sunnudagur, 16. nóvember 2008

Hinir fimm fræknu...

Þættinum hefur borist bréf...

Hin fimm fræknu sem rannsaka eiga bankahrunsglæpina

Alþingi hefur nú til afgreiðslu frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara. Áhugasamir geta nálgast frumvarpið hér: http://www.althingi.is/altext/136/s/0156.html

Frumvarpið geri ráð fyrir því að stofnað verði tímabundið rannsóknarembætti sérstaks saksóknara “til að annast rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við hinar sérstöku og mjög óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði og eftir atvikum fylgja henni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.” Í frumvarpinu segir einnig að markmið þess sé “að vinna að því höfuðmarkmiði neyðarlaganna svonefndu að efla traust almennings á fjármálakerfinu. Við núverandi aðstæður verður það ekki gert nema með óvenjulegum úrræðum.”

Frumvarpið er í samræmi við þá alkunnu og háværu kröfu þjóðarinnar að hinir meintu bankahrunsglæpir verði rannsakaðir. Í ljósi mikilvægis málsins vekur eftirfarandi texti í skýringum við frumvarpið athygli:

Erfitt er að sjá fyrir hversu viðamikil verkefni embættisins verða og er því gert ráð fyrir að starfsmannafjöldi þróist í takt við umfang verkefnanna. Gert er ráð fyrir að fastir starfsmenn verði í upphafi aðeins þrír til fjórir auk héraðssaksóknara, þ.e. tveir lögreglumenn, viðskiptafræðingur með endurskoðunarréttindi og haldgóða reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og eftir atvikum almennur skrifstofumaður. Nauðsynlegt er að starfsmenn hafi góða tungumálakunnáttu og alþjóðlega menntun eða tengsl. Gera má ráð fyrir að á árinu 2009 verði starfsmenn orðnir 10 talsins.”

Þessi texti vekur upp áleitnar spurningar. Liggur virkilega fyrir þarfagreining hjá stjórnvöldum sem segir að fimm til tíu manna teymi nægi? Hjá bönkunum störfuðu (og starfa enn) nokkur þúsund starfsmenn og margir þeirra eru væntanleg vitni sem þarf að yfirheyra að ekki sé talað um þá sakborninga sem þarf að yfirheyra. Meint fórnarlömb bankahrunsglæpa (íslensk og erlend) virðast vera ansi mörg og þeim er öllum frjálst að leggja fram kæru hjá hinum sérstaka saksóknara.

Hin fimm (til tíu) fræknu sem rannsaka eiga sakamálaþátt bankahrunsins munu væntanlega hafa í nógu að snúast næstu áratugina ef ekki kemur til raunhæfari greining á mannafla- og útgjaldaþörf vegna rannsóknarinnar. Hér mætti hugsa sér að lögfest yrði heimild hins sérstaka saksóknara til að fá lánað, tímabundið, til rannsóknarinnar reynt starfsfólk frá efnahagsbrotadeild RLS, embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, samkeppniseftirlitinu og öðrum eftirlitsstofnunum til að flýta rannsókninni. Lögin myndu þá jafnframt kveða á um rétt þessa starfsfólks til launalauss leyfis úr núverandi starfi.

Heilbrigð skynsemi segir manni að fimm til tíu manna teymi getur ekki rannsakað bankahrunsglæpina með ásættanlegum hraða. Til þess er flækjustig málsins (lesist krosseignatengsl) of mikið. Það er líka alkunna að rannsóknir efnahagsbrota, eins og þau sem hér um ræðir, eru tímafrekar og geta tekið mörg ár sérstaklega ef mannskapurinn er ekki nægur. Nærtækt er hér að benda á Olíusamráðsmálið og Baugsmálið sem tók mörg ár að rannsaka. Hér skipta skilvirkni og trúverðugleiki máli frá fyrsta degi rannsóknar. Mannfæð, fjár- og tímaskortur má ekki verða til þess að slóð hinna seku kólni og afbrot þeirra fyrnist. Fleira þarf til þjóðarsálarinnar vegna sem kallar á uppgjör við hina seku og lokun málsins sem fyrst.

Ekki má hér heldur gleyma mikilvægi réttlátrar málsmeðferðar og því að það telst til mannréttinda sakaðra manna að fá sem fyrst úrlausn sinna mála og þurfa ekki að sitja (jafnvel að ósekju) undir grun, svo árum skiptir, um refsiverða háttsemi með því brennimarki og þeirri vanlíðan sem því fylgir.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða meðhöndlun frumvarpið fær hjá Alþingi sem vel að merkja fer einnig með fjárveitingarvaldið.

Höfundur óskar nafnleyndar

2 ummæli:

  1. og hvað, ekki orð um formanninn og hvernig hann var hrakinn á brott?

    SvaraEyða
  2. Alveg þögn um hvernig þið komuð Guðna frá?
    Kveðja, Stefán

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.