þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Kjararáð mun tæpast lækka laun

Forsætisráðherra beindi því til kjararáðs fyrir helgi að kanna möguleikan á því að lækka laun æðstu embættismanna um 5 til 15%.

Kjararáð fundaði um málið í dag en lauk ekki umfjöllun sinni. Ráðgert er að ráðið eigi fund að nýju næstkomandi föstudag, en formaður ráðsins kveðst víst ekki gera ráð fyrir niðurstöðu þá.

Samkvæmt starfsreglum ráðsins "...skal kjararáð gefa talsmönnum þeirra sem undir úrskurðarvald þess falla, fjármálaráðuneyti og öðrum ráðuneytum, vegna starfsmanna sem undir þau heyra, kost á því að leggja greinargerðir fyrir ráðið. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt munnlega.. Kjararáð skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin."

Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að launalækkun er vægast sagt óvenjuleg aðgerð má búast við að Kjararáð þurfi töluverðan umþóttunartíma vegna beiðni forsætisráðherra. Gera má ráð fyrir að ráðið þurfi að kalla eftir umsögnum þeirra sem undir ráðið heyra, eða a.m.k. gefa þeim hæfilegt ráðrúm til þess að koma umsögnum og athugasemdum á framfæri.

Benda má á að kjararáð er að jafnaði ekki leiðandi í þróun kjara opinberra starfsmanna, heldur fylgir yfirleitt í kjölfar kjarasamninga aðildarfélaga BSRB og BHM í sínum úrskurðum. Að setja ráðið fyrir vagninn með þessum hætti er þannig einnig nokkuð óvenjulegt.

Kjör opinberra starfsmanna hafa undanfarin ár ekki fylgt eftir almennri launaþróun og ekki haldið í við verðbólgu. Eftir að samningar opinberra starfsmanna voru samþykktir sl. sumar hefur kjararýrnunin farið hraðvaxandi. Í raun er það svo að landsmenn allir, þ.m.t. þeir sem heyra undir Kjararáð, verða fyrir kjaraskerðingu, og þar með beinni launalækkun, nú um hver einustu mánaðarmót vegna þróunar bæði gengis og verðbólgu. Er ekki 5 til 15% launalækkun þar til viðbótar óþarfi? Hún er að eiga sér stað hvort eð er.

Því er líklegast, þegar Kjararáð hefur lokið umfjöllun sinni og gefið þeim er málið varða tækifæri til að senda inn greinargerðir og álit, að engin verði lækkunin.

Forsætisráðherra mun hins vegar geta sagst hafa reynt!

3 ummæli:

 1. "Forsætisráðherra mun hins vegar geta sagst hafa reynt!"

  Það er sennilega það sem karlinn var að gera; láta einhverja aðra segja "lýðnum" að kjörum æðri ráðamanna verði ekki breytt. Hann sleppur þá sjálfur við að gera það, greyið.

  En þessir sömu háttlaunuðu ráðamenn gætu alveg upp á sitt einsdæmi afþakkað 25% af sínum heildartekjum næstu 12 mánuðina eða svo. Til þess að vera raunveruleg fyrirmynd annarra. Og til þess að staðfesta það gagnvart lánardrottnum, að þau lán sem hugsanlega verður veitt til Íslands fari ekki í að greiða þeim laun.

  Afsakið...mig var að dreyma.

  SvaraEyða
 2. Svo mega þessir kallar líka fara að reikna það út að kjararáð hefur verið mun rausnarlegra en BSRB og BHM.

  Það ætti ekki að vera erfitt að lækka þá niður í þá tölu sem þeir væru í ef launin hefðu fylgt launaþróun BSRB og BHM síðustu 17 ár.
  Og svo mætti fella niður þau fríðindi sem hafa bæst við síðustu 17 ár, svo sem eftirlaunaósómann og aðstoðarmenn...

  SvaraEyða
 3. Rétt eins og forsætisráðherra getur ekki óskað eftir launahækkun hjá Kjararáði, þá getur hann ekki óskað eftir launalækkun.

  Kjararáð hlýtur að vinna eftir lögum en ekki eftir tilmælum forsætisráðherra.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.