mánudagur, 24. nóvember 2008

Nýjan gjaldmiðil núna?

Við erum komin með nýja banka og erum víst að byggja nýja Ísland.

Við sitjum engu að síður uppi með ýmislegt af því gamla og er það misgott eins og gengur.

Eitt af því gamla sem við sitjum uppi með er krónan. Allir virðast sammála um að það sé afleitt, en engin hefur enn komið fram með lausn á þessu vandamáli sem gagnast gæti strax.

Upptaka annars gjaldmiðils er það sem helst er litið til, en engin þeirra tillagna sem hingað til hafa komið fram eru gallalausar. Sú lausn sem vit- og varanlegust til framtíðar er upptaka Evru með inngöngu í Evrópusambandið. Þar vinnur tíminn gegn okkur og sú einfalda staðreynd að pólitíkin hér innanlands er ekki komin nógu langt til að geta tekið afstöðu til málsins – þó ekki væri nema að taka umsóknarskrefið.

Við erum því hnípin þjóð í vanda.

Það er við kringumstæður sem þessar sem leyfist að tefla fram róttækustu hugmyndunum.

Hér er ein: skiptum um gjaldmiðil – úr okkar eigin krónu yfir í okkar eigin gengistryggða gjaldmiðil, bundin við t.d. Evru eða SDR (sérstök dráttarréttindi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem er ákveðin myntkarfa sem sjóðurinn notar) – en látum þann gamla (krónuna) lifa enn um sinn samhliða þeim nýja.

Myllusteinninn um háls krónunnar eru útistandandi og gjaldfallin krónubréf í erlendri eigu, þ.m.t. erlend eign á ríkisbréfum. Ekki hef ég á reiðum höndum tölu yfir erlenda eign á bréfum í íslenskum krónum, en m.v. að búist er við gjaldeyrisútstreymi upp á allt að einn milljarð Evra í kjölfar væntanlegrar fleytingar krónunnar, má gera ráð fyrir að erlend eign í íslenskum peningabréfum af einhverju tagi sé a.m.k. svo mikil.

Þetta útstreymi fer fram með þeim hætti að erlendir (og einhverjir innlendir) fjárfestar losa sig við krónueign fyrir hvaða verð sem er í erlendum gjaldmiðli og forða sér eins hratt og fætur toga.

Afleiðingin af þessu er jafn fyrirséð og hún er skelfileg. Hrun á gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti og margföldun á aðfangakostnaði að utan. Vörnin gegn þessu er veik – hún felst einkum í því að reyna nokkurs konar viðhorfsstjórnun (perception management), þ.e. að allir haldi fram þeirri framtíðarsýn að jú gengið muni falla eitthvað, jafnvel töluvert, en það verði einungis tímabundið. Krónan muni skríða upp aftur. Með því að halda þessu fram er vonast til að einhverjir peningabréfaeigendur haldi aftur að sér í sölu þeirra og skiptum yfir erlenda gjaldmiðil og þannig verði skaðinn að einhverju leyti takmarkaður – gengisfallið verði þannig ekki eins mikið á eins stuttum tíma.

Fyrir þessum vonum viðhorfsstjórnunarinnar eru þó engin fullvissa. Fleyting krónunnar getur þannig hleypt af stað vítahring sem verður algerlega órjúfanlegur.

Stóri vandinn er s.s. hin risastóra útistandandi erlenda eign á íslenskum krónupappírum. Eign sem hefur verið að tapa verðgildi og á eftir að tapa meira verðgildi ef spár ganga eftir um gjaldeyrisútstreymi. Vandinn fyrir okkur meðaljónana er að við verðum dregnir með í fallinu.

Þess vegna legg ég til að áður en að fleyting núverandi krónu verði sett af stað verði tekinn upp nýr íslenskur gjaldmiðill samhliða núverandi krónu. Nýi gjaldmiðillinn verði gengistryggður í takmarkaðan tíma, segjum til næstu 12 – 24 mánaða, en þeim gamla fleytt og leyft að falla. Nýjar skuldbindingar nýja Íslands verði í hinum nýja gjaldmiðli, gamlar skuldbindingar verði áfram í þeim gamla. Myllusteinninn sekkur með gömlu krónunni, en nýi gjaldmiðillinn er stikkfrí.

Tölfræðin öll fari strax eftir nýja gjaldmiðlinum, þ.m.t. verðbólgu og vísitölumælingar. Reyndar ætti að nota tækifærið og afnema allar vísitölubindingar undir nýja gjaldmiðlinum. Bakhjarl nýja gjaldmiðilsins væri þau lán sem verið er að taka og undirliggjandi styrkur hagkerfisins. Reyndar gæti verið kostur að beita nýja gjaldmiðlinum ákveðnum viðskiptatakmörkunum til að byrja með.

Með þessu móti yrði enginn verðbólgukúfur og ekkert gengishrun sem kæmi niður á almenningi, sem blæðir nú nóg samt. Nýja Ísland gæti farið af stað laust við stóran hluta þess bagga sem gamla Ísland skyldi eftir. Lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannaríkjum okkar þyrftu þ.a.l. jafnvel ekki að nýta til styðja við nýja gjaldmiðilinn nema með óbeinum hætti.

Ein útfærsluleið er að gefa nýja gjaldmiðlinum, köllum hann Spesíu, sama verðgildi og Evru, en miða við gengi Evru t.d. 130 við gömlu krónuna og skipta öllu innlenda hagkerfinu yfir. Sá sem hafði 260.000 í mánaðarlaun í krónum fær þannig eftirleiðis 2.000 íslenskar spesíur í mánaðarlaun. 26 milljóna húsnæðislánið væri hér eftir lán upp á tvær milljónir spesía – og takið eftir, nú hugsanlega án verðtryggingar og með fasta vexti upp á fasta prósentu yfir millibankavöxtum Evrunnar. Trúverðuleiki svona aðgerða væri jafnframt verulega mun meiri ef þeim væri fylgt eftir með aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Þetta er róttæk hugmynd, en tvímynta hagkerfi eru alls ekki óþekkt. Yfirleitt er það svo að þau eru tvímynta með annars vegar eigin mynt og síðan vel treystandi erlendri mynt eins og dollara, eða þá að viðkomandi ríki hefur tvær myntir, annars vegar fyrir sauðsvartan almúgann sem ekki er hægt að skipta í gjaldeyri og hins vegar fyrir elítuna sem er skiptanlegur eins og er t.d. á Kúbu.

Hér yrði þessu öfugt farið. Nýr og betri gjaldmiðill, skiptanlegur og gengistryggður yrði fyrir okkur pöpulinn – sá gamli svo að segja verðlausi verður skilinn eftir fyrir braskarana.

Gæti þetta ekki verið hin fullkomna lausn?

Ég auglýsi hér með eftir athugasemdum, ábendingum og leiðréttingum frá mér fróðari mönnum!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.