Í fyrradag var samþykkt með hraði frumvarp félagsmálaráðherra um greiðslujöfnun. Í því felst að hluti þeirra vísitöluhækkunar lána sem orðið hefur vegna mikillar verðbólgu er færður aftur fyrir. Þetta er skammgóður vermir - linar greiðslubyrði nú fyrst í stað, en kemur hart niður síðar.
Ekki var hægt að frysta, fresta eða taka úr sambandi vísitölubindinguna, m.a. vegna þess að fjármögnun íbúðalánasjóðs er öll vísitölubundin og þannig hefði eigi fé sjóðsins étist upp á örskömmum tíma ef lántakendum sjóðsins yrðu veitt einhver slík kjör.
Á þessum síðustu og verstu tímum þegar stjórnvöld hafa ekki vílað fyrir sér að setja til hliðar stjórnarskrá og í reynd ástunda gríðarlegar eignaupptökur er merkilegt að tölfræðilegur bastarður eins og vísitala neysluverð skuli njóta sérstakrar verndar og átrúnaðar.
Vísitala neysluverðs er mannsins verk. Samsetning hennar og framsetning er í valdi stjórnvalda.
Vitlaus samsetning vísitölunnar, þar sem húsnæðisliðurinn var tekinn inn að fullu, átti stóran þátt í að ýta undir þá fasteignaverðbólu og þar með verðbólgu sem hér hefur ríkt undanfarin ár.
Að sama skapi mælist verðbólgan hérlendis nú í hæstu hæðum vegna hruns á gengi krónunnar. Hávaxtastefna er keyrð til að vega á móti verðbólgu og þenslu sem í raun er ekki til staðar.
Í ljósi ástandsins, og þess neyðarástands sem hér ríkir, ætti stjórnvöldum að vera í sjálfsvald sett að breyta vísitölu neysluverðs með þeim hætti að hér eftir (og helst eitthvað aftur í tímann) verði hún framvegis birt gengisleiðrétt.
Það væri óvenjuleg aðgerð og án fordæmis, en það er ekkert nýtt á þessu síðustu og verstu tímum. Hugsanlega mætti tímatakmarka þessa ráðstöfun, svona til að koma að einhverju leiti til móts við lánveitendur og fjármögnunaraðila.
Staðreyndin er sú að í vísitölubundnum lánasamningum er jafnan vísað til vísitölu neysluverðs og átt við eins og hún er á hverjum tíma. Þessi breyting myndi þannig ekki leiða til eiginfjárbruna íbúðalánasjóðs. Vísitalan gegnir hlutverki tölfræðilegs vegvísis um verðþróun í þjóðfélaginu og á þannig að þjóna sem grunnur í ákvarðanatöku í efnahags- og sérstaklega peningamálum.
Sem slíkur vegvísir í núverandi gengisástandi er vísitalan ekki að virka. Hún gefur til kynna verðbólgu sem meira og minna er öll innflutt vegna gengisþróunarinnar. Innlend verðbólga er væntanlega hverfandi - og eins og áður sagði er þennslan löngu horfin, hér ríkir samdráttur.
Gengisleiðrétt vísitala neysluverðs væri líkast til aðeins fjórðungur eða fimmtungur af núverandi mældri verðbólgu. Hún gæfi þannig tilefni til lækkunar skammtímavaxta, og áhrifin á vísitölubundnu lánin yrðu veruleg til skamms tíma litið.
Þar sem almennt virðist talið að væntanlegt gengisfall krónunnar við endurfleytingu hennar á næstu dögum eða vikum muni leiða til gríðarlegs falls hennar til að byrja með, en svo muni hún rétta verulega úr kútnum, er ljóst að skaði fjármagnseiganda og lánveitenda í vísitölutryggðum lánum verður skammvinnur. Þjóðhagslegi ávinningurinn fyrir bæði fyrirtækin og heimilin í landinu gæti hins vegar orðið verulegur ef áður hefur verið komið á gengisleiðréttri vísitölu neysluverðs, og þannig komist hjá því að það gengisfall keyri allt í þrot vegna vísitölubindingar lána.
Það er ekkert náttúrulögmál að verðbólgan fari á stað. Vilji stjórnvöld halda aftur af verðbólgudrauginum þarf einfaldlega að drega úr peningum í umferð. Ein leið til þess væði til dæmis frysting eða þjóðnýting jöklabréfanna, önnur eignaupptaka á eigum útrásarvíkinganna. Hvorug er jafn ósanngjörn og að almenningur borgi ennþá meira af skuldum óreiðumannanna. Verði reynt að fleyta þessu á heimilin í landinu mun því ekki verða tekið sitjandi. Ég er að skipuleggja varnir míns heimilis og hef fundið talsvert af samherjum í þeirri baráttu og ég ætla ekki að leifa þeim að taka mínar eigur án baráttu.
SvaraEyðaHéðinn Björnsson
Það er ekki rétt að frysting "vísitölu neysluverðs til verðtryggingar" eins og Hagstofan birtir hana mánaðarlega muni leiða til eiginfjárbruna hjá fjármálafyritækjum - og hvað þá hjá Íbúðalánasjóði. Innlend lán fjármálastofnana eru bundin sömu vísitölu þannig að vaxtamunurinn heldur áfram að skammta þeim rekstrarfé. Það sem hins vegar kann að leiða til eiginfjárbruna hjá fjármálafyrirtækjum og sérstaklega hjá Íbúðalánasjóði er ef fólk getur ekki staðið undir afborgunum sínum - - eða beinlínis hættir að borga. Það sem verðtryggingin gerir við okkar aðstæður núna og framundan - er að hún flytur fjármuni frá skuldurum (þó þeir flytji hluta yfir á höfuðstólinn til þyngingar síðar) - og til fjármagnseigenda.
SvaraEyðaÞað er allt rétt sem þú segir um samsetningu vísitölu neysluverðs - - og "gengisleiðrétt vísitala" - mundi mæla mun hóflegar án þess að ég sjái nákvæmlega hvernig það kemur til með að líta út.
Handstýringar er þörf frá stjórnvöldum - - þannig að nokkurs janræðis verði gætt milli kynslóðanna sem skulda og hinna sem hafa fleytt rjómann á árum "gervihagsældarinnar" sérstakega síðustu nokkur árin. Það er komið að þeim betur settu að leggja að mörkum til að dempa skellinn af hruninu - og nú verður að spóla til baka skattalækkanir af hátekjum og hækka skatta á fjármagnstekjur til móts við skattlagningu launatekna
"Vitlaus samsetning vísitölunnar, þar sem húsnæðisliðurinn var tekinn inn að fullu, átti stóran þátt í að ýta undir þá fasteignaverðbólu og þar með verðbólgu sem hér hefur ríkt undanfarin ár."
SvaraEyðaÉg get skilið tengsl fasteignaverðs og verðlags en ertu til í að útskýra aðeins nánar hvernig vitlaus samsetning vísitölunnar ýtti undir fastaeignaverðbóluna?
Það er hægt að fara rök fyrir því að óeðlileg hækkun húsnæðisverðs í formi fasteignaverðbólu verði til þess að fasteignaeigendur upplifi sig ríkari heldur en ella. Þeir álita sig hafa meira svigrúm til aukinna fjárfestinga og meiri neyslu þar sem eigið fé þeirra hækkar mikið í slíkum bólum, að ósekju. Ef engin innistæða er fyrir hækkuninni, þá þýðir það að kaupmáttur fasteignakaupenda lækkar sem því nemur.
Þetta er uppskrift að verðbólgu...eða hvað?
Þrátt fyrir allar gráðurnar (ertu ekki með kennsluréttindi líka?)þá kemst þú ekki frekar en aðrir sem tjá sig um afnám verðtryggingar á vefnum upp úr því rugli að einblína lækkun húsnæðis. Undanfarin áratug hefur íbúðarhúsnæði hækkað tvöfalt hraðar en nemur hækkun vísitölu neysluverðs á sama tíma. Engum datt þá í hug að lánveitendur ættu nokkurn rétt á hlutdeild í þeirri hækkun. Þegar svo verður tímabundið verðfall eigna þá er strax krafist þátttöku lánveitenda.
SvaraEyðaVerð fasteinga mun halda áfram að sveiflast hér eftir sem hingað til. Það er óðs manns æði að eltast við það. Hinsvegar á að leggja á það alla áherslu meðan þessi krísa gengur yfir að minnka greiðslubyrði þeirra sem lenda í erfiðleikum með afborganir. Þeir fá svo eigið fé til baka síðar þegar húsnæðisverð sveiflast aftur upp á við.
Varanleg niðurfelling verðtryggingar mun hinsvegar færa þeim mest sem síst skyldi. Þ.e.a.s. þeim sem eru með hæst lánin og dýrustu eignirnar. Það eru þeir munu raunverulega hagnast sem stærstan þátt eiga í vandræðum okkar. Þeir fá minna sem skulda 20 - 35 milljónir og komnir eru yfir þrítugt og eiga jafnvel eitthvað í íbúðum sínum um þessar mundir. Þeir fá í raun ekki neitt þar sem aðeins er verið að færa eignir þeirra milli vasa. Tekið úr lífeyrissjóð þeirra og færð niður veðrtrygging sem því svarar.
Þetta er ekki rétt ... ég er yfir þrítugt og skuldaði 26 milljónir (skulda núna 31) (Verðtryggingin) og eignin mín er að brenna upp! Það er ömurlegt að heyra fólk mæla með því að því að minnka greiðslubyrði núna og fresta vandamálinu. Týpískur málflutningur hjá getulausum verðtryggingarsinnum sem vilja maka krókinn! Bentu mér á land þar sem verðtrygging er notuð sem notar vísitölu neysluverðs (áfengi og tóbak, hver hækkar það?) hættu að réttlæta glæpinn! Ef þú vilt ekki afnema verðtryggingu komdu þá með réttláta tillögu um hvernig skuli reikna hana þannig að fyrirtæki og heimili í landinu leggist ekki á hliðina!
SvaraEyðaVerðbólgan er utanaðkomandi vegna gengishrun krónunnar. Er þá ekki eitthvað til í því að við eigum vona á neikvæðri verðbólgu ef/þegar krónan styrkist auk þess sem húsnæðisverð lækkar?
SvaraEyðaÞað er ekki nóg með að skuldir útrásarvíkinga leggist á íslendinga því þeir skipta um kennitölur og halda áfram ... þá fáum við skuldir bankamanna á okkur líka ... og við erum líka látin halda uppi krónunni með rangri stillingu á formúludjókinu á bak við verðtrygginguna!
SvaraEyðaÉg veit um hóp af fólki sem er að íhuga kennitöluflakk eins og útrásarvíkingarnir gera ... leikurinn er þannig að pörin kasta upp á hvort taki á sig gjaldþrotið og sá sem sleppur fær eignina á slikki ...
Kveðja,
Elísabet
En er ekki bara nóg að koma lífeyrisjóðunum í pund eins og sunlife og þannig haldist verðtryggingin í öðru landi. Taka svo verðtrygginguna af hér, sérstaklega af fasteignum þar sem það ætti að vera fullur skilningur fyrir hendi að við þurfum þak yfir höfuðið.
SvaraEyða