laugardagur, 1. nóvember 2008

Öngstræti ESB-andstæðinga

Hjörleifur Guttormsson fer mikinn í Fréttablaðinu í morgun. Hann, eins og aðrir ESB-andstæðingar, verður æ örvæntingarfyllri nú þegar þjóðin færist nær því að vilja aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Það ber vitni um slakan málstað og lítil rök að ESB-andstæðingar þurfa ætíð að grípa til gífuryrða í sínum málflutningi. Strax í fyrirsögn markar Hjörleifur umræðuna með titlinum “Evróputrúboðið”. Sem sagt sú skoðun að telja að það sé sjálfsagt að sækja um aðild að ESB er þannig ekki lögmæt skoðun, heldur “trú” – og þá að sjálfsögðu villutrú.

Bábilja, fáránleiki, brjálæði og ósiðlegt. Svona eru nú rökin hjá Hjörleifi. Og svo auðvitað hið klassíska “Heilvita menn ættu að sjá að við núverandi aðstæður og dýpkandi alþjóðlega kreppu framundan væri hreint glapræði að fara að bindast Evrópusambandinu í meira mæli en orðið er.” Ergo, þið sem eruð á annarri skoðun eruð augljóslega hálfvitar!

Þetta fínn grunnur til að byggja rökræður eða hvað?

Hjörleifur tiltekur í greininni þrjú atriði sem mæla gegn ESB aðild. Hann segir þau vera fleiri, en fyrst hann nefnir þessi sérstaklega þá hljóta þau að vera efst á áhyggjulistanum. Þau eru eftirfarandi: “fullveldi, forræði yfir náttúruauðlindum og stöðu Íslands meðal þjóða”

Tökum þau fyrir eitt af öðru. Fyrst fullveldið. Lágmarkskrafa til manna eins og Hjörleifs ætti að vera að þeir skilgreini hvað þeir eiga eiginlega við með fullveldi. Vissulega felst í ESB aðild ákveðið framsal á fullveldi, en önnur áhrif koma í staðin og hið yfirþjóðlega vald er temprað. Nauðsynlegt er líka að gera sér grein fyrir að hið klassíska fullveldi er þegar orðið takmarkað hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hún er líka jákvæð þar sem hún er jafngild á milli aðila. Enda er það svo að færa má rök fyrir því að þvert á röksemdir ESB-andstæðinga muni fullveldi Íslands frekar aukast við aðild m.v. núverandi aðstæður.

Forræði yfir náttúruauðlindum er, merkilegt nokk, málið sem ESB-sinnar og ESB andstæðingar eru sammála um. Það er engin sem mælir því bót að afhenda fullt forræði yfir fiskimiðunum til ESB. Athyglisvert er líka að ESB, þ.e.a.s. pólitískir leiðtogar aðildarríkjanna og æðstu embættismenn, þekkir, skilur og samsinnir þessari afstöðu. ESB hefði enga ástæðu til að lýsa yfir vilja til samninga við Ísland um aðild ef það lægi ekki fyrir vilji til að finna lausn á auðlindaforræðinu þannig að Ísland og íslendingar gætu verið sáttir.

Þriðja og síðasta hjá Hjörleifi var svo staða Íslands meðal þjóða. Ætli hún verði ekki bara betri? Ísland standi eftir þá aðild sem alvöru meðleikandi í liði þeirra ríkja sem fremst standa á sviði mannréttinda, lýðræðis, umhverfisverndar, félagslegs réttlætis, réttarbóta, efnahagslegra framfara og svo mætti lengi telja.

Hjörleifur bætir því svo við að það væri þar fyrir utan hreint glapræði að binda trúss sitt við ESB á þessum krepputímum þar sem að nú reyni á og þetta sé allt að fara í uppnám. Við skulum nú vona ekki, og hingað til virðist samstaðan innan ESB, þó að sjálfsögðu reyni oft á, frekar virðast vera skila mönnum heilli heim. A.m.k. hefur ekkert ESB-ríki enn þurft að deila örlögum Íslands í þessari fjármálakreppu.

Það verður því að segjast að þessi rök Hjörleifs halda litlu vatni. Mér dettur hins vegar ekki í hug að kalla rök hans fáránlegar, brjálaðar og ósiðlegar bábiljur!

6 ummæli:

  1. Þegar hillir undir að ein ofsatrúarbrögðin þ.e.frjálshyggjan renni sitt skeið á enda koma fram nýir klerkar með aðra delluna jafnbölvaða.Sér í lagi vekur þetta grunsemdir þegar viðkomandi flaggar tusku Framsóknarflokksins sem er jú annar höfuðarkitektinn að vandræðum þjóðarinnar.Tæpast gengur honum almannaheill til né heldur þjóðarhagur. Vafalaust útsala á auðlindum og eigið framapot

    SvaraEyða
  2. Ekki kemur afstaða Hjörleifs á óvart. Greinin er í fullkomnu samræmi við dalakofasósíalisma gamla Alþýðubandalagsins.

    SvaraEyða
  3. Þú tókst kannski eftir því, nafnlaus, að Friðrik var að gagnrýna uppnefni og fúkyrði.

    SvaraEyða
  4. Þakka þér fyrir þína ágætu pistla um ESB-málið, Friðrik. Ég hvet þig að halda áfram að rita um málið á þinn hlutlæga hátt. Ég nenni ekki að lesa nöldrið í honum Hjörleifi og ýmissa skoðanabræðra hans lengur. Málflutningur hans og annarra hans líkra nú einkennist nú af taugaveiklun þeirra sem vita að mikill meirihluti þjóðarinnar styður nú ESB-aðild. Ég tel að niðurstöður hinnnar nýju skoðanakönnunar Gallups um fylgi Sjálfstæðisflokksins endurspegli vilja þjóðarinnar til ESB-aðildarumsóknar.

    SvaraEyða
  5. Góð innslög Friðrik.

    Okkur vantar menn eins og þig í forustusveit.

    Ef bornar eru saman greinar EB andstæðinga nú og fyrir ári, þá kemur í ljóst að aðal rökin fyrr, eru nú hvorfin, krónan er dauð og hún virkaði ekki til sveiflujöfnunar, sjálfstæður seðlabanki er að ganga frá okkur, reglurverkið í EB var gott eftir all saman.

    Nú eru bara eftir furðuleg slagorð, Hjörleyfur og fl. eru meiri menn en að bjóða okkur upp á svona röksemdir, meira segja Hannes Hólmsteinn skilur það.

    SvaraEyða
  6. www.zeitgeistmovie.com

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.