laugardagur, 22. nóvember 2008

''Fjárhagsleg endurskipulagning''

Á bls. 33 í Morgunblaðinu í dag birtist eftirfarandi grein eftir fyrrum skólabróður minn úr Landakotsskóla, Hallbjörn Karlsson. Hún er skyldulesning og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

„Fjárhagsleg endurskipulagning“

Á SÍÐUSTU mánuðum hafa ómæld verðmæti Íslendinga glatast. Ástæðurnar eru margar en grundvallarástæða þess hvernig fór var óskynsamleg skuldsetning. Helstu fyrirtæki landsins voru og eru skuldsett úr hófi fram og hafa komið sér upp vonlausri fjármagnsskipan. Íslenskir bankar lánuðu til fyrirtækja og hluthafa þeirra á óskiljanlegan hátt þar til niðurstaðan gat ekki orðið önnur en sú sem við nú horfum upp á.

Undirritaður hefur rekið fjárfestingarfélag um allnokkurt skeið. Síðustu þrjú árin datt okkar félag hægt og rólega út af íslenskum fjármálamarkaði, nánast gegn eigin vilja. Ástæða þess var að allt sem við buðum í seldist fyrir mun hærra verð en við töldum viðunandi. Steininn tók úr í byrjun árs 2007 þegar fyrirtæki sem við buðum í seldist fyrir sexfalda þá upphæð sem við töldum eðlilega.

Síðustu þrjú árin skipti nefnilega ekki máli hvað fyrirtæki kostuðu; eina sem skipti máli var hvernig hægt væri að fjármagna kaupin. Í þessu umhverfi urðu til orð eins og „fjárfestingargeta“. Þetta er vitaskuld delluhugtak en það mælir hversu djarfir menn eru í því að bæta við lánum ofan á eigið fé sitt, sem vel á minnst var oft einnig tekið að láni, að hluta eða öllu leyti. Þetta orð dúkkar upp í Morgunblaðinu fyrst árið 2003 í umfjöllun um Bakkavör og nú síðast fyrir um ári í sambandi við REI. Fjárfestar sem notuðu mælieiningu eins og „fjárfestingargetu“ hefðu klárlega átt að finna sér annað að sýsla við en að fjárfesta. Og bankar hefðu að sjálfsögðu átt að átta sig á því risastóra rauða flaggi sem orðið „fjárfestingargeta“ stendur fyrir. Það gerðu þeir því miður ekki.

Of seint er að vinda ofan af þessum hugsunarhætti. Afleiðingarnar eru í dag öllum ljósar. Það sem skiptir hins vegar máli núna er að fara vel og rétt með þau verðmæti sem við þó eigum eftir.

Og verðmæti Íslendinga í dag eru bundin í íslenskum fyrirtækjum. Vandi þeirra er hins vegar skuldsetning langt úr hófi fram. Af þessum sökum eru mörg þessara fyrirtækja í raun í eigu skattgreiðenda þar sem þeir eru eigendur nýju viðskiptabankanna þriggja.

Því er nú lag fyrir skattgreiðendur að fá að njóta þess í framtíðinni ef það heppnast að búa til verðmæti úr ofurskuldsettum íslenskum fyrirtækjum. Ástæða þess er að þegar félag kemst í þrot og getur ekki greitt af skuldum sínum á að vera um tvennt að ræða. Fyrsti möguleikinn er að sá að hluthafar félagsins setji meira hlutafé inn í reksturinn, hugsanlega með einhverri hjálp frá kröfuhöfum. Ef hluthafarnir eru hins vegar auralausir eiga bankarnir, nánast án undantekninga, að taka yfir hlutafé og rekstur þessara fyrirtækja, finna nýja fjárfesta og helst breyta hluta af sínum kröfum í hlutafé. Með því móti gætu skattgreiðendur tekið þátt í þeirri verðmætaaukningu sem ætti að geta orðið á næstu árum. Þannig fengju skattgreiðendur til baka eitthvað af því sem af þeim hefur verið tekið.

Að sjálfsögðu vilja núverandi hluthafar „fjárhagslega endurskipulagningu“, orðatiltækið sem hefur tekið við af „fjárfestingargetu“. Það er huggulegra orðalag en „eftirgjöf skulda“. En hverjum væri slík aðgerð í hag? Þegar íslenskt fjárfestingarfélag, sem fyrir nokkrum mánuðum var hvað mest skuldsett allra félaga á Íslandi, og því með glæsilegustu „fjárfestingargetuna“, fer fram á „fjárhagslega endurskipulagningu“ hjá einum viðskiptabankanna okkar, er það í raun að biðja skattgreiðendur um að gefa sér pening. Væri það nú það skynsamlegasta í stöðunni eftir það sem á undan er gengið? Eða væri meira vit í því fyrir skattgreiðendur, í krafti sinna banka, að yfirtaka fjárfestingarfélagið og eignir þess, og reyna að gera sér mat úr þeim eignum sem þó standa eftir? Svarið við þessu á að vera augljóst hverjum Íslendingi.

Hættan er sú að bankarnir og skilanefndir þeirra séu ekki nægjanlega fljót að átta sig á hinu nýja hlutverki sínu, sem er að hámarka hag sinna nýju hluthafa; íslenskra skattgreiðenda. Sala á eignum félaga sem eru í greiðslustöðvun til stórra hluthafa án úboðs á ekki að líðast. „Fjárhagsleg endurskipulagning“ mjög skuldsettra félaga útrásarmanna á ekki að líðast. Sala eigna án þess að tryggt sé að við skattgreiðendur fáum bestu kjörin á ekki að líðast.
Ef það er ekki tryggt að hæstu tilboða sé leitað hverju sinni með opnu og gagnsæu ferli er verið að hlunnfara Íslendinga, enn eina ferðina. Það má ekki gerast.

Höfundur er meðeigandi í fjárfestingarfélaginu Vogabakka ehf.

5 ummæli:

  1. Heldur skuldafyllerí bankanna semsagt áfram? Lánsféð kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannalöndunum, inn í gömlu/nýju bankana, inn í fyrirtæki sem farin eru á hausinn, sem síðan fara aftur á hausinn. Allt er þetta í góðu lagi af því að almenningur er hvort eð er svo skuldsettur að nokkur þúsund milljarðar til eða frá "bítta" ekki máli. Er þetta ekki bara framtíðin sem ríkisstjórn Íslands er að bjóða okkur upp á og hótar því að kosningar myndu setja allt í uppnám? Eins og allt sé ekki þegar í uppnámi?

    SvaraEyða
  2. Þarna er nú bara enn einu sinni verið að byðja um fé skattgreiðenda, síðan eftir örfá ár munu sömu menn telja það algjörlega nauðsynlegt að selja einhverjum "vildarvinum" björguðu fyrirtækin fyrir lítið

    SvaraEyða
  3. Nú hefur almenningur hvorki fé né vit til að gera kröfur til skilanefnda. Hver er réttur þinn til að gera kröfur til skilanefnda um upplýsingar svo hægt sé að gera tilboð í fyrirtæki sem hægt væri að enduruppbyggja?
    Ragnar

    SvaraEyða
  4. Mikið vildi ég óska þess að fjölmiðlafólk spyrði ráðamenn spurninga um svona atriði, frekar en hvað persónulega með í húsnæðislán, hvort Davíð njóti trausts (okay að spyrja að því en ekki taka hvern viðtalsþáttinn á fætur öðrum undir ekki neitt annað), etc.

    Frábær grein, vona að sem flestir lesi og fái sem víðtækasta greiningu.

    SvaraEyða
  5. Er Sammála greinahöfundi. Hvað varðar aðgerða þáttinn. Spurning hvernig maður kemur honum í gagnið.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.