mánudagur, 29. september 2008

Glitnir: Nokkrar spurningar

Spurningar til að velta fyrir sér:

Markaðsvirðis Glitnis í síðustu viðskiptum m.v. verð hlutar á 14.40 var u.þ.b. 215 milljarðar - raunvirði bankans m.v. kaup ríkisins á 75% hlut með nýju hlutafé var einungis 28 milljarðar (75% keypt á 84 millj. Heildarvirði þ.a.l. 112 millj. Þ.a.l. 25% hluturinn (sem áður var 100%) ekki nema 28 milljarða virði skv. mati stjórnenda Glitnis. Hvernig skýra menn þetta?

Af hverju frekar yfirtaka með nýju hlutafé frekar en lánveiting til þrautavara? Treystu menn ekki endurgreiðslugetu bankans?

Hverjar eru skuldbindingar ríkisins vegna Glitnis umfram nýtt hlutafé? Hefur myndast bein/óbein ríkisábyrgð á rekstri bankans?

Hver eru áhrif yfirtökunnar á samkeppnisstöðu hinna bankanna? Stenst yfirtakan innlendar reglur/EES-reglur um samkeppnismál, markaðsaðstoð, ríkisábyrgð o.s.frv.?

Hver er staða núverandi yfirstjórnar bankans? Er ekki eðlilegt að henni verði allri skipt út?

Er það rétt/eðlileg ákvörðun að Lárus Welding haldi áfram sem bankastjóri?

Áhrif þessa á stöðu Stoða, stærsta einstaka hluthafa Glitnis? U.þ.b. 70 milljarða eignahlutur þeirra í Glitni skv. markaðsvirði sl föstudag er orðinn að 9 milljörðum? Eru ekki Stoðir þar með orðið tæknilega gjaldþrota fyrirtæki? Skv. fréttum hefur fyrirtækið þegar óskað eftir greiðlsustöðvun.

Ef það er rétt eins og fram kemur í fréttatilkynningu Glitnis að undirliggjandi rekstur sé traustur og eignasafnið gott, hvernig er hægt að skýra tæplega 90% eiginlegt verðfall á bankanum frá því fyrir helgi?

Ef ljóst var að í þetta stefndi strax um miðja síðustu viku, af hverju voru viðskipti ekki stöðvuð fyrr, eða Glitnir a.m.k. settur á athugunarlista? Hvað með þá sem keyptu hlutabréf í Glitni í góðri trú síðustu daga síðustu viku?

Hvað gerist með Save&Save reikninga Glitnis erlendis? Verður áhlaup?

Hvaðan koma peningarnir? 84 milljarðar eru ekki vasapeningar, a.m.k. ekki lengur. Símasalan gaf af sér 60 milljarða. Kannski er eitthvað notað af þeim peningum.

Hver verða áhrif þessa gjörnings á lánshæfismat ríkissjóðs?

Undirliggjandi vandi lausafjárþurrðar og gjaldeyrissþurrðar hefur í engu verið leystur með þessum aðgerðum. Hefur þessi aðgerð jafnvel frekar neikvæð áhrif í þá veru, eða hvað?

Eru þessir viðburðir nægjanlegir til þess að hægt sé að viðurkenna að hér sé krísa? Kreppa?

Sannarlega vona ég hins vegar að þessi aðgerð gangi upp hjá seðlabankanum og ríkisstjórninni.

8 ummæli:

  1. Það má benda á það að Glitnir var eina íslenska fyrirtækið á markaði sem hækkaði í síðustu viku (um 4.67%)

    SvaraEyða
  2. Þetta er miklu meira en kreppa, þetta er algjört hrun. You aint seen nuthin´ yet -

    SvaraEyða
  3. Þetta eru orði í tíma töluð. Góðar spurningar!

    Rómverji

    SvaraEyða
  4. Mjög góðir punktar, reyndar er Stoða parturinn útskýrður.. Hvað með aðra hluthafa sem verða fyrir áföllum, hvað með Bygg, hvað með TM, hvað með N1 og fleiri fyrirtæki sem eru tengd þeim aðilum sem eiga í bankanum..

    Ég veit um sparifjáreigandi sem ætlaði að taka út 100 milljónir í morgun í kjölfar fréttanna. Hann fékk þau svör að bankinn ætti ekki fyrir peningnum.

    Einnig er athyglisvert er að exit puntur ekki skilgreindur. Hvað þarf að gerast til að bankinn verður einkavæddur á ný?

    Þetta er sögulegur dagur..

    SvaraEyða
  5. Davíð kúgaði Glitni til að taka þessu tilboði og skeytti ekkert um þau áhrif sem þetta mun hafa á hagkerfið. Það er bara hugsað um eitt...
    Það hefur komið fram hjá Þorsteini Má að margir fleiri möguleikar voru í stöðunni en SÍ kýs að fara verstu leiðina.
    Það er spurning hvort það sé ekki ágætist hugmynd fyrir hluthafa Glitnis að hafna þessu tilboði og hóta því að keyra bankann í þrot. Þá væru þeir að nota sömu aðferðir og Davíð.

    SvaraEyða
  6. Hversu lengi duga þessir 84 milljarðar til að borga af lánum Glitnis? Hvenær setjum við meiri pening í þetta rugl?

    84 milljarðar er c.a. 260 þús á mann m.v. 319 þús Íslendinga.

    SvaraEyða
  7. Á hvað voru ríkisbankarnir aftur seldir á sínum tíma?
    Það væri áhugavert að sjá þær tölur með dagsetningum.

    SvaraEyða
  8. Núna er bandaríski markaðurinn að hrynja í kjölfarið á atkvæðagreiðslu þingmanna, sem felldu tillögu um björgunaráætlun fyrir bankakerfið.

    Geir Haarde var rétt í þessu að segja að ófyrirséð gjaldþrot Lehmann Brothers hefði haft þær afleiðingar að Glitnir hefði komist í lausafjárkreppu.

    Hvað verður um okkur þegar áhrif bandaríska hrunsins koma fram hér eftir nokkra daga eða vikur?

    Og af hverju er ekki verið að tala um það í fréttatímum?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.