laugardagur, 22. mars 2008

Hefur einhver spurt Sviss?

Það er athyglisvert að í því tali sem fram hefur farið hér á landi um mögulegan kost á því að taka upp svissneskan franka virðist enginn hafa spurt Sviss. Hefur einhver í blaðheimum haft samband við kollega sína hjá t.d. Neue Zürcher Zeitung, eða einhvern hjá svissneska Seðlabankanum?

Nema kannski einhver hafi hringt og sá eða sú sem svaraði á hinum endanum hafi haldið að um væri að ræða símaat?

3 ummæli:

  1. Ég efast um að nokkur hafi hringt og spurt Svisslendinga um hvort við megum vera memm í peningunum þeirra. Svo virðast menn líka gleyma því að Sviss gæti bæst í hóp annarra sjálfstæðra rikja í Evrópusambandinu. Jafnvel tekið upp Evru í kjölfarið. Eiga Íslendingar þá aftur að skipta um gjaldmiðil?

    Þar að auki er ég efins um að Vinstri-grænir hafi rætt við hin Norðurlöndin um að endurvekja samnorrænu myntina sem dó fyrir fyrri heimsstyrjöld. Enda held ég að Svíar, Danir og jafnvel Norðmenn horfi frekar til Evru og eins og kunnugt er nota Finnar nú þegar "hina hræðilegu" Evru.

    Það er eins og þeir sem hræðast bandalag sjálfstæðra þjóða í Evrópusambandinu líti í örvæntingu í allar aðrar áttir en að Evru og láti út úr sér svona vanhugsaðan kjánaskap í einhverri felmturröskun. Það virðist að minnsta kosti ekki liggja djúp hugsun að baki.

    SvaraEyða
  2. Svisslendingar voru nýverið að ganga í Sameinuðu þjóðirnar og það var ekki óumdeilt. Það hefur alltaf verið stefna Svisslendi nga að standa utan við bandalög og ríkjablokkir. Það kæmi mér stórkostlega á óvart ef að þar yrði svo mikill viðsnúningur að þeir gengju inn í ESB.

    Það má líka benda á að þeir hafa lengi verið að búa sig undir framtíð utan ESB með gerð tvíhliðasamninga við bandalagið til þess að koma í stað EES. Það er eitthvað sem við ættum að vera líka.

    Hvað varðar leyfi Svisslendinga fyrir upptöku franka eða tengingu krónu við hann þá er ekki augljóst að við þurfum það. Myntbandalag væri e.t.v ákjósanlegra en frankinn er bara gjaldmiðill. Ef við eigum franka þá getum við notað þá.

    SvaraEyða
  3. Sæll Friðrik, og takk fyrir góð og áhugaverð skrif.

    Einhliða upptaka svissneska frankans hefði í för með sér alla galla einhliða upptöku evru en fáa af kostunum. Þannig eru utanríkisviðskipti okkar við evrusvæði u.þ.b. helmingur af heildarviðskiptum ef danska krónan er tekin með í dæmið (hún er jú nánast evra í rauðhvítum galla). Utanríkisviðskipti við Sviss eru hins vegar innan við 2%. Þannig yrði helmingur gengisáhættu og gjaldmiðilstengds kostnaðar vegna utanríkisviðskipta þurrkaður út með upptöku evru, en nánast ekkert ef frankinn yrði tekinn upp.

    Þau rök hafa einnig verið nefnd gegn upptöku evru að hagsveifla þar sé með öðrum hætti en hér, sem vissulega er rétt. Í rauninni er líklegt að hér eftir, sem hingað til, verði vaxtasveiflur í evru tiltölulega hóflegar vegna þess hve sundurleitt svæðið er efnahagslega, ekki síst eftir inngöngu nýju meðlimanna í austri. Hins vegar er hætta á mun meiri sveiflum í vöxtum svissneska frankans þar sem myntsvæðið er tiltölulega smátt. Það er t.d. gild ástæða fyrir því hvað vextir í Sviss hafa verið lágir undanfarin ár; nefnilega sú að hagvöxtur þar hefur verið tiltölulega lítill undanfarna áratugi.

    Síðast en ekki síst er áhugavert að líta til þess, í ljósi þess hve margir virðast telja svissneska fjármálakerfið módel fyrir stöðugleika og íhaldssemi, að fáir evrópskir bankar hafa farið verr út úr fjármálakreppunni undanfarna átta mánuði en svissnesku bankarnir UBS og Credit Suisse.

    Það skal áréttað að ég tel einhliða upptöku hvaða erlends gjaldmiðils sem er á Íslandi vafasama. Þar er þó svissneski frankinn verulega verri kostur en evran að mínu mati.

    kv.
    Jón Bjarki Bentsson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.