Frumvarp fjármálaráðherra um aukin gjaldeyrishöft sem lagt var fram í þinginu núna seinnipartinn og á jafnvel að afgreiða með afbrigðum núna í kvöld og nótt er fásinna.
Í trássi við meðalhóf og til að bregðast við vanda sem frumvarpið sjálft getur ekki gert fyllilega grein fyrir á að vaða fram og setja enn ein neyðarlög.
Ekki verður það til að skapa trúverðugleika eða stöðugleika.
Ekki verður það til að laga vandann við greiðsluyfirfærslur til Íslands frá útlöndum.
Ekki verður það til að auka tiltrú á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar eða íslensku krónunni.
Samkvæmt frumvarpinu er verið að bregðast við eftirfarandi vanda:
Gengi íslensku krónunnar hefur farið lækkandi síðustu vikur og eru sterkar vísbendingar um að því markmiði með skilaskyldunni að byggja upp gjaldeyrisforða vegna útflutningstekna verði ekki náð þar sem aðilar eru ekki skuldbundnir til að selja útflutningsafurðir í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hefur einnig dregist saman sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Veiking gengis gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig er dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.
Í þessari málsgrein er lykilfrasinn það að uppi "eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008."
Vísbendingar um að eitthvað sé nærri???
Er ekki allt í lagi?
Heildarútflutningur frá Íslandi á umræddu tímabili er um og yfir 100 milljarðar. Vegna hugsanlegrar sveiflu milli erlendra gjaldmiðla og íslenskrar krónu upp á kannski allt að 2% - TVÖ PRÓSENT!!! - af heildarútflutningi tímabilsins þá á að grípa til svona róttækra aðgerða.
Ég vona svo sannarlega að þingmenn hafi bein og taugar til að stoppa þessa vitleysu. Nóg er nú samt.