þriðjudagur, 18. mars 2008

Þorsteinn skammar Styrmi

Það eru betri dagar að vakna þegar vinur minn Þorsteinn Pálsson skrifar leiðara í Fréttablaðið. Í dag, undir fyrirsögninni "Hlutverk Íslands" ritar hann um íslensk öryggis og varnarmál almennt, og um friðargæsluna, og þátttöku Íslands í friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Afganistan sérstaklega. Þar segir m.a. (feitletrun er mín):

Allt er breytingum undirorpið. Sá ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á varnarsamningnum við Bandaríkin, frumvarpi að fyrstu löggjöf um hernaðarlega starfsemi á vegum íslenskra stjórnvalda og íslenskri friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins er gamall herstöðvaandstæðingur.
Þetta er til marks um ábyrg og ánægjuleg hugmyndafræðileg umskipti. En svo sýnist það líka hafa gerst að sumir þeirra sem áður gengu fremst í baráttu fyrir vörðu landi og aðild að Atlantshafsbandalaginu hafi valið sér nýjan sjónarhól í tilverunni þaðan sem utanríkisráðherrann sést enn eins og í sjónglerjum Þjóðviljans á sinni tíð í hlutverki leikbrúðu Bandaríkjanna.

Umræður um aukna hlutdeild Íslands í friðargæslu í Afganistan og ferð utanríkisráðherra til landsins hafa dregið þessi pólitísku hamskipti fram í dagsljósið.
[...]
Sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu ber Ísland ábyrgð á ákvörðunum um hlutverk þess í Afganistan í umboði Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka í friðargæslu í þessu stríðshrjáða landi er því bæði rétt og eðlileg.
[...]

Þau verkefni sem Ísland hefur tekið að sér í friðargæslu hafa svo sem vænta má fyrst og fremst verið borgaraleg. Engin starfsemi af þessu tagi er á hinn bóginn áhættulaus. Það er staðreynd sem horfast verður í augu við.
Satt best að segja bæri það vott um skinhelgi ef við ætluðum að losa okkur undan ábyrgð á friðargæsluverkefnum með því að láta duga að sinna almennu hjálparstarfi og þróunaraðstoð. Við komumst einfaldlega ekki hjá að gera sitt lítið af hvoru tveggja. Báðum þeim hlutverkum eigum við að sinna með stolti.

Ekki þarf sterk gleraugu til að sjá að ritstóri Fréttablaðsins beinir spjótum sínum að ritstjóra Morgunblaðsins, þá sérstaklega leiðara Morgunblaðsins þann 7. mars sl. og niðurlag leiðara sama blaðs þann 15. mars sl. Hér takast á turnarnir tveir í íslenskri fjölmiðlun og ljóst að þeim greinir á um ýmis grundvallaratriði í stjórnmálaumræðu dagsins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.