sunnudagur, 16. nóvember 2008

Ekki kosningar... strax

Krafan um kosningar fyrr en síðar verður æ háværari. Það er skiljanlegt. Í ljósi þess að nú blasir við að innan fárra vikna verður tekin ákvörðun um aðildarumsókn að ESB eigum við að halda í okkur með kosningar.

Þær eiga að fara fram strax að loknum aðildarviðræðum.

Nú skulum við gefa okkur það að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki aðildarumsókn á landsþinginu í lok janúar á næsta ári. Það mun koma í kjölfar þess að flokksþing Framsóknarflokksins mun nokkru fyrr hafa staðfest vilja miðstjórnar frá því í gær að Ísland eigi að sækja um aðild.

Þá mun liggja fyrir vilji aukins meirihluta flokka þeirra sem sitja á Alþingi um aðildarumsókn, þ.a. vart verður beðið boðanna. Til að allt fari nú vel fram má gera ráð fyrir að mánudaginn 2. febrúar 2009 verði lögð fram þingsályktunartillaga um umboð ríkisstjórnar til aðildarumsóknar að ESB. Sú tillaga mun fá hraðafgreiðslu og fyrir vikulok verði sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu búinn að ganga á fund framkvæmdastjórnarinnar og leggja fram aðildarumsókn Íslands.

Jafnhliða þyrfti að gera eftirfarandi:

1. Endurvekja stjórnarskrárnefnd. Þar yrðu meginverkefnin þríþætt, að ganga frá breytingartillögu til heimildar takmarkaðs framsals valds til yfirþjóðlegra alþjóðastofnanna, að útfæra ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og ganga frá ákvæði um þjóðareign auðlinda.

2. Stofna þverpólitískan og þverfaglegan samráðshóp samninganefndar og stjórnvalda vegna aðildarviðræðnanna. Sá hópur yrði til ráðgjafar í ferlinu og bundinn trúnaði.

Almennt mat er að aðilarviðræður muni ekki taka langan tíma, kannski hálft ár til níu mánuði ef ekki koma upp sérstök ófyrirséð vandamál. Í flestum tilvikum verður um að ræða samninga um tímalengd aðlögunar á þeim þáttum sem ekki eru þegar hluti að EES-samningnum.

Sjávarútvegshlutinn verður augljóslega vandasamasti þátturinn, en það er vitað. Það að hefja aðildarviðræður verður í sjálfu sér yfirlýsing að hálfu beggja um einbeittann vilja til að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Nú er lag í ljósi yfirvofandi endurskoðunar sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þar getur Ísland lagt mikið til.

Kosningar til Alþingis eiga ekki að fara fram fyrr en við lok þessarar vinnu, samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Ef vel gengur gætu þær kosningar farið fram í seinni hluta septembermánaðar 2009. Aðild Íslands að ESB gæti þannig orðið að veruleika frá 1. janúar 2010.

Ísland myndi síðan gegna formennsku í Evrópusambandinu í fyrsta sinn á tímabilinu janúar til og með júlí 2013, hugsanlega samhliða upptöku evrunnar.

5 ummæli:

  1. Ég held Friðrik, að það verði að koma því við að almenningur kjósi þá aðila sem hann vill hafa í því að móta framtíðina héðan í frá. Skipbrotið er algjört og það þarf að manna uppá nýtt, í raun við fyrsta mögulega tækifæri. Þeir sem takast á við endurreisninga þurfa nefnilega að hafa eitthvað smá traust.

    SvaraEyða
  2. Ég held að þetta sé ekki gott plan.

    Til að byggja hér upp er nauðsynlegt að þingið fái nýtt umboð, bæði með tilliti til þess hver valdahlutföll flokka verða - og ekki síst með tilliti til þess hvaða fólki þjóðin treystir til að koma hér að málum og uppbyggingu.

    NýEvrópusinnar geta einfaldlega unnið heimavinnuna um stjórnarskrárbreytingar í aðdraganda kosninga og komið þeim á hreint. Fá síðan umboð - eða ekki - til að stjórna landinu og klára umsóknarferlið, sem þjóðin staðfestir eða synjar í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Hitt er bara klént plan til að púkka upp á liðónýta þingflokka.

    SvaraEyða
  3. Einu rökin fyrir þvi að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking séu saman í ríkisstjórn er einmitt þegar nauðsynlegt er að þjappa þjóðinni saman um ákvarðanir sem erfitt er að taka til baka t.d. með þvi að skipta um ríkisstjórn.

    Vandamálið er að þessir einstaklingar sem eru í forsvari fyrir þessa flokka hafa ekkert traust. Formlega hafa þau enn þá umboðið en raunverulega eru þau umboðslaus og þess vegna þarf að kjósa strax.

    Af hverju þurfum við að fá að kjósa strax?

    1) Til þess að sýna sjálfum okkur og umheiminum að við öxlum ábyrgð með þvi að hreinsa út Sökudólgana.

    2) Til þess að taka afstöðu til málann og í framhaldinu að ákveða hverjum við felum umboð okkar til að klára umsóknarferli í ESB.(ef það er það sem við viljum)

    SvaraEyða
  4. Þjóðin verður að fá sitt að segja. Þjóðin hefur ekki biðlund í alla þessa vinnu fyrir kosningar.

    Ef það er hægt að samþykkja fyrir kosningar nýjar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur, þannig að það þurfi ekki trekk í trekk að rjúfa þing og ganga til kosninga til að breyta stjórnarskrá, þá er það góðra gjalda vert, en biðlund þjóðarinnar fyrir næstu kosningar nær varla lengur en til vorsins.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.