laugardagur, 4. október 2008

ESB: Framsókn vill aðildarviðræður

Efnahagsástandið hefur haft þau áhrif að Evrópuumræðan hér á landi hefur gerbreytt um takt. Hvergi er það jafn augljóst og í Framsóknarflokknum þar sem nú liggur beinlínis fyrir að meirihluti er að myndast í þingflokknum fyrir því að sótt verði um aðild að ESB.

Magnús Stefánsson gengur nú orðið einna lengst með skrifum sínum um að sótt verði um án tafar. Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson styðja augljóslega að sótt verði um aðild og boðar Birkir þingályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn. Sú þingályktunartillaga verður óþörf ef stjórnvöld ákveða að setja fram aðildarumsókn án tafar.

Ekki er að efa að félagi Valgerðar og Birkis úr Norð-Austur kjördæmi, Höskuldur Þórhallsson, styðji málstaðinn.

Siv Friðleifsdóttir hefur einnig komið fram og stutt leiðina um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og er ekki hægt að skilja orð hennar hér öðruvísi en að hún vilji sjá hvaða niðurstaða fengist úr aðildarviðræðum.

Afstaða Bjarna Harðarsonar er öllum kunn, en hann er þó yfirlýstur krónuandstæðingur þ.a. þó hann sé á móti aðild geri ég ráð fyrir að hann hafi fullan kjark til þess að láta reyna á aðildarumsókn. Ef niðurstaðan verður að hans mati óásættanleg geri ég ráð fyrir að hann muni vel treysta sér í að berjast gegn samþykkt hennar.

Formaðurinn sjálfur hins vegar hefur opinberað hug sinn. Hann stendur ekki til aðildar, en útilokar ekkert og virðist geta fellt sig við að látið verði reyna á aðildarumsókn, sbr. ræða hans á miðstjórnarfundi nú í vor.

Efnisleg vinna Framsóknarflokksins, bæði innan og utan ríkisstjórnar, í undirbúningi að hugsanlegum aðildarviðræðum hefur einnig verið til fyrirmyndar. Gjaldmiðilsskýrsla flokksins er einungis nýjasta dæmið um það, en á nýopnaðri Evrópugátt Framsóknarflokksins má vel sjá að frumkvæði Framsóknarflokksins á meðan að hann var í ríkisstjórn var umtalsvert, eins og sjá má af þeim skýrslum sem unnar voru á tíma Halldórs Ásgrímssonar sem utanríkisráðherra.

Framsóknarflokkurinn ætti þannig að geta stutt ríkisstjórnina í þeirri vegferð, verði það ein niðurstaða þeirrar vinnu sem fram fer nú um helgina, að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu án tafar.

5 ummæli:

  1. Það væri tóm steypa hjá ríkisstjórninni að fara út í aðildarviðræður án þess að bera hugmyndina undir þjóðina með einhverjum hætti. Núverandi þingmeirihluti hefur ekki umboð til að taka slíka ákvörðun þar sem fæstir kjósendur höfðu ESB aðild í huga þegar kosið var síðast. Það mætti hins vegar bregðast skjótt við og annað hvort rjúfa þing eða boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hugmyndina. Önnur afgreiðsla væri ófyrirgefanleg út frá öllum lýðræðismælikvörðum.

    með framsóknarkveðju, Haukur Logi

    SvaraEyða
  2. Haukur Logi!

    Þessi rök þín "Núverandi þingmeirihluti hefur ekki umboð til að taka slíka ákvörðun þar sem fæstir kjósendur höfðu ESB aðild í huga þegar kosið var síðast" standast ekki skoðun.

    Með sömu rökum gæti ríkisstjórnin ekki brugðist við neinu stórmáli sem kann að koma upp á kjörtímabili þeirra - en var ekki í huga kjósenda fyrir kosningar!

    Ríkisstjórnin getur vel hafið aðildarviðræður án þess að bera það undir þjóðina fyrst.

    Aðildarviðræður eru ekki skuldbindandi!

    Hins vegar gæti hún ekki gengið frá inngöngu í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu - eða undangenginna kosninga

    Það er hins vegar allt annað mál

    SvaraEyða
  3. Hallur!

    Þú lest mig rétt með að ég tel stjórnmálamenn eiga að forðast það sem mest að taka stórkostlega afdrifaríkar ákvarðanir án þess að kjósendur hafi fengið tækifæri til að láta í ljós skoðun sína. Mörg mál á liðnum árum hefðu með réttu átt að senda í þjóðaratkvæði sbr. EES aðildin.

    Eins og þið leggið þetta upp núna á að bregðast við efnahagsvandanum með því að vekja væntingar markaðarins um að Ísland sé á leið í ESB sem ætti í kjölfarið að leiða til jákvæðra viðbragða markaðarins og um leið til þrýstings á Ríkisstjórnina til að hefja þegar aðgerðir sem miða að aðild. Þessi ákvörðun mundi því sennilega við þær aðstæður sem uppi eru núna leiða til óviðsnúanlegra efnahagslegra áhrifa. Uppgjöf gagnvart núverandi stöðu mundi leiða til þess að í raun yrði ekki aftur snúið án stórkostlegrar kollsteypu efnahagslega.

    Þetta mundi setja þjóðina í sömu stöðu og Jón Ásgeir eftir að Dabbi komst með puttana í Glitni. Það verður tilboð um ESB aðild sem ekki er hægt að hafna. Í mínum huga er ekki hægt að sigla þjóðinni í þá stöðu án þess að spurja hana fyrst um álit.

    SvaraEyða
  4. Framsóknarmenn hafa nú aldrei verið taldir mjög flinkir þegar kemur að efnhags málum og hagstjórn, enda eiga þeir stærsta hluta að máli að þessi staða sér komin upp.

    Samtök Atvinnulífsins, bankarnir og fleiri telja að Evran og ESB bjargi efnahagnum. Hvernig á ESB að fara að þvi? Þeir eiga nóg með sitt. Swedbank að fara á hausinn, nokkrir danskir sparisjóðir farnir, Sarkozi og einhverjir stórir í ESB að funda þegar þetta er skrifað og reyna að finna leið út úr ógöngum. Þetta er ekki ósvipuð staða og og hérna á Íslandi.

    Vandamálð í hnotskurn er einfalt, Íslendingar hafa flutt meira inn af vörum (mest lúxusvörum sem eru verðlausar í dag) en útfluttum vörum sem skapa verðmæti, svo nemur hundruðum milljarða síðustu tvö árin. Bankarnir hafa skuldsett sig í botn, almenningur er líka skuldsettur í botn. Það eru engin veð til í landinu fyrir lánum. Þess vegna vilja menn ekki lána peningana sína til Íslands, en ekki af því að hér er annar gjaldmiðill.

    Af hverju eru menn ekki að sjá þessa augljósu staðreynd? Eru menn svona illa gefnir, eða vilja menn ekki sjá þetta?

    Við myndum t.d. aldrei lána Færeyingum peninga ef þeir væru skuldsettir upp fyrir haus. Þá skipti færeysk, dönsk króna eða evra engu máli. Menn vilja bara fá ákveðna ávöxtun þegar þeir lána, og veð á bakvið lánið. Eftir því sem veðin eru lélegri, þeim mun hærri eru vextirnir. Núna er hins vegar svo komið að Íslenskir bankar hafa ENGIN veð til að bjóða erlendum bönkum. Þess vegna fá KB, Landsbanki og Glitnir engin lán.

    Einstaklingar eru í sömu stöðu. Hver vill lána einstakling eitthvað sem skuldar meira en hann á, og er líka að missa vinnuna í þokkabót?

    ESB hjálpar okkur ekkert í þessum málum. Við verðum að hjálpa okkur sjálf. Skera niður allan innflutning eins og hægt er, ásamt því að reyna að búa til meiri verðmæti og flytja út vörur fyrir erlenda mynt og búa þannig til verðmæti. Þangað til verður hér kreppa. Vil ítreka það að Evran hjálpar ekkert í svoleiðis átaki.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.