þriðjudagur, 4. mars 2008

General dislike of Iceland

Í ágætri grein Financial Times um áhrif alþjóðlegrar lausafjárkrísu á Ísland (og sagt er frá á mbl.is hér) er farið á greinargóðan hátt yfir þann vanda sem við er að etja. Rætt er við forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem kemur vel út í greininni. Að auki er rætt við nokkra lykilstarfsmenn íslensku bankanna.

Rúsínan er hins vegar í orðsins fyllstu merkingu í pylsuendanum undir lok greinarinnar þegar rætt er við Axel nokkurn Swenden, sem titlaður er “credit strategist” hjá BNP Paribas. Orðrétt er haft eftir Swenden: “There is a general dislike of Iceland; every movement in the market gets magnified when it comes to Iceland.”

Hér er í hnotskurn sá vandi sem Ísland og íslendingar eiga við að eiga í alþjóðlegu fjármálaumhverfi í augnablikinu; almennt er Ísland illa liðið og sveiflur á markaði verða ýktar í íslensku samhengi.

Það var og!

Í framhaldi er haft eftir Swenden að menn efist um að íslenska ríkið geti eða vilji styðja við bakið á bönkunum ef þeir lenda í vandræðum. Ennfremur gefur hann í skyn að það skorti gegnsæi í útlánum þeirra.

Erfitt er að mæta þessum athugasemdum þar sem þær eru að mestu huglægar. Traust á íslenska ríkið sem bakhjarl er ekki hægt að meta, umfram það sem haft er eftir forsætisráðherra í sömu grein, þ.e. Ísland muni og geti brugðist við eins og önnur ríki. Vert er reyndar að hafa í huga að íslenska ríkið er þar líka bundið sömu kvöðum og takmörkunum og önnur aðildarríki EES, þ.e. samevrópskum reglum um fjármálamarkaði, ríkisstyrki og markaðsaðstoð.

Kvörtun um skort á gegnsæi er líka að einhverju leyti erfitt að mæta. Bankarnir skila ársfjórðungsskýrslum og árskýrslum, eru upplýsingaskyldir gagnvart kauphöll og fjármálaeftirliti og gefa almennt mjög greinargóðar upplýsingar. Lærðu þeir einnig allir góða lexíu í míní-krísunni vorið 2006 í þeim efnum.

Upplýsingagjöfinni eru hins vegar óhjákvæmilega einhver takmörk sett. Alltaf getur verið einhver vandi í miðlun þeirra, og svo eru jú fjölmörg dæmi um það að menn heyri bara og sjái það sem þeir vilja heyra og sjá!

Hættan er sú að staðreyndirnar verði aukaatriði ef mönnum er "almennt illa við Ísland".

"General dislike" er þannig hreinn ímyndarvandi.

2 ummæli:

  1. Var það vorið sem að Árni fjármálaráðherra seldi út landið í maj? Stöð 2 frétt
    Skrítin frétt sem ég fékk um klóningu á Felix til að bjarga Friðriki og Mathias og samþykkt af Socialstyrelsen i Sverige.

    Er það ekki gaman að ég er alltaf að rugla?

    SvaraEyða
  2. Ætli heilbrigðismálaráðherra ætli ekki að redda málunum með því að létta undir lyfjasölu á landinu með póstsendingu.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.