þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Af klaufum og óróamönnum

Hann [Bjarni Harðarson]segir marga slíka óróamenn hafa komið inn í flokkinn á allra síðustu árum. „Stundum læt ég mér detta í hug hvort þeir séu að gera þetta vísvitandi til að gera flokknum tjón og ef það er svo þá tel ég að þeim hafi orðið alveg ótrúlega ágengt."

Af heilagri vandlætingu hefur maðurinn, sem fyrir misskilning er þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, dæmt mann og annan í Framsóknarflokknum fyrir ýmsar sakir. Hann hefur brigslað mönnum um að vinna flokknum tjón og stunda undirróðursstarfsemi. Kemur nú á daginn, sem flesta hefur löngum grunað og margir verið nokkuð vissir um, að þar fer hann sjálfur fremstur í flokki óróa- og undirróðursmanna. Og hann er klaufi!

Illt umtal Bjarna í heyranda og hálfu hljóði hefur borist víða. Hann hefur ekkert dregið undan í opinberri umræðu og sýnt þannig oflátungshátt, opinberað vænissýki og hótað borgarastyrjöldum. Við sem dirfst höfum að hafa aðrar skoðanir innan Framsóknarflokksins höfum fengið yfir okkur ásakanir og upphrópanir. Mann rennir nú jafnframt í grun að ófáar nafnlausar athugasemdir á bloggfærslum hafi runnið undan ræpu þingmannsins.

Tölvupóstplott Bjarna Harðarsonar frá því í gærkvöldi hefur opinberað að hér fer annað hvort fláráður og falskur farísei í Framsóknarflokknum, eða klaufi.

Hvort heldur sem er, þá er honum er ekki sætt. Undir hans eigin mælistiku er honum nauðugur sá einn kostur að biðja afsökunar og draga sig í hlé. Kappið er svo miklu meira en forsjáin og heiftin hefur fyrir löngu borið skynsemina ofurliði.

Honum er tryggari staðurinn bakvið búðarborðið en ræðupúlt Alþingis.

Að eigin sögn er Bjarni Harðarson framsóknarmaður af gamla skólanum. Þá vitum við hvaða skóli það er – og af þeim skóla hafa allir fengið nóg.

Það er jafnframt umhugsunarefni þegar vinnubrögð sem þessi eru afhjúpuð hvort ekki skýrist margt sem aflaga hefur farið í starfi Framsóknarflokksins á undanförnum árum.

Bjarni er ekki eyland!

Nú er nóg komið og uppgjörs þörf. Miðstjórnarfundur hefst klukkan 10 á laugardagsmorguninn 15. nóvember næstkomandi.

2 ummæli:

  1. Hvað ætlið þið að gera? Sækja um inngöngu í Samfylkinguna? Þið verðið að virða það, að þeir fáu sem þó kusu framsókn síðast, kusu þessa menn. Bjarni er bara klaufi en þó meiri maður heldur en margir aðrir sem sitja þrátt fyrir meiri og dýrari mistök. Hann skemmdi mest fyrir sjálfum sér. Minnst fyrir öðrum.

    SvaraEyða
  2. Bjarni ber þó ábyrgð á gjörðum sínum.
    Það mættu margir taka sér hann til fyrirmyndar og segja af sér.
    Bankamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar mætti til dæmis íhuga ábyrgð sína.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.