laugardagur, 4. apríl 2009

Flottur Fogh

Það er full ástæða til að óska Atlantshafsbandalaginu og aðildarríkjum þess til hamingju með nýja framkvæmdastjórann, hinn geðþekka og eldklára danska forsætisráðherra og framsóknarmann Anders Fogh Rasmussen. Síðastliðin átta ár hefur hann gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur með miklum sóma og er vel að þessu embætti kominn.

Á alþjóðavettvangi má segja að Fogh hafi vakið athygli fyrir tvennt sérstaklega, annars vegar skörulega formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins síðari hluta árs 2002, m.a. að leiða til niðurstöðu stækkun ESB á einu bretti til tíu nýrra aðildarþjóða, og síðan vegna þess hvernig hann bar sig að í þeirri krísu sem varð vegna skopmynda af Múhammeð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum þann 30. September 2005. Í þeirri krísu, en hún verður ekki að raunverulegri krísu fyrr en í byrjun febrúar 2006, sýndi Fogh stefnu- og staðfestu sem reyndar virtist ætla að koma honum í koll á lokametrunum að þeim áfanga að verða framkvæmdastjóri bandalagsins. Í skopmyndakrísunni aftók nefnilega Fogh með öllu að biðjast afsökunar á gerðum annarra eða grípa til aðgerða gegn tjáningarfrelsinu. Vissulega lýsti hann vonbrigðum með myndirnar og sagði að sér þætti það leitt að fylgjendum spámannsins væri misboðið, en ekki lét hann teyma sig lengra en það.

Það hefði skotið verulega skökku við og verið Atlantshafsbandalaginu til hnjóðs hefði Fogh verið hafnað í stól framkvæmdastjóra vegna þess að hann tók afstöðu með tjáningarfrelsinu, einu af grunngildum lýðræðisins, í skopmyndamálinu. Sem betur fer voru allir leiðtogar Atlantshafsbandalagsins sammála um að láta slíkt ekki um sig spyrjast, þar með talið á endanum líka þeir sem veittu viðspyrnu hvað lengst. Seint og um síðir hefur leiðtogum Tyrklands væntanlega orðið það ljóst að forsendur fyrirvara þeirra við Fogh voru ekki forsvaranlegar.

Staðfesta Fogh og ríkisstjórnar hans í þátttöku innan Atlantshafsbandalagsins og í verkefnum þess, þar með talið í Afganistan hefur einnig leikið hér lykilhlutverk. Danir hafa verið með fórnfúsari þjóðum þar, bæði hvað varðar uppbyggingar- og þróunarstarf en einnig hvað varðar þátttöku í krefjandi öryggisaðgerðum. Danmörk er til dæmis ein fárra bandalagsþjóða sem leggur til hermenn í aðgerðir í hinu erfiða Helmand héraði í Suður-Afganistan.

Anders Fogh Rasmussen verður án efa fyrirmyndar framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.

3 ummæli:

  1. Ísl. sjónvarpið gerði grín að Berlusconi í frásögn af þessu. Hann hefði tafið málið með því að blaðra í farsíma og gaf Obama heiðurinn af því að Fogh fékk stöðuna.
    Danska sjónvarpið hafði aðra sögu að segja: Það hefði verið Berlusconi sem hefði náð samkomulaginu við Tyrki á síðustu metrunum og hefði m.a. hringt til Tyrklands.

    SvaraEyða
  2. Nú er Berlusconi búinn að segja frá símtalinu sem Ísl. Sjónv. gerði grín að: Hann samdi um að Fogh léti loka kúrdiskri útvarpsstöð sem sendir út frá Danmörk.

    SvaraEyða
  3. Þeir töluðu um það á fréttastöðvunum að Fogh verður minnst hérna úti sem þess sem dró Danmörku í stríð og þess sem stakk af þegar "krisen kradsede".

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.