mánudagur, 27. október 2008

Guðni á að víkja

Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í gær er alvarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Í engu virðist flokknum hafa tekist að finna vopnin sín í þeim áföllum sem dunið hafa yfir þjóðina á undanförnum vikum.

Skoðanakannanir, jafn gallaðar og þær geta verið, gefa mikilvægar vísbendingar um þróun stjórnmálanna sem ekki er hægt að leiða hjá sér.

Skoðanakannanir síðastliðið eitt og hálft ár hafa ekki verið til þess fallnar að gefa von um að núverandi forysta Framsóknarflokksins geti leitt flokkinn úr þeim ógöngum sem hann er í.

Formaður flokksins hefur komið fram með þeim hætti að ljóst er að þar fer ekki maður framtíðarinnar í íslenskum stjórnmálum.

Formaður flokksins hefur jafnframt tapað trúverðugleika sem leiðtogi bæði innan flokks og utan. Þó flestum þykir vænt um Guðna Ágústsson er stutt bilið á milli væntumþykju og vorkunar.

Væntumþykja er auk þess lítt notadrjúgt veganesti fyrir leiðtoga stjórnmálaflokks.

Auk hörmulegra niðurstaðna í skoðanakönnunum er ljóst að formaður Framsóknarflokksins er ekki leiðandi um stefnumótun innan flokksins. Þvert á móti hefur formaðurinn orðið uppvís að því að vinna beinlínis gegn stefnu eigin flokks.

Það er ekki trúverðugt. Formanni án trúverðugleika er ekki sætt.

Guðni Ágústsson á að víkja til hliðar.

Miðstjórn flokksins mun funda þann 15. nóvember næstkomandi. Þar þarf að samþykkja boðun flokksþings eins fljótt og auðið er, helst fyrir jól, þ.a. hægt sé að velja flokknum nýja forystu til framtíðar.

11 ummæli:

  1. Framsóknarræflunum finnst ekki nóg að gert og vilja gefa Evrópusambandinu landið og fiskimiðin.
    Framsóknarflokkurinn er að deyja
    Hans verður ekki saknað

    SvaraEyða
  2. Algerlega orð í tíma töluð, það er aumkunarvert að sjá á þessum tímum sem ættu að vera tímar viðreisnar Framsóknaflokksins að forystan kemur ekki með neitt uppbyggilegt inn í umræðuna. Vert er þó að benda á að þingmenn framsóknarfloksins eru líka menn og ættu að geta á sínum eigin forsendum tjáð sig mun meira, staðan er sú að Bjarni Harðarson hefur sig mest í frammi með ótrúlega afturhaldslegum aðdróttunum um ESB aðild, sem engan veginn eiga við á þessum tímum þar sem allt er undir.
    Undirritaður er að reyna að vera framsóknarmaður enda alinn upp við góð og gild viðhorf þess flokks. Undirritaður er líka einn þeirra sem fer ekki hátt með þá skoðun sína að vera framsóknarmaður, sem kannski er ekki nema von miðað við frammistöðuna.

    SvaraEyða
  3. Það er full ástæða til að taka undir þessi orð þín. Guðna hefur ekki tekist það verkefni að auka við fylgi flokksins þrátt fyrir ósamstíga ríkisstjórn og gríðalega erfitt ástand sem stjórnvöld hafa þurft að kljást við. Guðni hefur ekki pólitíska sýn og trúverðugleika sem forystumaður stjórnmálaflokks verður að hafa. Sögur um að Davíð Oddsson sé hans helsti ráðgjafi er svo ekki til þess fallið að auka á trúverðugleika Guðna. Því má svo ekki gleyma að Guðni hefur aldrei verið kosinn formaður Framsóknarflokksins.

    SvaraEyða
  4. Guðni er maður síðustu aldar. Hann hefur nær engu sambandi við kjósendur. Þegar hann talar er það alveg óskiljanlegt. Ef til vill var þetta kjarnyrt íslenska um miðja síðustu öld en núna, er þetta sem hann segir rugl og vitleysa. Maðurinn er ekki sambandi við sinn flokk eða þjóðina. Ef framóknarflokurinn vill lifa verður hann að skipta um formann annað er dauðadómur. Það versta er að Guðni svo sannfærður um eigið ágæti og visku að hann sér ekki að hann er að gera flokknum mikinn skaða með að vera formaður.


    kv.

    Helgi

    SvaraEyða
  5. Það er nú kannski ekki svo slæmt að vera maður síðustu aldar á tímum mikillar nostalgíu gagnvart gömlum gildum. Vandi Guðna er að hann er maður síðustu ríkisstjórnar. Allir þeir sem tóku þátt í að einkavæða ríkisbankana hafa dæmt sig úr stjórnmálum eftir þetta hrun. Þeim mun fyr sem Framsókn áttar sig á því þeim mun fyr getur Framsókn farið að byggja upp til framtíðar. Áttar hún sig ekki lifur hún varla næstu kosningar.

    Héðinn Björnsson

    SvaraEyða
  6. Það hefur lengi verið ljóst að Guðni á sér litla tengingu við nútíman, en þó nokkra við fortíðina. Hann var í rikisstjórn DO sem í raun setti allt á hvolf. Hann hefur engan trúverðugleika þegar hann talar eins og maður á fortíðar. Framsókn þarf nýja forystu, skýra stefnu, í málefnum venjulegs fólks og í málefnum landsbyggðar.

    SvaraEyða
  7. Friðrik.

    Hvet þig til að bjóða þig fram sem formaður kjördæmaráðs Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Núverandi formaður er að hætta.

    Kveðja
    Framsóknarmaður af Vesturlandi

    SvaraEyða
  8. Já Friðrik.

    Glæpur flestra stjórmálamanna í dag er að vera að tala um flókna hluti án þess að hafa á þeim nokkurn minnsta skilning.

    Erlendis er það þannig að menn byggja sér upp ráðgjafa/mentor stefna á sviði þeirra mála sem þeir hafa litla þekkingu á. Þannig er t.d. hægt að hafa mentor á sviði fjármála og.sv.fr. ekki ósvipað því að framkv.st. ræður sér hönnuð til að hanna´, fjármálastjóra til að leggja línur þar og sv. fr.

    Erlendis eru stjórnmálaflokkar oft með skuggaráðuneyti og velja þá jafnan menn sem eitthvað vita um málaflokkana.

    Á Íslandi þurfa stjórnendur að hlusta á umræður án minnstu fagmennsku, eins og t.d. EB umræður Guðna og fl. án minnstu þekkingar á viðfangsefninu en því meir af bágbiljum og rangindum.

    Við uppbyggingu Nýja Íslands - verður að auka fagmennsku. Menn hljóta að sækja til fólks eins og þín, vel menntað og öflugt til að ljá nýtt bakland þekkingar.

    Betra væri ef Guðni læsi nokkrar af þínum greinum

    Góð grein

    SvaraEyða
  9. Sæll Friðrik
    Hef verið dyggur framsóknarmaður og talið samhljóm á grunngildum mínum og flokksins. En undir forystu Guðna hefur flokkurinn fjarlægst mínar skoðanir og greinilega er það svo með fleiri. Guðni hefur ekki burði til að leiða hugsjónir framfarasinnaðs stjórnmálaflokks. Hann og Bjarni H eru greinilega alveg búnir á því og finna þarf alvöru leiðtoga sem við getum treyst til annars en að kyssa kýr og vitna í Njálu.
    Stefán E.

    SvaraEyða
  10. Þakka hér flestöllum innlit og jákvæðar athugasemdir. En hverja/hvern geta menn séð fyrir sér næsta formann Framsóknar? Því er vandsvarað. Nóg er hins vegar til af góðu fólki.

    SvaraEyða
  11. Ég er sammála Héðni Björnssyni að stjórnin 1995-2007 er meira vandamál fyrir Guðna en gamlir tímar almennt séð. Guðni er fínn kall, en vandamál hans og flokksins er að kjósendum finnst við ekki í takt við fólkið í landinu.

    Hvernig getum við breytt því?

    1. Við framsóknarmenn þurfum að finna nýjan takt, sem nær til almennings, og við þurfum að vera duglegir að tala í fjölmiðlum. En það mikilvægasta í þessu er trúverðugleiki. Það er alltaf nærtæk freisting að lenda í tækifærismennsku þegar maður hugsar um að verða vinsæll. Kjósendur eru minnugir brambolts í höfuðborgarmálum sem stimplar okkur fyrir tækifærispólitík. Núna biður almenningur um heiðarlegt stjórnmálafólk í staðinn.

    Ég vil að við verðum þekkt fyrir:
    - heiðarleika
    - skynsemi
    - auðmýkt (ekki hroka), að við kunnum að viðurkenna mistök þegar við á, líkt og Steingrímur Hermanns á sínum tíma
    - opna umræðu
    - einingu, ekki flokkadrætti
    - sparsemi, góða meðferð peninga

    Fólk vill ekki bara stjórnmálamenn sem hafa rétt fyrir sér. Heiðarlegur stjórnmálamaður verður miklu ástsælli, jafnvel þó hann hafi stundum á röngu að standa. Steingrímur kallinn var mistækur en hann var ástsæll fyrir það lítillæti að þora að viðurkenna mistök. Halldór Ásgríms var þekktur að vandvirkni, en samt náði hann ekki til þjóðarinnar, og ekki til mín, nema rétt fyrst.

    2. Við þurfum að geta teflt fram hæfu forystufólki í öllum kjördæmum, sem talar skýru máli og getur náð til kjósenda. Ég get nefnt þingmenn sem ég kann að meta, til dæmis Birki Jón og Magnús Stefánsson. Ég hef líka gaman af Bjarna Harðar, þó hann sé mistækur eins og Steingrímur H. Við þurfum ekki að vera jábræður upp til hópa, en við þurfum að verða þekkt fyrir heiðarleika og þekkingu.

    3. Ég sakna Jóns Sigurðssonar. Hann var mjög lýðræðislegur leiðtogi og íhugaði mál vel. Og sú endurskoðun sem flokkurinn gekk í gegnum á hans stutta formannstíma var til góðs, þar sem stuðningur við Íraksstríðið var viðurkenndur sem mistök. Verst að hann er trúlega ekki fáanlegur í formennskuna aftur á meðan hann er utan þings. Ég held að það væri skynsamlegt að skora á hann að leiða aftur framboðslista í Reykjavík, hann ber með sér þennan heiðarleika sem fólk saknar úr stjórnmálunum í dag. Einhver á eflaust eftir að segja að hann hafi nú verið bankamálaráðherra á undan Björgvin, en ef rétt er á málum haldið þá stendur hann það af sér. Hvernig væri að tefla honum fram sem fjármálaráðherraefni okkar? Hvað haldið þið um það?

    4. Við þurfum að vera lítillátir og viðurkenna að eflaust eigum við einhvern þátt í mistökum með setu okkar í fyrri ríkisstjórn. Við getum bent á að brekkan niðurávið kom aðallega í tíð nýju stjórnarinnar, en ef við eigum að ná eyrum almennings þá þurfum við líka að sýna auðmýkt, viðurkenna hugsanleg mistök og fara í vinnu við að skilgreina hverju við þurfum að breyta í stefnu flokksins. Stefna framsóknar frá tíma gömlu stjórnarinnar er ekki það sem mun slá í gegn.

    5. Forysta flokksins: Ég er sammála þér Friðrik að það er vandi að velja nýja forystu. Misheppnaðar tilraunir í því efni gætu lýst sér eins og niðurlægingartími Alþýðuflokksins í langan tíma áður en Jón Baldvin náði að auka fylgi flokksins. Þeir voru alltaf að skipta um formenn.

    Guðni og Valgerður eru bæði hæfir stjórnmálamenn, en þau eru ekki í takt við kjósendur, af því að þeir vilja ekki kjósa aftur yfir sig stjórnina sem var í 12 ár á undan þessari. Vandi þeirra beggja er sá að hafa í langan tíma verið ráðherrar í þeirri stjórn, það er það sem þau eru þekktust fyrir. Framsókn nær ekki nýjum vinsældum hjá kjósendum fyrr en flokkurinn hefur farið í gegnum endurskipulagningu þar sem kúrsinn er settur í aðra átt og það á mannamáli sem kjósendur skilja.

    Sá þingmaður sem ég held að hafi mesta möguleika á að ná til almennings er Birkir Jón. Hann er mjög málefnalegur og rökvís, og kann vel að koma fyrir sig orði. Hann var aldrei ráðherra í gömlu stjórninni og gæti því slegið nýjan takt. Það eina er að hann er ungur, að því leyti væri þægilegri leið að fá hann fyrst inn í varaformannsstólinn og svo formannsstólinn síðar.

    En ef okkur er þörf á að skipta um formanninn líka - eigum við þá betri kandídat? Kannski helst þá Jón Sig. En fengist hann til þess? Miðað við að maðurinn sagði af sér fyrir það að hafa ekki aðgang að ræðustólum alþingis, þá er það hæpið - nema ef til vill ef meirihluti flokksmanna myndi skora á hann til þess.

    Virðingarfyllst - Einar S. Arason.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.