þriðjudagur, 31. mars 2009

Gjaldeyrishaftageggjun

Frumvarp fjármálaráðherra um aukin gjaldeyrishöft sem lagt var fram í þinginu núna seinnipartinn og á jafnvel að afgreiða með afbrigðum núna í kvöld og nótt er fásinna.

Í trássi við meðalhóf og til að bregðast við vanda sem frumvarpið sjálft getur ekki gert fyllilega grein fyrir á að vaða fram og setja enn ein neyðarlög.

Ekki verður það til að skapa trúverðugleika eða stöðugleika.

Ekki verður það til að laga vandann við greiðsluyfirfærslur til Íslands frá útlöndum.

Ekki verður það til að auka tiltrú á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar eða íslensku krónunni.

Samkvæmt frumvarpinu er verið að bregðast við eftirfarandi vanda:

Gengi íslensku krónunnar hefur farið lækkandi síðustu vikur og eru sterkar vísbendingar um að því markmiði með skilaskyldunni að byggja upp gjaldeyrisforða vegna útflutningstekna verði ekki náð þar sem aðilar eru ekki skuldbundnir til að selja útflutningsafurðir í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hefur einnig dregist saman sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Veiking gengis gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig er dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.

Í þessari málsgrein er lykilfrasinn það að uppi "eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008."

Vísbendingar um að eitthvað sé nærri???

Er ekki allt í lagi?

Heildarútflutningur frá Íslandi á umræddu tímabili er um og yfir 100 milljarðar. Vegna hugsanlegrar sveiflu milli erlendra gjaldmiðla og íslenskrar krónu upp á kannski allt að 2% - TVÖ PRÓSENT!!! - af heildarútflutningi tímabilsins þá á að grípa til svona róttækra aðgerða.

Ég vona svo sannarlega að þingmenn hafi bein og taugar til að stoppa þessa vitleysu. Nóg er nú samt.

9 ummæli:

  1. Eftir "vísbendingum" sem ég hef heyrt er lekavandamálið líklega töluvert stærra og ekki bara eftir þeim leiðum sem verið er að taka fyrir með frumvarpinu.

    Kjarninn í vandamálinu kemur hinsvegar ekki fram. Hvað verða t.d. margir milljarðar gjaldfallnir í "jöklabéfum" og öðrum afborgunum og vöxtum erlendra lána um næstu áramót? Hversu langt ætli örvæntingafullir erlendir lánardrottnar/fjárfestar séu tilbúnir til að ganga eftir "lausum" gjaldeyri í landinu.

    Krónan er dauð. Líkinu er haldið lifandi í spennitreyju og öndunarvél og búnar til brosviprur með inngripum seðlabanka. Trúverðugleikinn er algerlega horfinn. Það tekur enginn erlendur lánveitandi áhættu í krónutengdri starfsemi nema AGS.

    Forgangsröðin hefur breyst fyrir suma. Við þurfum trausta og gjaldgenga mynt. Við þurfum að fá Evru. Til þess þurfum við að ganga í ESB. Það hefði verið betra að gera það undir öðrum kringumstæðum en í núverandi stöðu höfum við ekki valkosti.

    SvaraEyða
  2. Með krónunni eru gjaldeyrishöftin komin til að vera næstu árin - líkega næsta áratug!
    Eina vitið er aðild að ESB og upptaka Evru. Vegna þess að það tekur tíma má engan frekari tíma missa og því þarf að sækja um aðild strax.

    SvaraEyða
  3. Ég er nokkuð uggandi um þessa lagasetningu. Auðvitað. Neyðarlög eru scary.

    Ég skil samt þetta "nærri 2 milljörðum kr. hærri" dæmi aðeins öðruvísi og langar að koma því að. Mér finnst vera verið að segja þetta:

    "Skoðum gengið. Í fyrra var það X. Við miðum við tvo punkta: Innflutning og útflutning. Útflutningur er 2% hærri í ár (2 milljarðarnir), og innflutningur hefur líka dregist saman. Þess vegna myndum við búast við skárra gengi. En gengið er Y, og Y er í ruslinu. Það kemur ekki fram hækkunin sem við vildum sjá ..."

    ... og þá koma lögin. Þessi 2 milljarða / 2 prósenta tala hefur ekki *beint* með lögin að gera, heldur aðallega að gengið er tugum prósenta lægra en mönnum langar að það sé. Eins og ég skil þetta.

    SvaraEyða
  4. Þetta á eingöngu eftir að bitna á smærri söluaðilum þjónustu og vöru sem hafa ekki bolmagn til að finna holur... Að gera þetta svona hratt á eftir valda mikið af ófyrirséðum afleiðingum :(

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus - ætla alls alls ekki að rengja þig, en geturðu útskýrt betur? Ef stóru gæjarnir hafa bolmagn til að finna holur, þá er kenningin að það lækki gengið á krónunni. Það bitnar þá á smærri söluaðilunum að krónan sígur neðar. Ef þeir stóru eru króaðir af og viðskiptum þeirra beint í þannig farvegi að þeir geta ekki annað en haldið krónunni uppi myndu kenningar segja að þeir hjálpuðu þá þeim litlu.

    Svo er annað mál hvað gerist í praxís!

    SvaraEyða
  6. Getur ekki einhver forðað Íslandi frá þessum andskotans semi- og pseudo-hagfræðingum

    SvaraEyða
  7. krilli - Ef þú ert t.d. lítill aðili að selja segjum tölvuþjónustu þá máttu ekki lengur selja hana innanlands í íslenskum krónum til aðila sem gæti notað þjónustuna erlendis, öll flókin höft eru mjög slæm fyrir minni aðila sem hafa ekki efni á her af lögfræðingum, maður sér alveg fyrir sig stærri útflytjendur með sína lögfræðinga að vinna í alla nótt til að finna bestu (og löglegu) leið framhjá þessum seinustu höftum... En minni aðilar í þjónustu geta náttúrulega bara flutt úr landi til að losna við þetta rugl...

    SvaraEyða
  8. "Getur ekki einhver forðað Íslandi frá þessum andskotans semi- og pseudo-hagfræðingum"

    Sammála!
    Friðrik, leggðu þig.

    SvaraEyða
  9. Nafnlaus - ég skil, takk! Hafði ekki áttað mig á þessum vinkli.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.