Ekki get ég sagt að þau tíðindi komi á óvart, því miður, að skattar sem hlutfall af tekjum hjá barnafólki hafi hækkað hér á landi undanfarin ár. Ennfremur að skattabreytingar hér á landi hafi fyrst og fremst komið hátekjufólki til góða. Hér talar engin Stefán Ólafsson, heldur OECD.
Hér á Íslandi er reynt að koma til móts við barnafólk fyrst og fremst með greiðslu barnabóta, eins konar skattendurgreiðsla, sem kemur ársfjórðungslega og hluti þeirra tekjutengdur. Rausnalegastar eru bæturnar gagnvart tekjulágum einstæðum foreldrum. Einstætt foreldri með 200 þús króna mánaðarlaun og 2 börn, annað yngra en 7 ára, fær 472,617 krónur í barnabætur á ári skv. reiknivél á vef ríkisskattstjóra. Það er um 39 þúsund nettó á mánuði og munar um það óneitanlega.
Skerðingarmörk vegna hærri tekna eru hins vegar fljótar að telja inn, og fyrir hjón eða fólk í sambúð eru barnabæturnar fljótar að gufa upp og verða óverulegar.
Eitt af því sem gerir það erfitt að fá hækkun á barnabótum er sú staðreynd að það þýðir aukin útgjöld ríkissjóðs. (Svo er náttúrlega spurning hvort að það sé ekki stórhættulegt að láta barnafólk hafa hærri ráðstöfunartekjur – það eyðir peningunum eflaust bara í einhvern óþarfa, eykur þenslu og og viðskiptahalla – en það er önnur saga!)
Sjálfur ér ég mikill aðdáandi persónuafsláttarins og tel hann vannýtt tæki í því að ná ákveðnum tekjujöfnunaráhrifum í gegnum skattkerfið. Tek það að vísu fram að ég tel tekjutengdan persónuafslátt ópraktískan, en hins vegar að frekar eigi að nota afslátt í stað bóta í okkar skattkerfi. Sérstaklega þar sem það væri auðvelt, skilvirkt og hefði þann skemmtilega kost að draga úr bæði tekjum og útgjöldum ríkisins á sama tíma.
Reyndar tel ég að hægt væri að fella a.m.k. vaxtabætur, húsaleigubætur og barnabætur inn í persónuafláttarkerfið án mikilla vandkvæða. Hækka persónuafsláttinn almennt á móti niðurfellingu vaxta og húsaleigubóta. Það þurfa allir þak yfir höfuðið (með einum eða öðrum hætti!) og því má taka tillit til þess beint í ákvörðun persónuafsláttarins.
Barnabæturnar eigum við síðan að leggja af, en taka þess í stað upp skattkort fyrir alla, börnin líka, sem eru að fullu millifæranleg til foreldra eða forráðamanna – og það alveg fram til loka stúdentsprófs, eða sambærilegs.
Aðgerð af þessu tagi yrði til þess að draga verulega úr skattpíningu barnafólks.
Og að sjálfsögðu væri með þessu kerfi ekki komið í veg fyrir sérúrræði til handa tekjulágum, einstæðum foreldrum. Það gæti þess vegna haldið áfram tiltölulega óbreytt. Það væri þó orðin undantekningaraðferð í stað meginreglu. Afsláttur í stað bóta yrði hin nýja meginregla.
Perósnulega finnst mér þessi umræða kjánaleg og í raun dæmigerð fyrir fólk sem notar sér slagorðapólitík.
SvaraEyðaSkoðaðu málið aðeins betur, ef hagvöxtur hefði verið neikvæður og laun lækkað þá samkvæmt þessu væri verið að lækka skatt á alla. Laun hækka og eðlimáls samkvæmt þá borgum við hærri HLUTFALL, sem er lykiloðið í þessu, af launum okkar.
Auðvitað lækka skatta enn frekar á einstaklinga og fyrirtæki en alls ekki að hækka bætur meira. Þær eru allt of háar í dag.