föstudagur, 7. mars 2008

Vala víkingur og staða Framsóknar

Valgerður Sverrisdóttir flutti ágætt erindi á iðnþingi í gær og má segja að nú sé hún loksins komin endanlega úr Evrópuskápnum. Hún segir í niðurlagi ræðu sinnar:

Við erum Evrópuþjóð og eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu. Langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu var mjög umdeilt mál á sínum tíma en nú eru í raun allir sammála um að aðild hafi verið rétt ákvörðun.
Mér segir svo hugur að eins muni það verða ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það verður umdeilt í aðdragandanum og að einhverju leyti á meðan á aðildarviðræðum stendur, en ef við næðum samningi sem þjóðin teldi hagstæðan og myndi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hef ég þá trú að niðurstaðan myndi verða okkur farsæl.
Það sem fyrst og fremst fengist með slíkri aðild er að mínu mati aukinn stöðugleiki og meira öryggi til framtíðar.



Í þessari yfirlýsingu felast mikil pólitísk tíðindi. Hér kveður við töluvert annan tón en heyra hefur mátt frá formanni Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssyni, og skósveini hans, Bjarna Harðarsyni.

Það er nokkuð ljóst að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB. Ef eitthvað má lesa út úr skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins um afstöðu landsmanna, þ.m.t. fylgismanna einstakra stjórnmálaflokka, þá er það sú staðreynd að samfara hnignandi fylgi hefur hlutfall ESB-andstæðinga innan flokksins farið vaxandi.

Á mannamáli þýðir þetta að það eru frjálslyndu framsóknarmennirnir, líberlistarnir, sem eru að yfirgefa flokkinn. Það eru grafalvarleg tíðindi að nú 10 mánuðum eftir verstu útkomu Framsóknarflokksins í kosningum hefur staðan ekkert skánað. Ef eitthvað, þá hefur hún versnað.

Það þýðir lítið fyrir núverandi formann, að bæta það böl með því að benda á eitthvað annað. Verði þessi staða viðvarandi í skoðanakönnunum fram á næsta flokksþing, er óumflýjanlegt að þar muni verða veruleg heitt undir hans stóli. Mótframboð er næsta óumflýjanlegt.

Hvað stefnu flokksins í Evrópumálum varðar, er líka nokk óumflýjanlegt að á næsta flokksþingi verði mörkuð framtíðarstefna flokksins. Leiðin hefur í reynd þegar verið vörðuð, en skýrari niðurstaða í þeim efnum mun án efa hafa veruleg áhrif á samsetningu og fylgisaukningarmöguleika flokksins til frambúðar. Kurteisiskomprómí á flokksþingum hingað til, sem einkum hafa verið til að friðþægja mestu afturhaldsöflin í flokknum, hafa lítið hjálpað.

Ef litið er til þingflokks Framsóknarflokksins er líka ljóst að þeir hinir frjálslyndari þar á meðal verða að fara að gera sig meira gildandi. Valgerður, hversu öflug sem hún er, stendur ekki ein á móti afturhaldinu til lengdar. Hún hefur hins vegar með ræðu sinni á iðnþingi í gær markað sér enn skýrari stöðu enn fyrr. Sem varaformaður flokksins hafa þau orð hennar mikla vigt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.