fimmtudagur, 2. október 2008

Þarf að virkja öryggisventla EES?

Ástand á gjaldeyrismörkuðum og hið frjálsa fall krónunnar vekur mann til umhugsunar um hvort ástæða er til að virkja öryggisráðstafanir skv. fjórða kafla EES-samningsins.

Þar segir m.a. í 112. grein:

1. Ef upp eru að koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.
2. Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.

Í 113. grein segir síðan m.a.:

1. Samningsaðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 112. gr. skal tilkynna hinum samningsaðilunum það án tafar fyrir milligöngu sameiginlegu EES-nefndarinnar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
2. Samningsaðilar skulu tafarlaust bera saman ráð sín í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.
3. Hlutaðeigandi samningsaðili má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar samkvæmt 1. mgr. nema samráði samkvæmt 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrirfram getur hlutaðeigandi samningsaðili strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.
Framkvæmdastjórn EB skal grípa til öryggisráðstafana fyrir bandalagið.

Hverjar slíkar öryggisráðstafanir gætu verið er hins vegar erfiðara að sjá fyrir. T.d. væri mögulegt að takmarka tímabundið frjálsa fjármagnsflutninga, viðskipti með krónuna og endurvekja gjaldeyriseftirlit Seðlabankans.

Ákvæðin fela hins vegar í sér ákveðna gagnkvæmni í aðgerðum. Geta öryggisráðstafanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins t.d. falið í sér beina aðstoð þess til Íslands með það að markmiði að takmarka neikvæð áhrif erfiðleikana á viðskipti innan EES-svæðisins? Gæti framkvæmdastjórn ESB t.d. óskað eftir því við Seðlabanka Evrópu, í ljósi hagsmuna innri markaðarins, að styðja við íslensku krónuna?

EES-samningurinn a.m.k. hefur í sér vísi að efnahagslegum varnarsamningi samstarfsríkjanna og spurning er hvort núverandi ástand sé orðið þannig að tilefni sé til þess að virkja þann þátt hans. Sértækar ráðstafanir eins og þær sem tilgreindar eru hér að ofan eru markaðshindrandi þ.a. að það væri beggja hagur (Íslands og ESB) að þær vari stutt. ESB hefði þannig beinan hag af því að leggja Íslandi lið.

Hins vegar má einnig velta fyrir sér hvort að Ísland hefði sterkari stöðu ef ósk um aðstoð væri sett fram jafnhliða aðildarumsókn!

1 ummæli:

  1. Kæmi ekki á óvart ef Gjaldeyriseftirlit og yfirfærslunúmer verði vakin til lífsins.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.