laugardagur, 29. mars 2008

Vitlaus verðbólgumæling

Þann 5. apríl 2006 birtist eftirfarandi grein eftir mig í Fréttablaðinu. Í henni gagnrýndi ég þá staðreynd að Ísland notaðist við verðbólgumælingu sem ætti sér hvergi hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í greininni velti ég upp ýmsum spurningum um mögulega skaðsemi þessarar séríslensku tölfræði. Í ljósi núverandi ástands læt ég hana fylgja hér í heild sinni:

Röng verðbólgumæling á Íslandi?

Ekki veit ég hvaða svari blaðamaður Fréttablaðsins bjóst við af yfirhagfræðingi Seðlabankans við gagnrýni Skagen fondene í Noregi á notkun vísitölu með húsnæði inniföldu við verðbólgumat. A.m.k. hefði það orðið stór frétt ef, öndvert við gefið svar, hann hefði játað á bankann mistök og tekið undir að núverandi verðbólgumæling gæfi ranga mynd af eiginlegri íslenskri verðbólgu. Frétt um þetta mátti lesa í Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. mars sl. ("Segir Seðlabankann taka mið af rangri vísitölu", bls. 28).

Verðbólgumælingin sem Seðlabankinn styðst við, er eins og svo margt annað í íslensku efnahagslífi, sér-íslenskt fyrirbrigði. Ekkert annað land mælir verðbólgu á nákvæmlega sama hátt og Ísland, og væntanlega gerir ekkert annað land þróun húsnæðisverðs jafn-hátt undir höfði og íslenska verðbólgumælingin.

Skýtur það ekki skökku við, á þessum tímum alþjóðavæðingar og opins flæðis fjármagns, að Ísland noti annan staðal við verðbólgumælingar en t.d. okkar helstu nágranna- og viðskiptaþjóðir? Í vel flestum löndunum í kringum okkur hefur átt sér stað viðlíka hækkun á verði húsnæðis og hér á Íslandi. Samt sem áður hefur það hvergi komið fram í verðbólgutölum viðkomandi landa á jafn afgerandi hátt og hér heima.

Sem dæmi má nefna að í Danmörku er húsnæði inni í verðbólgumælingu, en þar er aðallega byggt á húsaleiguvísitölu, þ.e.a.s. þróun leiguverðs á markaði, sem er háður ströngum reglum og leyfum hins opinbera varðandi hækkanir.

Enda hlýtur að vera eðlileg spurning hvort ekki sé réttara að húsnæðisvigt í verðbólgu sé metin út frá þróun leiguverðs og t.d. fjármagnskostnaðar við húsnæðiskaup, frekar en þróun eiginlegs húsnæðisverðs. Flest okkar kaupa jú húsnæði kannski tvisvar til þrisvar yfir ævina, á meðan við velflest greiðum húsaleigu eða afborganir einu sinni í mánuði. Er ekki eilítið verið að blanda saman óskyldum hlutum, þegar verðbólgumat er samsett annars vegar úr neysluvísitölu, sem er í eðli sínu eignarýrandi vísitala, og hins vegar húsnæðisvísitölu, sem er í eðli sínu eignamyndandi? Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvort þróun á verði hlutabréfa á markaði eigi ekki allt eins heima í verðbólgumælingunni eins og húsnæðisvísitalan.

A.m.k. er það svo að hinn mikli munur á íslensku verðbólgunni annars vegar og samræmdu EES-vísitölunni hins vegar hefur vakið athygli á undanförnum árum. Samkvæmt samræmdu EES- vísitölunni er Ísland, merkilegt nokk, ætíð meðal þeirra þjóða sem hafa lægsta verðbólgu á EES-svæðinu, en samkvæmt sér-íslensku verðbólgumælingunni, er Ísland ætíð meðal þeirra þjóða með hæstu verðbólguna. Samræmda EES-vísitalan sleppir alveg húsnæði.

Gallinn við þessa sér-íslensku verðbólgu er sá að þegar Seðlabankinn einblínir á þróun hennar við ákvörðun á skammtímavöxtum getur ýmislegt farið úrskeiðis. Vaxtamunur við útlönd verður óheyrilegur. Gífurlegt innstreymi erlends fjármagns í formi skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í íslenskum krónum – er hún tilkominn vegna Kárahnjúka, eða vegna hávaxtastefnu Seðlabankans? Of hátt gengi íslensku krónunnar síðastliðin ár, er það tilkomið vegna útrásarinnar, eða vegna hávaxtastefnu Seðlabankans? Gífurleg hækkun húsnæðis á Íslandi, er hún eingöngu komin vegna aukins frjálsræðis í lánamálum vegna húsnæðis, eða spilar þar rullu sá gríðarlegi vaxtamunur á milli annars vegar óverðtryggðra skammtímalána og verðtryggðra langtímalána hins vegar? Getur verið að gífurlegur viðskiptahalli undanfarin ár skýrist af hávaxtastefnu Seðlabankans? Að hávaxtastefna Seðlabankans gegn verðbólgu, sem kannski er vitlaust mæld og ofmetin, hafi ýtt undir ójafnvægi annarra þátta efnahagslífsins? Er lækningin verri en sjúkdómurinn?

Getur það verið að hin hefðbundnu tól og tæki Seðlabankans, gömlu formúlurnar og hagfræðitólin, henti ekki lengur nýju íslensku hagkerfi, alþjóðavæddu og opnu? Er tölfræðin farin að verða okkur fjötur um fót? Er komin tími á uppfærslu? Ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að skammtímavextir eru stór kostnaðarþáttur í rekstri sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hár vaxtakostnaður hlýtur því á endanum að velta út í verðlagið. Snýst þar með hávaxtastefna Seðlabankans upp í andhverfu sína og ýtir undir verðbólgu í stað þess að draga úr henni.

1 ummæli:

  1. skrifað 19. des 2005
    http://homepage.mac.com/biggibraga/blogwavestudio/LH20040917152655/LHA20051219093305/index.html

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.