föstudagur, 14. nóvember 2008

Bræðrabyltur Framsóknar og aðild að ESB

Afsögn þingmanns Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi var fyrir marga hluti söguleg. Á yfirborðinu var þetta afleiðing þess að þingmaðurinn fór offari í persónuárásum á félaga sinn í þingflokknum og varaformann flokksins. Undir yfirborðinu virðist hins vegar krauma að í aðdraganda miðstjórnarfundar flokksins, sem verður nú næstkomandi laugardag á hótel Loftleiðum, og á fundinum sjálfum, ætli Evrópuandstæðingar innan flokksins að láta sverfa til stáls.

Bréfið sem þingmaðurinn vildi leka nafnlaust til fjölmiðla inniber miklar ásakanir á hendur varaformanni flokksins fyrir þau verk sem unnin voru í hennar ráðherratíð. Því miður segir mér svo hugur að það bréf hafi tæpast verið skrifað að undirlagi þeirra sem undir það skrifa – að hér sé á ferðinni annað og meira. Basl Bjarna hafi verið leikur peðs í stærra tafli.

Afstaða Framsóknarflokksins til aðildar að Evrópusambandinu hefur ætíð verið tvíklofin. Evrópusinnar innan flokksins hafa hins vegar ætíð verið tillitsamir gagnvart hinum smáa, en harða, kjarna andstæðinga aðildarumsóknar. Sú tillitsemi hefur komið fram í því að á flokksþingum hefur aldrei verið látið sverfa til stáls í málinu, en menn samþykkt moðsoðnar málamiðlanir sem átt hafa að brúa bil beggja, en ekki tekist.

Kaflaskil urðu á miðstjórnarfundi flokksins sl. vor þegar samþykkt var að leggja til tvöfalda bítið – tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrst um hvort sækja ætti um, og ef það væri samþykkt, seinni þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu samningaviðræðna.

Langt í frá fullkomin lausn, en henni var fyrst og fremst ætlað að koma umræðunni um aðild upp úr þeim hjólförum stjórnmálanna sem hún hafði spólað í meira en áratug. Með einhverjum hætti þyrfti málið að komast á dagskrá – af eða á.

Vandi andstæðinga aðildarumsóknar er hins vegar sá að þeir vilja ekki umræðuna. Ekki er hægt að skilja þá öðruvísi en svo að allar aðgerðir sem hugsanlega gætu leitt til þess að Ísland myndi sækja um aðild að Evrópusambandinu séu stórhættulegar. Þjóðin má ekki fá að komast að hvaða aðildarkosti ESB mun bjóða því henni gæti vel líkað og samþykkt aðild!

Heiftin í andstæðingum aðildarumsóknar hefur verið vel endurspegluð af skrifum fyrrum þingmanns Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, nægir þar að lesa hinar mýmörgu bloggfærslur hans þar um og ófáar blaðagreinar. Það virðist jafnframt vera mörgum Evrópuandstæðingnum um megn að færa rök fyrir máli sínu án brigsla um landráð og undirlægjuhátt gagnvart skriffinnum í Brussel.

Í Framsóknarflokknum er greinilega vaxandi stemning fyrir því að gera út um málið á einn eða annan hátt. Á kjördæmisþingum flokksins undanfarið hefur það verið vel-merkjanlegt að fylgjendum aðildarumsóknar hefur fjölgað til muna. Ennfremur er þeim orðið það ljóst að ekki verður dregið lengur að Framsóknarflokkurinn taki efnislega afstöðu til málsins.

Það er í þessu ljósi sem hugsanlega þarf að skoða tilraun þingmannsins fyrrverandi til að vega að varaformanni flokksins úr launsátri. Eins og áður segir læðist því miður að sá grunur að hér sé á ferðinni annað og meira en persónuværingar og framundan sé mikill átakafundur í miðstjórn þar sem hvergi verði undan dregið í því að vega mann og annan. Vonandi ber mönnum hins vegar gæfa, í líklegu uppgjöri um framtíðarstefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum, til að halda umræðunni á efnislegum nótum.

4 ummæli:

 1. Um orðin "Því miður segir mér svo hugur að það bréf hafi tæpast verið skrifað að undirlagi þeirra sem undir það skrifa – að hér sé á ferðinni annað og meira." Ég þekki annan bréfritara það vel að ég treysti að fullyrða að hann lætur ekki segja sér fyrir verkum. Sigurður Árnason

  SvaraEyða
 2. Af hverju er ekkert af mannauði þjóðarinnar bundið í Framsóknarflokknum?

  SvaraEyða
 3. Muna bara að Valgerður var viðskiptaráðherra þegar ruglið byrjaði = Vanhæf
  Muna svo að Jón Sigurðsson var viðskiptaráðhera í miðju ruglinu = Vanhæfur
  Muna svo að Halldór Ásgrímsson var forsætis/efnahagsráðherra í miðju ruglinu = Vanhæfur.
  Hafið þetta í huga þegar þið byggið upp nýjan flokk á gömlum grunni.
  Neisti

  SvaraEyða
 4. Neisti: Þetta eru stór orð. En þú ættir að lesa grein Jóns Sigurðssonar, þar sem hann segir meðal annars:

  Við erum mörg sem berum ábyrgð á forsendum og aðdraganda þeirra. Nú þarf að rannsaka öll þessi mál á hlutlægan hátt og síðan að stokka öll samfélagsspilin. Við þurfum nýtt forystulið, ný andlit og ný nöfn. Við þurfum nýja byrjun og nýja stefnu. Við sem erum ábyrg eigum að hjálpa til en getum ekki tekið forystuhlutverk nema með sérstöku endurnýjuðu umboði.

  Sýnist þér hann vera að slá sig til riddara og ætla fram aftur? Mér sýnist einmitt að hann sé hógvær og lítillátur.

  Halldór er sem betur fer farinn af velli. Nú þurfa nýir að taka við.

  Slóðin að grein Jóns er:
  http://visir.is/article/20081107/SKODANIR03/9318950/-1

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.