fimmtudagur, 16. október 2008

Fjarstýrður formaður?

Ræða formanns Framsóknarflokksins í umræðum á Alþingi um munnlega skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankakerfisins var, þegar grannt er hlustað og skoðað, stórmerkileg.

Innan Framsóknarflokksins eru, eins og í öðrum flokkum, skiptar skoðanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flokkurinn hefur hins vegar borið gæfu til þess að fjalla um málið af yfirvegun og skynsemi. Upphrópanir hafa verið fáar, ef undan er skilinn bóksölumaður einn sem helst vill banna alla umræðu, að viðurlögðum hótunum um borgarastyrjöld!

Framsóknarflokkurinn skipaði þannig nefnd á síðasta kjörtímabili, sem í sátu fulltrúar beggja sjónarmiða, auk óákveðinna, sem lagði fram skýrslu á síðasta flokksþingi um samningsmarkmið Íslands ef til aðildarviðræðna kæmi.

Framsóknarflokkurinn skipaði aðra nefnd síðastliðinn vetur, sem í sátu fulltrúar helstu eininga flokksins, sem nú í haust lagði fram skýrslu um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum.

Í maí samþykkti miðstjórn flokksins að koma ætti umræðu um ESB aðild Íslands upp úr pólitískum hjólförum með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, og ef slík umsókn yrði samþykkt, ætti að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þegar niðurstöður aðildarumsóknar lægju fyrir. Byggði þessi ályktun á ræðu formannsins sjálfs við opnun miðstjórnarfundarins. Með þessari leið má segja að málinu hafi verið stefnt í góðan sáttafarveg enda stóð formaðurinn sterkari á eftir með heilan og óskiptan flokk að baki sér.

Þingmaður flokksins, Birkir Jón Jónsson, hefur nú lagt fram þingsályktunartillögu þessa efnis.

Aðrir flokksmenn, þ.m.t. undirritaður, vilja jafnvel ganga lengra í ljósi núverandi efnahagsástands og flýta umsóknarferlinu. Helst ætti að sækja um aðild strax, eða a.m.k. flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn eins og frekast er kostur. Nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvert Ísland muni stefna til framtíðar – innan eða utan ESB. Um það eigi þjóðin að hafa síðasta orðið – og það átti að heita óumdeilt.

Í ræðu sinni síðastliðinn miðvikudag kaus formaður Framsóknarflokksins hins vegar að rjúfa þessa sátt, sem náðst hafði innan flokksins, þegar hann sagði “Evran og Evrópusambandið eru ekki verkefni dagsins. Þær umræður voru lýðræðislegar fyrir einum mánuði, nú þjóna þær ekki tilgangi. Við erum stödd í verstu krísu lýðveldistímans. Leiðin að myntsamstarfi Evrópu verður ekki á dagskrá í bráð.”

Er það svo? Og er það formannsins að ákveða það?

Fleira í ræðu formannsins orkaði verulega tvímælis. Einkar sérkennilegt var að í ræðu sinni kallaði hann alla til ábyrgðar, nema þrjá! Ríkisstjórnir Íslands og Bretlands eru skammaðar af Guðna, ásamt sérstaklega forsætisráðherrum beggja ríkja. Landsbankinn er skammaður, bankamenn almennt eru skammaðir og vændir um lögbrot og að stunda eyðingu gagna. Viðskiptaráðherra er skammaður. Þingmenn stjórnarflokkanna eru skammaðir og formaður Samfylkingarinnar sérstaklega fyrir ónærgætni í garð samstarfsflokksins. Sneitt er til flokksfélaga Guðna og annarra sem talað hafa fyrir aðstoð alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

En, þrátt fyrir allar skammirnar kemur þetta: “Að fórna þremur seðlabankastjórum er fánýt umræða.”

Svo?

Þessu til viðbótar brestur flótti í formann Framsóknarflokksins frá því viðskiptafrelsi og uppbyggingu alþjóðaviðskipta sem flokkur hans hefur unnið ötullega að á undanförnum árum og er hans yfirlýsta stefna. “Ég skora á landbúnaðarráðherra að flýta sér ekki að lögfesta matvælalöggjöf Evrópu við þessar aðstæður” segir Guðni Ágústsson, á sama tíma og blasir við okkur öllum mikilvægi greiðra alþjóðlegra viðskipta, sérstaklega þegar kemur að grunnnauðsynjum.

Í ræðu sinni löðrungaði formaðurinn þorra flokksmanna, þorra þingmanna flokksins, miðstjórn flokksins og flokksþing. Jafnvel mætti segja að hann hafi kastað stríðshanskanum. Merkilegt nokk virðist hann líka hafa löðrungað sjálfan sig, en í ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir tveimur vikum síðan sagði hann eftirfarandi: “Ég tel að Maastricht-skilyrðin sem ríki verða að uppfylla til að taka upp evru sé hagsældarleið horft til framtíðar. Við eigum enga aðra leið nú en að verja krónuna. Hins vegar eigum við að vinna í okkar peningamálastefnu eins og við séum á leið inn í myntbandalagið. Öll þau atriði eru grundvöllur batnandi lífskjara.”

Ræða formannsins er til þess fallin að gefa byr undir báða vængi þeirri kenningu að honum sé í raun fjarstýrt af tveimur fyrrum valdamönnum Sjálfstæðisflokksins, þeim sem nú situr á Svörtuloftum og þeim sem áður ríkti á Hádegismóum.

Ræða þessi kristallaði jafnframt þann vanda Framsóknarflokksins, sem er frjálslyndur og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur, að núverandi formaður hans virðist hvorugt, hvorki frjálslyndur né umbótasinnaður.

Þegar Framsóknarflokkurinn, sem samkvæmt öllum pólitískum formerkjum síðustu sex mánaða ætti að vera í stórsókn og sópa að sér fylgi í skoðanakönnunum upp á 15, 20, jafnvel 25%, nær sér ekki í tveggja stafa tölu, þá er eitthvað mikið að. Að flokkurinn sé enn 20 til 30 prósentustigum frá kjörfylgi síðustu kosninga – sem var einhver versta útreið sem flokkurinn hefur fengið í yfir 90 ára sögu sinni – hljóta menn að staldra við frammistöðu forystu flokksins, og þá sérstaklega formannsins.

Trúverðuleiki formanns Framsóknarflokksins til að framfylgja stefnu flokksins og leiða hann til öndvegis á ný í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma til mikilla álita, sérstaklega eftir að hann hefur gengið með slíkum hætti gegn stefnu og vilja eigin flokks.

15 ummæli:

  1. Aumingja þú að vera framsóknarmaður og játa það blygðunarlaust.

    Björn

    SvaraEyða
  2. Hvers vegna gengurðu ekki í samfylkinguna?

    SvaraEyða
  3. ég hafði nú meira gaman af skrifum Bjarna Harðar. Hann sendi nú ykkur tóninn.

    SvaraEyða
  4. http://visir.is/article/20081015/FRETTIR01/730883038

    hér er bjarni harðar að drulla yfir þá esb sinna í framsóknarflokknum, bara sleppir því að minnast á þá og talar bara um isg.

    SvaraEyða
  5. Það verður ekki logið upp á ykkur framsóknarmenn samstöðunni...

    SvaraEyða
  6. Skilmerkilegur pistill. Hef grun um að í honum kristallist skoðanir miklu fleiri framsóknarmanna, núverandi og fyrrverandi, en bæði formaðurinn og bóksalinn geri sér grein fyrir.

    SvaraEyða
  7. Svo að samkvæmt Bjarna þá er allt í lagi að við leitum til IMF svo framarlega sem að við bara þegjum um það. Svona skömmumst okkar pínulítið fyrir að leita þangað eða hvað ?

    Vona að Framsókn nái sér á strik með tíð og tíma. Hef alla tíð kunnað vel við stefnu Framsóknar þegar að kemur að málefnum Evrópusambandsins. Hún gefur bæði nauðsynlegt andrými, aðlögunartíma og tryggir að það verður á endanum íslenska þjóðin sem að fer með ákvörðunarvaldið. Sviss hefur notast við þjóðaratkvæðagreiðslur með góðum árangri að því að ég best fæ séð. Sé þess vegna ekki hvers vegna það ætti að vera svona mikið vandamál að leyfa þjóðinni að ákveða hvort að í aðildarviðræður skuli farið og á hvaða forsendum.

    Annars hygg ég að þið þyrftuð að fara að íhuga formannsskipti.

    Það er orðið útséð um það að Guðna á ekki eftir að takast að leiða flokkinn í gegnum endurnýjun lífdaga. Tækifærin hafa verið ærin í vetur að nýta sér tækifærin fyrir Framsókn og aðlagast breyttu pólitísku landslagi en samt hefur fylgið annaðhvort staðið í stað eða minnkað. Framsóknarmenn hljóta að eiga í sínum röðum framtíðar leiðtoga sem að getur aðlagað flokkinn að breyttum veruleika.

    Mbk,
    Sigurður

    SvaraEyða
  8. með Guðna sem formann er framsókn dauð. ég hef nú kosið þennan fokk ú undaförnum kosningum og geri það ekki næst með þennan vitleysing sem formann

    SvaraEyða
  9. Góð samantekt. Reyndar er sláandi skelfilegt að verða vitni að því hvernig þeir báðir Steingrímur J formaður VG og Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins halla ekki einu litlu orði á átt að höfuðsmið, hönnuði, byggingastjóra og eftirlitsmanni kerfisins sem hrundi, en það er auðvitað allt einn og sami maðurinn Davíð Oddsson.
    Fyrir mér lýsir það Steingrími J svo botnlaust ómerkilegum að hann geti ekki hallað einu litlu orði að Davíð Oddssyni - af einhverjum mjög annarlegum ástæðum að gerir manninn sem vill mála sig róttækan algeran ómerking allra orða sinna og gerða.

    SvaraEyða
  10. "Fjarstýrður Friðrik"
    Sæll Friðrik. Ég kom með flugi heim frá Kaupmannahöfn í gær í smá helgarheimsókn.
    Í sama flugi var fyrrum formaður Framsóknarflokksins Halldór Ásgrímsson. Þar heyrði ég og ferðafélagar mínir á tal hans. Það duldist engum hvað hann sagði. Innihald boðskaparins var að losna við Guðna Ágústson núverandi leiðtoga ykkar úr formannsstóli flokksins. Óskaplega er maðurinn bitur. Er þetta eina erindi Halldórs til landsins í þetta sinn? Er Halldór sjálfur að fjarstýra þér eða er það Björn Ingi skósveinn hans?
    Þið framsóknarmenn verið að fara að skylja það að Guðni er sál þjóðarinnar. Níð um náungann kemur seinna niður á fólki. Svo vona ég að ég verði í sama flugi og Halldór heim til Dk því ég hef ákveðið að ræða þetta við hann.
    p.s. ertu búinn að missa bitlinginn í utanríkisráðuneytinu? Sé að þú ert skráður í "leyfi"

    SvaraEyða
  11. Ég sé engann mun á ykkur þessum frjálslyndu og umbótasinnuðu framsóknarmönnum og þeim sem eru í Samfylkingunni. Og eitt er víst þið eruð ekki framsóknarmenn fyrir fimmaur. Þið veriðið að átta ykkur á að stjórnmál eru ekki eins og íþróttir. Þ.e maður heldur ekki með sínu liði sama hvað og jafnvel ekki þó pabbi manns hafi haldið með því.

    Ef þið viljið gera gagn núna fylkið þið liði með ykkar skoðanasystkinum í Samfylkingunni og segið skilið við Framsókn, þá afturhaldsíhaldsseggi, sveitalubba, eiginhagmunagæslufólk og þjóðrembur sem þar eiga heima.

    Þá fyrst verður mögulegt að breyta einhverju núna strax og gera þær breytingar sem þarf.

    Kannski myndu Vg þá hætta að daðra við djöfulinn því ekki vilja þeir Framsókn og enginn annar er möguleikinn.

    Þið vitið að þið berið heilmikla ábyrgð á þessu ástandi. Og þið vitiborna fólk verðið að bregðast við og reyna að spyrna við fótum. Þið skuldið þjóðinni það.

    Kveðja, Ásmundur

    SvaraEyða
  12. Eiginlega skiptir það þjóðina engu hvort þessi litli hópur sem enn er nógu samviskulaus til að játa framsóknarmennsku sína, hefur einhverja skoðun á þjóðmálum eða ekki. Þið komið hvort sem er aldrei framar að neinni ákvarðanatöku, því þetta bófafélag fær ekki nema í hæsta lagi þrjá þingmenn næst og engan þar næst.

    SvaraEyða
  13. Grein þín er byggð á misskilningi. Formðaður flokks þíns var greinilega að bregðast við frumhlaupi þingmannsins Birkis Jóns. Hann rauf "sáttina" sem þið kallið svo með því að setja fram tillögu að dagsetningu fyrir ESB-forkosningar. ESB sinnarnir virðast því hafa skotið sig í fótinn.
    AHB

    SvaraEyða
  14. Formaðurinn og bóksalinn gera það að verkum að það er erfitt að gerast Framsóknarmaður.

    Ég finn hins vegar samhljóm fyrir mínar skoðanir í þeim skoðunum sem Friðrik setur fram.

    SvaraEyða
  15. Er Guðni kallinn ekki farin að þjást af vitglöpum. Framsókn hefur verið alveg á tánum út af því sem hrekkur út úr Guðna, og ekki lengur orðið fyndið að heyra hvað lekur út úr honum.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.