sunnudagur, 23. mars 2008

Rúv um FL-Group

Í kvöldfréttum sjónvarps Rúv var frétt um FL-Group undir yfirskriftinni "Lítið eftir af FL-Group." Fréttin var í nettum "schadenfreude"-stíl og talað um sannkallað stjörnuhrap. Gengið hefði náð hæstu hæðum í fyrra sumar með genginu 36,45 en væri nú komið niður í tæplega 6,5. Markaðsvirði félagsins væri komið niður í um 64 milljarða, sem slagaði hátt upp í boðaða hlutafjáraukningu Baugs og annarra til þess að styrkja stoðir FL-Group.

Niðurlag fréttarinnar fékk mig hins vegar til að hugsa, en þar sagði:

"Markaðsvirði FL Group sé nú í raun komið niður fyrir innra virði félagsins. Yrði það tekið til gjaldþrotaskipta, reyndust eignir þess hugsanlega meira virði en fyrirtækið sjálft er metið á markaði."

Fréttamaður Rúv (Sigríður Hagalín) ber hér fyrir sig heimildarmönnum fréttastofunnar sem er gott og vel. Hins vegar er athyglisvert að setja fréttina í samhengi við hugsanlegt gjaldþrot. Gjaldþrot er mjög fjarlægur kostur fyrir fyrirtæki þar sem eignir eru meiri en skuldir - ef ekki svo að segja útilokaður, a.m.k. í venjulegu árferði. Ekkert kom fram í fréttinni sem benti til að svo væri, heldur þvert á móti.

Með smávægilegri frekari gagnavinnu hefði t.d. mátt benda á að markaðsvirði einungis einnar eignar FL-Group í skráðu félagi á markaði, Glitni Banka, er tæpir 77 milljarðar, eða tæpum 13 milljörðum meira en markaðsvirði FL-Group.

S.s. núverandi verðmat á hlutabréfamarkaði á FL-Group er að segja okkur að 77 milljarða eignahluti FL Group í Glitni og ALLAR AÐRAR EIGNIR (Landic Properties, Refresco, Tryggingamiðstöðin o.s.frv.) séu, í mjög einfölduðu máli, ekki nettó nema 64 milljarða virði!!!

Sama kemur í ljós þegar litið er á Exista. Markaðsvirði er sl. miðvikudag tæpir 114 milljarðar, en einungis eignarhlutinn í Kaupþingi er á markaðsvirði sama dags rúmlega 119 milljarða virði.

Fréttastofa Rúv sjónvarps hefði þarna að mínu mati mátt eyða ögn meiri tíma í vinnslu fréttarinnar og draga fram þessar einföldu staðreyndir. Niðurlag fréttarinnar (og hugsanlega yfirskrift líka) hefði þá hugsanlega orðið allt öðruvísi - t.d. "Verulegt vanmat á FL-Group (og Exista)" eða "Undirmat á hlutabréfamarkaði í dag orðið jafnvel meira en yfirskot sl. sumar!"

Eða hvað?

11 ummæli:

  1. Ég er sammála þér að fréttin var illa framsett og klóraði ég mér örlítið í hausnum eftir að hafa horft á hana. En ég get ekki tekið undir það með þér að betur hefði verið við hæfi að hafa yfirskrift fréttarinnar í þá átt að gefa til kynna "vanmat" markaðarins á hlutafé félagsins. Vel má vera að Q-hlutfall félagsins sé komið undir 1 með tilliti til hlutafjár aukningar í haust og markaðsvirði þeirra skráðra eigna sem nú eru á efnhagsreikning félagsins. Spurningin er hins vegar hvort að bókfært virði fasteignasafns FL Group endurspegli markaðsvirði þess.

    Ég er með vissa theoríu fyrir því að markaðsvirði félagsins sé undir "upplausnarvirði".

    1. Að markaðurinn geri ráð fyrir að félagið verði "tæknilega gjaldþrota" (þ.e.a.s nái ekki að endurfjármagna sig þegar að því kemur og því verði félagið leyst upp til að greiða skuldir) - þar sem efnahagsreikningur félagins er það stór er óhjákvæmilegt að selja eignirnar með discounti. Þetta discount endurspeglast í spreddinu á milli núverandi markaðsvirðis og "upplausnarvirðinu".

    2. Hlutfjáraukning í haust hafi verið gerð á yfirverði - bókfært virði Landic inní bókum FL Group er því hærra heldur en raunverulegt markaðsvirði þess. Það þykir mér ekki ósennileg skýring - Baugur hefur væntanlega viljað fá bréf félagsins á discounti þeir sem þeir voru jú að hlaupa undir bagga með öðrum hluthöfum.

    SvaraEyða
  2. Fín athugasemd. Þetta er líka núansar sem fara hefði mátt út í, en þá hefði fréttin orðið "of löng". Meginpunktur minn var frekar að sýna fram á að hægt væri að fara með þessa frétt alveg yfir á hinn enda skalans - þessi gjaldþrota-tilvísun án nokkurs efnislegs stuðnings fannst mér ekki eiga við. Fréttin hefði líka orðið fyllri frétt ef farið hefði verið yfir þetta, a.m.k. að einhverju leyti.

    SvaraEyða
  3. Sæll, smá misskilningur. Það er verið að meta eigið fé félagsins á 64 ma.kr. þ.e. allar eignir þegar búið er að gera upp skuldir. Til dæmis er líklegt að það sé orðið lítið eigið fé eftir bak við kaupin á Glitni, en líklega hafa þau verið fjármögnuð í upphafi og síðan hafa jú bréfin í Glitni lækkað mikið. Munurinn til dæmis á FL og Exista er að FL hefur verkefnafjármagnað sig (þ.e. fjármagnað einstök kaup og sett það sem keypt er að veði fyri láni)en Exista er með lán án veðs (veð í cash-flow). Því lendir Exista ekki í því að þurfa að selja eignir til að borga upp lán þegar verðmæti eignar lækkar en í því hefur FL lent.

    Hins vegar er ég sammála því að verðmat á FL er líklega komið undir innra virði og því ætti það að merkja gargandi kauptækifæri í eðlilegum markaði. Vandamálið er að við erum ekki í eðlilegum markaði eins og stendur.
    Kveðja
    Gordon Gekko

    SvaraEyða
  4. M.ö.o. - Hvað stendur eftir af raunverulegum eignum þegar búið er að greiða upp allar skuldir.

    Líklega verður gríðarlega erfitt fyrir félagið að endurfjármagna sig á næstu misserum...

    Eignir þess eru a.m.k. ekki söluvænlegar á þessum síðustu og verstu...

    Spá mín: John Aus Gehr tekur fyrirtækið af markaði líkt og gert var við Baug á sínum tíma og takmarkar þar með sitt "yfirvofandi tap" sem og sinna vina... (Fons, Materia Invest og Hannesar)

    Brynjar

    SvaraEyða
  5. UBS hefur lækkað um 80% á örfáum mánuðum. Kannski er Svissneski frankinn ekki fullkominn?

    SvaraEyða
  6. Það er nokkuð ljóst að FL verður tekið af markaði fyrir næstu áramót, ef ekki fyrr. Eina sem stendur í vegi fyrir að það verði gert strax er skortur á lánsfé. Hins vegar þarf líklega að "klára" fyrrum stóreigendur fyrst, Hannes og Materia, en líklegt er að Landsbankinn endi með það í fanginu. Þeir eru amk ekki færir um að vera með í að taka það af markaði miðað við sína stöðu í dag

    SvaraEyða
  7. Þetta var einkennileg frétt - með öðrum orðum "ekki frétt". Meginatriðið var það að markaðsverð FL Group væri komið undir hlutafjáraukninguna í desember. Hins vegar tók fréttamaður ekki tillit til sjálfrar aukningarinnar við útreikninga á markaðsvirði FL Group. FL er metið á 87 milljarða króna sem er þónokkuð frá þeim 60 milljörðum sem fréttamaður þóttist telja að virði félagsins væri.
    kv. Kaupahéðinn

    SvaraEyða
  8. Friðrik minn, þetta er algert rugl í þér. Þú tekur ekkert tillit til skulda þegar þú setur þetta svona fram. Vera má að markaðsvirði t.d. Glitnishlutar FL sé meiri en sem nemur markaðsvirði FL sjálfs. EF hins vegar FL skuldar megnið ef Glitnis-stöðunni sinni, tala nú ekki um ef skuldin er meiri en sem nemur eigninni í Glitni, er nettóeign FL í Glitni lítil sem engin og þess vegna neikvæð.

    SvaraEyða
  9. Þakka öllum (og Brynjari) fínar athugasemdir. Elti nú ekki ólar við leiðréttingar, sem flestar styðja mál mitt hvort eð er, þ.e. ef menn skilja hugtakið "nettó". (Ég hefði hins vegar alveg mátt hafa það skýrara!) Aðalatriðið aftur þetta að FL Group er án efa langt frá gjaldþroti. Félagið hefur veirð að losa eignir sem ekki eru í samræmi við núverandi markmið félagsins og hafa þannig grynnkað líka á skuldastöðunni, ásamt þvi væntanlega að greiða af lánaafborgunum. Hföum einnig í huga að margar þessar eiginir hafa verið að skila af sér einhverjum arðgreiðslum, þ.m.t. eignarhluturinn í Glitni. Svo er nú FL Group, sem og aðrir að rétta aðiens úr kútnum það sem af er degi a.m.k.

    SvaraEyða
  10. Hvað með skuldirnar hjá FL.... eru þær ekki töluverðar líka. Það er ekki eins og þeir eigi þetta skuldlaust eða hvað. Hvað segir ársreikningur fyrirtæksins um það. Spyr sá sem ekki veit. FRIÐRIK hvað segir þú.

    Val

    SvaraEyða
  11. Skuldir FL Group má sjá í ársreikningum þeirra fyrir árið 2007 (sjá:http://www.flgroup.is/media/annual-reports/FL_Group_Consolidated_Financial_Statement_31_12_2007-FINAL.pdf)
    Þar kemur fram að heildar "liabilities" eru rúmlega 266 milljarðar, þar af lán rúmlega 204 milljarðar. Síðan þá hefur FL Group losað um eignir og greitt niður eitthvað af skuldum, en að sama skapi hefur eignastaðan rýrnað. Heildareignir voru metnar á 422 milljarða um áramót.
    Enn og aftur, að tala um gjaldþrot í samhengi þessarar fréttar var vafasöm fréttamennska.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.