laugardagur, 1. nóvember 2008

Af hverju fóru þeir ekki?

Það voru mistök að fara ekki með bankann úr landi er haft eftir Kaupþingsmönnum í Morgunblaðinu í dag. Það hafði legið í loftinu lengi að sá kostur var í stöðunni hjá a.m.k. Kaupþingi og Glitni.

Fram hefur komið margoft á undanförnum árum gagnrýni af hálfu bankamanna, bæði á peninga- og evrópustefnu stjórnvalda. Ennfremur höfðu þeir gagnrýnt þrönga túlkun laga um skráningu og uppgjör í erlendum gjaldmiðlum.

En hvað hélt þá í bankana? Af hverju fóru þeir ekki úr landi?

Var þrátt fyrir allt eitthvað í íslensku umhverfi sem gerði það að verkum að bankarnir reyndu að hanga með móðurfélögin á Íslandi sem lengst?

Gjarnan vill maður trúa því að það hafi verið annars vegar út af tryggð við eldgömlu Ísafold og hins vegar vegna þess að rekstrarumhverfi væri hér hagfellt, t.d. skattalega og vegna mannauðs.

Í ljósi þess sem hefur verið að koma fram um útþennsluaðferðafræði bankanna á síðustu vikum rennir mann hins vegar í grun að stór liður í þeirri ákvörðun að hanga á íslensku horrimini sem lengst hafi verið slakt eftirlitsumhverfi.

Að bankarnir hafi vitað að ef þeir flyttu úr landi yrðu þeir undir mun strangara eftirliti og í þrengra rými til athafna en hér. Að erlendis yrði þeim frekar settur stóllinn fyrir dyrnar en hér heima.

Bankarnir fengu aðvörun vorið 2006. Fulltrúar þeirra segjast hafa brugðist við henni m.a. með því að draga úr krosseignatengslum og auka fjölbreytni í fjármögnun, t.a.m. með auknum innlánum. Þannig urðu til bæði Icesave og Edge.

Það sem breyttist hins vegar ekki, sem hefði eftir á að hyggja verið meiri þörf á, var grundvallar viðskiptamódel þeirra. Áfram var hart keyrt í skuldsettum yfirtökum og agressívrí lánastarfsemi til fyrirtækja þar sem meiri fókus var á ebídtur en eigið fé.

Vissulega er auðvelt að vera vitur eftir á, en það er líka hluti af því að læra af reynslunni. Hefði þannig ekki verið nær eftir viðvörunina 2006 að hægja aðeins á, að einbeita sér að uppbyggingu eiginfjár, bæði bankanna og þeirra helstu íslensku viðskiptavina, draga á meðan úr arðgreiðslum og bónusum og þannig byggja betri grunn til framtíðar.

En, aftur að upphaflegu spurningunni, af hverju fóru þeir ekki? Var það þjóðrækni, eða var það vegna þess að frelsið til athafna var meira en annarsstaðar?

Sem leiðir af sér aðra spurningu, var vandinn ekki afleiðing af fjórfrelsinu og EES, heldur frekar af því að menn nýttu ekki þau tól til eftirlits og afmörkunar sem fylgi með í þeim pakka? Sterkara samkeppniseftirlit, sterkara fjármálaeftirlit, og sterkari Seðlabanki?

Það er ekki nóg að setja reglurnar, það verður líka að fara eftir þeim og gefa þeim sem eiga að sinna því eftirliti þau tól og þau aðföng sem til þarf.

Kannski svör við þessu muni fást í Hvítbókinni.

2 ummæli:

  1. Snjöll greining hjá þér og ábyggilega rétt.
    Þeir fóru ekki vegna þess að þeir töldu umhverfis heppilegra hér. Líka auvelt að mergsjúka fyrirtæki og fólkið í landinu eins og nú heimur komið í ljós.
    Tak fyrri áhugaverð skrif.
    KE

    SvaraEyða
  2. Nákvæmlega það sem ég hef hugsað. Hér heima var einfaldlega hægt að komast upp með hluti sem aldrei hefðu gengið annarsstaðar.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.