvaraEyða
 4. Slóðin á pistil Bjarna misfórst eitthvað. Reyni aftur.

  http://bjarnihardar.blog.is/blog/
  bjarnihardar/entry/650187/

  SvaraEyða
 5. Hey!
  Seljum breskum banka alla bankana, rukkum kaupverðið og rænum honum síðan aftur með terroristalögum.
  Málið leyst!

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.