fimmtudagur, 30. október 2008

Pólitísk væluskjóða

Óróamaðurinn Bjarni Harðarson, sem fyrir misskilning er þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, vann við upphaf þingsetu sína drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins, eins og mælt er fyrir 47. grein Stjórnarskrárinnar.

Nú veður hann hins vegar uppi í fjölmiðlum og úthrópar Greiningardeild Glitnis fyrir það að birta greiningarálit sem er í andstöðu við sýndarveruleika þingmannsins. Bregst hann þá við á þann hátt að vilja skerða stjórnarskrárvarinn rétt greiningardeildarinnar og starfsmanna hennar til skoðanafrelsis, sjá 73. grein Stjórnarskrárinnar, og starfskröfum þeirra samkvæmt starfslýsingu, sem er að birta greiningar um ástand og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

Það er merkilegt hvað jafn skoðanafjölskrúðugum manni og Bjarna Harðarsyni, sem er væntanlega sá þingmaður sem hefur veitt íslensku krónunni hvað flestar rýtingsstungur bæði í bak og kvið, er uppsigað við alla þá sem dirfast að vera á annarri skoðun en hann sjálfur.

Sérstaklega ef viðkomandi er á annarri skoðun en hann um Evrópumál. Dirfist einhver að mæla gegn honum er vælt í vandlætingartón. Þá skulu menn kallaðir undirróðursmenn, lygarar og þaðan af verra. Fjölmiðlar sem dirfast að flytja af því fréttir að til sé fólk sem sé annarrar skoðunnar er þingmaðurinn, dæmir hann ómarktæka. Sérstaklega eru þeir bersyndugir ef þeir dirfast að flytja af því fréttir að það séu mun fleiri innan hans eigin flokks sem eru honum ósammála en sammála.

Greiningardeild Glitnis, jafnvel þó Glitnir sé orðinn ríkisbanki, er í engu skyldug til að sýna Bjarna Harðarsyni og yfirgripsmikilli vanþekkingu hans á Evrópumálum einhverja sérstaka tillitsemi. Henni er fullfrjálst að birta hverja þá greiningu sem henni sýnist innan síns starfsramma. Vangaveltur eins og þær sem greiningardeildin birti í gær um hvort kreppan muni leiða Ísland inn í ESB eru fullkomlega eðlilegar.

Bjarna Harðarsyni væri nær að einbeita sér að því að koma með uppbyggilegar tillögur um hvernig bregðast má við því kreppuástandi sem hér ríkir í stað þess að úthrópa þá sem það þó gera. En það virðist honum vera fyrirmunað. Móðursýkis- og geðvonskulegar áhyggjur af auknum áhuga landsmanna á aðild að Evrópusambandinu virðast valda því.

Manninum sem líkt hefur sambandi mestu lýðræðis- og mannréttindaþjóða veraldar við Sovét Stalíns og Þýskaland Hitlers dettur ekkert annað í hug en að vilja svipta þá sem honum eru ósammála tjáningarfrelsinu. Á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi reyndi hann t.d. að trana fram nýrri útgáfu fyrsta boðorðsins, einskonar “Skoðanir formannsins eru skoðanir flokksins, þú skalt ekki aðrar skoðanir hafa!” Var það að sjálfsögðu fellt. Meira að segja formaðurinn fór hjá sér og baðst undan.

Í fyrri pistli lýkti ég Bjarna Harðarsyni við Kristinn H. Gunnarsson. Það var ósanngjarnt gagnvart Kristni.

Bjarni Harðarson er einstakt fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum.

Nú er hann í þokkabót orðinn hornreka í eigin flokki. Búin að lýsa andstöðu við umræður um Evrópumál, vill úrsögn úr EES og úrsögn úr NATO.

Allt er þetta í þverri andstöðu við stefnu Framsóknarflokksins í utanríkismálum.

Er ekki allt þegar þrennt er? Er honum sætt?

Það er ótrúlegt að maður sem að eigin sögn starfaði í aldarfjórðung við blaðamennsku skuli vera jafn uppsigað við tjáningarfrelsið.

8 ummæli:

  1. Þið sem viljið okkur undir erlent vald og skirrist ekki að skrökva um valdakerfi ESB, til að lokka fólk til fylgilags við þetta yfirþjóðlega kerfi. Skulið ekki grípa orðfæri Davíðs Oddsonar um yfirgripsmikla vanþekkingu, það er ekki við hæfi.

    Sannleikurinn er sá, að ef við hefðum til að mynda EKKI verið í EES, værum við að líkum EKKI í þessum vandræðum núna. Fjórfrelsið hefði ekki gert sumum kleyft, að taka þær ákvarðanir sem teknar voru og ekki hefði verið hagt að bera fyrir sig ákvæði um samkeppnishömlur, þegar hugað var að hækkun bindiskyldu.

    Það er með hreinum ólíkindm, hvernig menn sem eru í umfjölluninni um ESB og önnur yfirþjóðleg kerfi, skauta greiðlega framhjá raunveruleikanum.

    Afskaplega hlýtur Bjarni að vera ánægður með,a ð ólund skuli koma úr þeirri átt sem hér er nú komið í ljós.

    Ég samgleðst nafna mínum.

    Miðbæjaríhaldið
    Bjarni Kjartansson

    SvaraEyða
  2. Einmitt, Evrópusambands aðild gæti orðið til þess að:

    kvótinn kæmist í hendur einstakra fjölskyldna;
    launin yrðu svo lág;
    fólk hefði ekki kost á viðráðanlegu húsnæði;
    þar er enginn húsnæðis-leigumarkaður;
    venjulegt fólk þyrfti að vinna svo mikið að það hefði ekki tíma til að sinna börnunum almennilega;
    fólk þyrfti kannski að borga verðtryggð húsnæðislán, alla ævi;
    við hefðum enga frjálsa fjölmiðla.

    Ef þetta er raunin, þá er betur heima setið, en af stað farið.

    SvaraEyða
  3. Sæll frændi - Þrátt fyrir ruglið í honum er ég nú glaður að sjá að hann vilji fara út úr NATO - vonandi kemst sú umræða betur af stað hjá ykkur.

    En gaman að sjá að þið virðist vera eini flokkurinn sem er að takast á um grundvallargildi þessa dagana, þá á ég við innanflokks. Á svona umrótartímum er þörf á því að yngra fólkið í flokkunum (og bara þau sem hafa eitthvað til málana að leggja) stígi fram og láti í sér heyra og þori að taka umræðuna við þá sem sitja í þægilegum stólum á alþingi.

    Bestu kveðjur,
    Ármann

    SvaraEyða
  4. Það væri mikið þjóðþrifamál fyrir Framsókn að senda þingmennina tvo í Suðurkjördæmi til Vinstri Grænna þar sem þeir eiga heima.
    IG

    SvaraEyða
  5. Enga föðurlandssvikara í stjórnmál!
    Niður með Framsóknarflokkinn

    SvaraEyða
  6. Eitt Framsóknarfíflið enn.
    Bjarni bullustrokkur á að hafa vit á að halda kjafti og segja af sér þingsætinu strax,ef hann kann að skammast sín,en sennilega er það til of mikils mælst af fíflinu.

    SvaraEyða
  7. Vá ég held að þessi maður hafi ruglast á merkjum á flokkunum þegar hann gekk inn í Framsókn, hefur haldið að fyrst að merkið væri grænt þá væri þetta VG...

    SvaraEyða
  8. Ert þú í réttum flokki?

    Er þetta ekki spurning um Samfylkinguna?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.