þriðjudagur, 14. október 2008

Snilldarpistill Valgerðar

Nýjasta bloggfærsla Valgerðar Sverrisdóttur er tær snilld. Þar leggur hún út frá nýrri stöðu í fjármálakerfinu þar sem 2 konur eru nú teknar við völdum í nýju ríkisbönkunum og segir m.a.:

Þetta leiðir óneitanlega hugann að stöðunni í stjórnmálum. Getur verið að þar sé líka þörf fyrir breytingar í þessa átt? Getur verið að það þurfi einnig á þeim vettvangi að gefa konum aukin tækifæri?

Áfram heldur Valgerður og vísar til nýlegra skrifa formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar, og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar, og telur augljóslega báða(r) mæla skynsamlega hvað varðar þau mál sem brýnast á okkur brenna um þessar mundir. Hún endar svo færslu sýna svohljóðandi:

Nú velta ýmsir fyrir sér hvort þær ættu að hafa enn meiri völd og hvort hugsanlegt sé að "þjóðstjórn kvenna" sé framundan.

Þess má geta að varaformenn Vinstri grænna og Framsóknar eru líka konur.

Svo gæti Edda Rós Karlsdóttir orðið seðlabankastjóri.

Ég segi nú bara si svona.

Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég hef áður sagt, þetta er tær snilld! Hvar skrifa ég undir stuðnings- og áskorunaryfirlýsingu fyrir þessari hugmynd?

5 ummæli:

  1. Bíddu nú við. Var Edda Rós ekki innsti koppur í búri í bönkunum sem verið er að sópa út í horn? Hún er vissulega klár kona og kemur vel fyrir en hvers vegna má hampa henni á meðan allir vilja lögsækja og næstum því afhausa strákana? Elín og Birna voru líka í liðinu með strákunum en núna er ekkert talað um það. Það er margt skrítið í kýrhausnum. Edda Rós væri örugglega fínn seðlabankastjóri en mikið er þetta undarleg umræða.

    SvaraEyða
  2. Sammála - bæði þér og Valgerði, sbr. þessa færslu mína frá 4.4.08 með lagasjónarmiðum fyrir því að þvinga hefði mátt kvennakvóta á stjórnir hlutafélaga eins og við hefðum betur gert: http://neytendatalsmadur.blog.is/blog/neytendatalsmadur/entry/484132/

    Þá hallast ég líka helst að Eddu Rós sem Seðlabankastjóra af nokkrum góðum af yngri kynslóðinni, t.d. Gylfa Magnússyni.

    SvaraEyða
  3. Valgerður sat sem ráðherra í ríkisstjórn í... hvað mörg ár? Hún fékk næg tækifæri til að hafa áhrif en hvað gerðist? Nákvæmlega það sem leiddi til þeirrar stöðu sem við erum í nú í dag. Valgerður ber fulla ábyrgð og ég myndi ekki treysta henni í nýja ríkisstjórn, hvort sem yrði með körlum eða konum.

    Edda Rós er áreiðanlega eldklár kona. En hún hefur verið talsmaður greiningardeildar sem hefur gert í buxurnar hvað eftir annað. Það er ekki álitlegur ferill til að byggja á.

    SvaraEyða
  4. Framsókn er dauð. Tómt mál að tala um.

    SvaraEyða
  5. Snilld pistilsins liggur í nokkurm lögum. Fyrst er náttúrulega hinn kvenlegi þjóðstjórnarvinkill, sem er allrar athygli verður í sjálfu sér. Hins vegar ef maður tekur niður kynjagleraugun og setur upp hin MAchiavellísku, þá blasir snilldin en betur við. Frú Valgerður bún að koma sjálfri sér í ríkisstjórn, búin að víkja til hliðar formanni flokksins, og afgreiða í leiðinni formenn bæði Sjálfstæðisflokksins og Vinstri Grænna. Frjálslyndi flokkurinn, sem er jú kvenmannslaus í kulda og trekki, lómir með þessari aðferðafræði áfram utan áhrifa. Snilld!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.