þriðjudagur, 31. mars 2009

Gjaldeyrishaftageggjun

Frumvarp fjármálaráðherra um aukin gjaldeyrishöft sem lagt var fram í þinginu núna seinnipartinn og á jafnvel að afgreiða með afbrigðum núna í kvöld og nótt er fásinna.

Í trássi við meðalhóf og til að bregðast við vanda sem frumvarpið sjálft getur ekki gert fyllilega grein fyrir á að vaða fram og setja enn ein neyðarlög.

Ekki verður það til að skapa trúverðugleika eða stöðugleika.

Ekki verður það til að laga vandann við greiðsluyfirfærslur til Íslands frá útlöndum.

Ekki verður það til að auka tiltrú á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar eða íslensku krónunni.

Samkvæmt frumvarpinu er verið að bregðast við eftirfarandi vanda:

Gengi íslensku krónunnar hefur farið lækkandi síðustu vikur og eru sterkar vísbendingar um að því markmiði með skilaskyldunni að byggja upp gjaldeyrisforða vegna útflutningstekna verði ekki náð þar sem aðilar eru ekki skuldbundnir til að selja útflutningsafurðir í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hefur einnig dregist saman sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Veiking gengis gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig er dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.

Í þessari málsgrein er lykilfrasinn það að uppi "eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008."

Vísbendingar um að eitthvað sé nærri???

Er ekki allt í lagi?

Heildarútflutningur frá Íslandi á umræddu tímabili er um og yfir 100 milljarðar. Vegna hugsanlegrar sveiflu milli erlendra gjaldmiðla og íslenskrar krónu upp á kannski allt að 2% - TVÖ PRÓSENT!!! - af heildarútflutningi tímabilsins þá á að grípa til svona róttækra aðgerða.

Ég vona svo sannarlega að þingmenn hafi bein og taugar til að stoppa þessa vitleysu. Nóg er nú samt.

Gengi gengis

Sko...

Seðlabanki Íslands hefur gengi íslensku krónunnar algerlega í hendi sér.

Gjaldeyrismarkaður er tiltölulega umfangslítill. Seðlabankinn þarf ekki að kosta miklu til þess að halda upp gengi krónunnar, og styrkja það jafnvel enn frekar.

Gengissig undanfarna vikna virðist þannig stefnuval núverandi seðlabankastjóra.

Haft er eftir fjármálaráðherra að ástæður gengissigsins undanfarið sé vegna stórra gjalddaga í vikunni á vaxtagreiðslum jöklabréfa. Þeim megi skipta í erlendan gjaldeyri. Það er þá í raun mjög hentugt fyrir Seðlabankann að í aðdraganda slíkar útborgunar falli gengið. Það sparar gjaldeyri.

Meginástæða hárra vaxtagreiðslna, fyrir utan jú að allt of mikið fé er hér bundið í jöklabréfum, eru hinir fáránlega háu vextir. Lækkun vaxtanna myndi spara meiri gjaldeyri en gengissigið.

Tökum dæmi:

Milljarður í jöklabréfi ber 18% vexti. Vextir eru borgaðir á þriggja mánaða fresti og vaxtagreiðslan í hvert sinn 45 milljónir. Þremur vikum fyrir útborgunardag er gengi krónunnar gagnvart evru 144 krónur þ.a. fyrirsjáanlegt er að ca. 312,5 þúsund evrur verði keyptar á útborgunardegi. Með því hins vegar að ná fram 15% gengissigi fram að gjalddaga verður gengi evrunnar 165,6 krónur og einungis 272 þúsund evrur keyptar á gjaldaga - búið að spara 40 þúsund evrur!

Ef hins vegar vextirnir eru lækkaðir í 12% með sömu öðrum skilyrðum, þá verður vaxtagreiðslan eftir þrjá mánuði 30 milljónir og m.v. evrugengi 144 krónur, vaxtagreiðslan í evrum 208 þúsund – 64 þúsund evrum lægra en við 18% vexti og 165,6 krónu evrugengi.

(Til umhugsunar þá þyrfti gengi evrunnar að fara niður í 110,3 krónur til þess að 30 milljón króna vaxtagreiðslan skilaði jafn miklu í evrum (272 þúsund) og 45 milljón króna vaxtagreiðslan skilar við gengi 165,6 krónur.)

Það er því ríkinu, atvinnuvegunum og seðlabankanum miklu frekar í hag að keyra niður vextina og tryggja á sama tíma stöðugleika gengisins, frekar en að fara að ástunda sama leik og viðskiptabankarnir voru ásakaðir um að stunda í aðdraganda ársfjórðungsuppgjöra fyrir bankahrun og "manipulera" með gengið í aðdraganda skuldadaga jöklabréfanna.

föstudagur, 27. mars 2009

Ólögleg ríkisaðstoð?

Ég velti því fyrir mér hvort lánin til VBS og Saga Capital geti talist ríkisaðstoð.

Í EES-samningnum segir í 61. grein: 61. gr.: "Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila."

Fyrirgreiðsla þessi, þrátt fyrir að hún sé bundin skilyrðum, hlýtur að minnsta kosti að dansa alveg á mörkum þess að vera samrýmanleg EES-samningnum.

Það hlýtur að vera hægt að fá úr því skorið.

Samkvæmt sömu grein EES-samningsins á ríkisaðstoð við t.d. í tilvikum "...til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða." Auk þess getur hún við t.d. ef þarf að "...ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis."

Sú meginregla gildir án efa í þeim efnum að ekki sé um samkeppnishamlandi eða -truflandi aðgerð að ræða og jafnræðis sé gætt.

Fullt tilefni hlýtur þannig að vera fyrir þá aðila sem keppa á sama markaði og VBS og Saga Capital að kanna forsendur þessarar lánafyrirgreiðslu og hvort hún geti flokkast sem óeðlileg, jafnvel ólögleg, ríkisaðstoð.

Í ljósi takmarkaðs aðgengis að lánsfé hljóta bæði lánveitingin sjálf, auk hinna mjög svo hagstæðu vaxtakjara, að koma til álita.

miðvikudagur, 25. mars 2009

SPRON: Skortur á skilningi?

Ekki ætla ég að draga í efa að SPRON hafi verið í verulega djúpum.

Hins vegar eru fréttir Markaðar Fréttablaðsins og Pressan.is allrar athygli verðar um óánægju kröfuhafa vegna aðgerða stjórnvalda.

Pressan.is birti frétt þessa efnis fyrir þremur dögum þar sem sagði m.a.:

Pressan hefur heimildir fyrir því að stærstu kröfuhafar SPRON hafi skrifað íslenskum stjórnvöldum bréf og varað eindregið við að aftur yrði gripið til ákvæða neyðarlaga við yfirtöku á íslenskum fjármálafyrirtækjum. Slíkt væri augljóst brot á alþjóðalögum og mismunaði kröfuhöfum. Forsvarsmenn SPRON telja að Seðlabankinn hafi í raun og veru ákveðið að taka bankann niður og reyna ekki frekari björgunartilraunir, þrátt fyrir að í síðustu viku hafi komið fram tilboð af hálfu erlendu kröfuhafanna, einkum þýskra banka, um niðurfellingu skulda upp á 21% og lengingu í lánum, þannig að afganginn mætti greiða á næstu 7-10 árum.

Í frétt Markaðarins í morgun segir m.a.:

Kröfuhafar SPRON töldu stjórnvöld fylgja rangri eða gallaðri ráðgjöf í aðdraganda þess að Fjármálaeftirlitið (FME) greip inn í rekstur SPRON og Sparisjóðabankans um síðustu helgi.

Hver er hin ranga eða gallaða ráðgjöf?

Þá hefur Markaðurinn heimildir fyrir því að auki á reiði kröfuhafanna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) virðist hafa átt hlutdeild í þeirri ákvörðun að taka SPRON yfir, en ákvörðun þar að lútandi hafi verið tekin að höfðu samráði við sjóðinn.

Í leiðara Markaðarins segir m.a. eftirfarandi:

Ljóst er að mikillar reiði gætir í þeirra hópi þar sem ekki hafi verið fullreynt með samninga um niðurfellingu skulda og breytt lánakjör sem þeir telja að aukið hefðu líkur á betri heimtum á kröfum þeirra. Þrátt fyrir að kröfuhafarnir hafi lýst yfir vilja til að ljúka samningum innan ásættanlegs tíma var ráðist í yfirtökuna. Forsvarsmenn þessara sömu banka ákveða lánakjör til hverra þeirra íslensku fyrirtækja sem til þeirra kynnu að leita þegar fram líða stundir.

Þannig að kröfuhafar SPRON vildu afskrifa skuldir SPRON um 20%, jafnvel meir, til þess að auka líkur á betri heimtum á kröfum sínum.

Hvaðan hef ég heyrt tillögur og rök í þessa áttina? Sigmundur og Tryggvi, getið þið hjálpað mér að rifja það upp?

Hverjir hafa verið alfarið á móti þeirri aðferðafræði? Eru það ekki sömu aðilar og ákváðu að taka yfir SPRON? Forsætisráðherrann? Viðskiptaráðherrann?

Var ekki fulltrúi Alþjóða gjáldeyrissjóðsins ekki búin að tjá sig í þessa veru líka opnberlega, þó hann hefði víst sagt annað á lokuðum fundum?

Mátti ekki verða til fordæmi þar sem þessari aðferðafræði væri beitt? Þó að í þessu tilviki væri það að frumkvæði kröfuhafanna?

Svo aftur sé vitnað í frétt Markaðarins frá í morgun:

„Í kjölfarið á símafundi sem nýlokið er við fulltrúa FME, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins [síðdegis föstudaginn 20. mars], hefur stýrihópur sá sem er fulltrúi 35 alþjóðlegra banka sem lánað hafa SPRON miklar áhyggjur af því að taka eigi handahófskennda og óábyrgar ákvarðanir í málefnum SPRON. Ákvarðanir sem byggja á skorti á skilningi viðeigandi yfirvalda á þeirri lausn til endurskipulagningar sem þeim var kynnt 18. mars," segir í erindinu, sem er frá fulltrúa Sumitomo Mitsui bankanum. Sá banki er jafnframt einn stærsti kröfuhafi Kaupþings.

Ástæða er til að taka undir varnaðarorð ritstjóra Markaðarins í leiðara hans í morgun þegar hann segir: „...verður að teljast ólíklegt að forsvarsmenn erlendra stórbanka sem hér hafa tapað ógrynni fjár verði áfjáðir í að fjármagna hér uppbyggingu ef ekki er fyllstu sanngirni gætt í samskiptum við þá."

mánudagur, 23. mars 2009

XD og ESB

Í hádeginu á morgun mun fara fram athyglisvegt einvígi tveggja turna í Sjálfstæðisflokknum um Evrópumál.


Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, og Björn Bjarnason, alþingismaður, munu klukkan 12:10 í Háskólanum í Reykjavík skiptast á skoðunum um hvort Íslandi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.


Þetta ætti að verða mjög athyglisvert og án efa mun þetta einvígi gefa tóninn fyrir umræðurnar um ESB á landsfundi flokksins um næstu helgi.

sunnudagur, 22. mars 2009

Skagalistinn?

Þá liggur fyrir niðurstaða hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi. Einar K. fellur af stalli, en vestfirðingar engu að síður halda þremur af fjórum efstu sætum. Oddvitinn verður hins vegar Ásbjörn Óttarsson úr Snæfellsbæ.

Á Akranesi eru menn úr öllum flokkum nema Samfylkingu hins vegar að átta sig á því að engir skagamenn eru í öruggum sætum á lista. Undantekningin er Guðbjartur Hannesson, þingforseti og oddviti Samfylkingarinnar í kjördæminu.

Þetta hefur víst orðið einhverjum tilefni til að ræða, hálft í gamni – hálft í alvöru, að réttast væri fyrir skagann að tefla fram sínu eigin framboði í kosningunum. Sérstaklega ef lög um persónukjör næðu fram að ganga. Þá væri ekkert því til fyrirstöðu að fólk úr fleiri en einum flokki sameinuðust í sérframboði, t.d. Skagalistanum, og biðu fram.

Slíkur listi ætti að geta náð nokkrum árangri því u.þ.b. þriðjungur atkvæðabærra manna í Norðvestur kjördæmi býr á og við Akranes. Skagalistinn ætti þannig tæknilega séð að geta náð þremur mönnum á þing, en að teknu tilliti til Guðbjarts, líklega frekar tveimur.

Akranes er að auki löngu orðið úr takti við restina af kjördæminu og ætti í sjálfu sér mun frekar heima sem hluti af t.d. Suðvesturkjördæmi. Akranes er eiginlega lýsandi dæmi fyrir það hvað núverandi kjördæma- og kosningaskipan er arfavitlaus.

Akranes á þannig meiri hagsmuni sameiginlega með Hafnarfirði en Borgarnesi, svo dæmi sé tekið, í ljósi sinna stóriðju- og eftirlifandi sjávarútvegshagsmuna. Akranes þjónar líka hlutverki úthverfabæjarfélags frá Reykjavík, rétt eins og kraginn.

Reyndar má hið sama segja um sveitarfélögin á Reykjanesi – hagsmunir þeirra liggja fremur nær sveitarfélögum í kraganum en á suðurlandsundirlendinu – en það undirstrikar líka hvað núverandi kosninga- og kjördæmakerfi gengur illa upp. Fyrir utan nú delluna með skiptingu Reykjavíkur í tvennt.

Skagamenn geta reyndar líka að vissu leyti sjálfum sér um kennt. Þeir eru ekki eins duglegir að taka þátt í pólitísku starfi og almennt er í öðrum sveitarfélögum í kjördæminu og ennfremur ekki eins duglegir að standa með sínum sveitungum í t.d. prófkjörum innan flokkanna.

Þess vegna meðal annars eru skagamenn jafn illa settir hlutfallslega hvað varðar fulltrúa í efstu sætum lista flokkanna vegna næstu Alþingiskosninga.

Og þess vegna fá einhverjir svona hugdettur eins og Skagalistann.

Yrði það X-A fyrir Akranes?

laugardagur, 21. mars 2009

ESB og næsta ríkisstjórn

Það er má vel vera rétt mat hjá ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara dagsins að flest bendi til þess að núverandi stjórnarflokkar muni ná hreinum meirihluta eftir næstu kosningar. Langsóttari þykir mér heldur sú kenning að þeir muni engu að síður bjóða Framsóknarflokknum með í stjórnarsamstarfið. Og þó.

Athyglisvert verður hins vegar að fylgjast með hvernig afstaða flokkanna til Evrópusambandsins, og þá sérstaklega aðildarumsóknar, á eftir að hafa áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar.

Í drottningarviðtali dagsins í Fréttablaðinu opnar verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins dyrnar upp á gátt gagnvart Evrópusambandsaðild með yfirlýsingu sinni um að engin kostur sé jafn sterkur í gjaldmiðilsvalkostum þjóðarinnar og upptaka evru með aðild að ESB.

Fréttir af landsfundi Vinstri grænna bera það hins vegar með sér að þar sé lítill áhugi á að opna á Evrópusambandið, þó undankomuleið með lýðræðistilvísunum liggi í bakgrunninum.

Ef hins vegar Vg lokar um of á undankomuleiðir í Evrópumálunum og skilja ekki að minnsta kosti eftir opnun á aðildarumsókn, hlýtur það að hafa áhrif á myndun ríkisstjórnar eftir kosningar - sérstaklega í ljósi mjög afdráttarlausra yfirlýsinga leiðtoga Samfylkingarinnar að þeir muni ekki semja burt Evrópusambandið eins og gert var á Þingvöllum fyrir tveimur árum.

Ákall á það að vinstri flokkarnir gangi bundnir til kosninga endurspeglar þá í því ljósi ákveðið vantraust á milli þeirra, meðal annars vegna þess að þeir hafa ekki gert út um Evrópumálin sín á milli. Með því að ganga bundin til kosninga án þess að leysa úr Evrópumálunum við Vg væri Samfylkingin í reynd að gefa þeim neitunarvald á frekara framhald málsins.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr hvað varðar ESB. Flokkurinn vill sækja um aðild með þeim skilyrðum sem skilgreind voru á flokksþinginu í janúar síðastliðnum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn opnar á aðildarumsókn en Vinstri grænir hafa áfram lokað, hvað gerir þá Samfylkingin?

Ein leið væri að mynda á ný ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar, en líkurnar á því eru hverfandi.

Önnur leið væri myndun minnihlutastjórnar með Framsóknarflokknum, sem varin yrði hlutleysi annað hvort Vinstri grænna eða Sjálfstæðisflokksins. Slík minnihlutastjórn hefði það verkefni, jafnhliða almennum efnahags- og björgunaraðgerðum, að sækja um aðild að ESB strax í kjölfar kosninganna í vor.

Slík minnihlutastjórn myndi væntanlega ekki sitja mikið lengur en meðan aðildarviðræður fara fram, og náist ásættanlegir samningar, fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Rökrétt gæti verið í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, sama hver hún verður, að boða til nýrra þingkosninga í kjölfarið.

föstudagur, 20. mars 2009

Næsta ríkisstjórn

Það stefnir í að næsta ríkisstjórn verði samsett af Vinstri-grænum og Sjálfstæðisflokknum.

Það gerðist allavega síðast þegar að stjórnmálaflokkur skilgreindi sig sem valkostinn við Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar að þá fór sá flokkur beina leið í stjórnarsamstarf við þann flokk eftir kosningar.

Sporin hræða í þessum efnum, þ.a. þegar Steingrímur J. lýsir því yfir í setningarræðu á flokksþingi Vg að Vg og Sjálfstæðisflokkurinn séu "...pólarnir í íslenskum stjórnmálum" þá fæ ég netta deja vu tilfinningu.

Turnarnir tveir og allt það.

En það var að vísu annar flokkur og Vg vonandi hefur meiri heilindi en sá hafði á sínum tíma.

Þannig að kannski eru Vg ekkert á leið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum!

Vandaveltu-leiðin

Tillaga Jóns Steinssonar og Gauta B. Eggertssonar í Morgunblaðinu í morgun er ágætis innlegg í þá umræðu hvernig eigi að leysa skuldavanda heimilanna. Hún er þó langt í frá gallalaus.

Einn stór galli við þessa tillögu er að hún í reynd leysir engan vanda heldur er honum frestað. Lagt er upp með reiknikúnst sem byggir á því að afborganir miðist við greiðslugetu sem hljómar ágætlega. Þetta á að virka þannig að skuldari greiði ákveðna prósentu af ráðstöfunartekjum í hítina, en það sem upp á vantar, miðað við það sem hefði átt að greiða í hefðbundnum afborgunum, færist aftur fyrir.

Þetta er í sjálfu sér lítið annað hlutafrysting lána og lánalenging, en núna með því sem á víst að verða grípandi söluheiti: LÍN-leiðin.

LÍN-leiðin er ágæt svo langt sem hún nær, en hún hefur t.d. gert það að verkum að námslánaskuldirnar gera lítið annað en að vaxa og vaxa. Sjálfur þekki ég dæmi um námslán hjá meðaltekjumanneskju sem stóð í 9,2 milljónum við árslok 2007, en var komið í 10,7 milljónir í árslok 2008. Hækkun á einu ári upp á eina og hálfa milljón takk fyrir. Samt eru vextir umfram verðtryggingu á námslánum smámunir samanborið við þá vexti sem eru á húsnæðislánum.

Margfeldisáhrifin sem verða við þessa aðferðafræði ef henni verður beitt á almenn lán í því verðtryggingar og hávaxtaumhverfi sem við búum í eiga eftir að gera það að verkum að innan fárra ára verða skuldir heimilanna orðnar ógnvekjandi.

Að vísu mun það tæknilega ekki skipta máli svona rétt á meðan skuldarinn dregur andann, en tæknilega gjaldþrota verða ansi margir, og að minnsta kosti öll þau 30 þúsund heimili sem eru með neikvæða eða mjög takmarkaða eiginfjárstöðu í dag.

Með þessari aðferð verður gjaldþrot allra þessara aðila í raun óumflýjanlegt, en væntanlega frestað fram til andláts! Það er þá kannski vonandi að útistandandi skuldir deyi með viðkomandi en flytjist ekki yfir á aðstandendur og afkomendur. Kostnaðinum við þær afskriftir hefur þá hins vegar líka verið velt yfir á framtíðarkynslóðir.

Margfeldisáhrifin eiga líka eftir að búa til lánasöfn í bankakerfinu sem verða óbærileg og óverjandi í efnahagsreikningi bankanna – hin nýju undirmálslán. LÍN-leiðin hjá LÍN gengur nefnilega upp af því að það er opinber sjóður, en mér sýndist Jón og Gauti horfa alveg framhjá þeirri staðreynd.

Þessi gagnrýni mín reyndar kristallar þann viðvarandi vanda sem við munum öll búa við vegna verðtryggingar og krónunnar. Árangur þessarar aðferðafræði, rétt eins og niðurfærsluleiðarinnar, verður skammgóður vermir ef Ísland kemst ekki von bráðar í betra skjól í gjaldmiðilsmálum.

En það er gott hjá Jóni og Gauta að koma með þessa tillögu. Hún á það skilið eins og niðurfærsluleiðin að fá sanngjarna en gagnrýna umræðu. Mér sýnist þó að hún sé frekar réttnefnd vandaveltu-leiðin en LÍN-leiðin.

Ég leyfi mér hins vegar að leggja til að á meðan stóru hugmyndirnar eru ræddar að þá verði að minnsta kosti farið í þá aðgerð að hjálpa heimlinum að einfalda skuldastöðu sína. Húsnæðislán heimilanna standi sér, en önnur lán sameinuð í eitt lán og í því lengt og teygt, jafnvel fryst, þannig að sú greiðslubyrði verði viðráðanleg. Til að greiða fyrir slíkum gjörningi verði stimpilgjaldið afnumið og lánastofnunum meinað að rukka lántökugjald. Það væri ágætis byrjun.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Auðmannadekur Samfylkingarinnar

Það er pínu kómískt að fylgjast með sumum viðbrögðunum við 20% skuldaniðurfærsluleiðinni sem Framsóknarflokkurinn setti fram sem eina af átján tillögum til aðgerða í efnahagsmálum. Tillaga sem Framsóknarflokkurinn á langt í frá nokkurn höfundarrétt að, né halda flokksmenn því fram, og framsóknarmenn eru síður en svo einir um að styðja.

Sérstaklega eru móðursýkisleg viðbrögð ágæts samfylkingarfólks athyglisverð, til dæmis Árna Páls í Silfri Egils síðasta sunnudag, og bloggpistlar Steinunnar Valdísar og Önnu Sigrúnar hér á eyjan.is. Viðbrögðin bera með sér að fæstir virðast hafa kynnt sér forsendur tillagnanna og því síður að viðkomandi bjóði upp á annan kost, fyrir utan jú tillögur um greiðsluaðlögun sem á eftir að setja landið endanlega á hausinn ef ekki verður komið með önnur úrræði samhliða eða strax í kjölfarið. Meira um það síðar.

Hið kómíska, jafnvel frekar tragí-kómíska, við viðbrögð Samfylkingarfólks við 20% niðurfærsluleiðinni er að sérstaklega virðist angra þau annars vegar sú staðreynd að því meira sem þú skuldar því meiri niðurfærslu (eða afslátt) færð þú í krónum talið, og hins vegar að „einhver“ muni jú þurfa að borga og sá kostnaður muni lenda á ríkissjóði og skattborgurum.

Ekki heyrðist þessi gagnrýni þegar fulltrúar þessa ágæta flokks sátu í ríkisstjórn síðastliðið haust þegar hrunið varð og ákveðið var að tryggja allar bankainnistæður án þaks, þrátt fyrir að engin lagaskylda væri til slíks. Engar áhyggjur komu fram þá að verið væri að taka skattfé hins almenna borgara – verkakonunnar, ruslakallsins og kennarans – til að greiða t.d. innistæður auðmanna upp á tugi eða jafnvel hundruðir milljóna.

Að sama skapi heyrðist ekki múkk frá þessu sama ágæta fólki þegar með fulltingi þeirra ágætu fulltrúa var farið út í að tryggja stærsta hluta innistæðna í peningamarkaðssjóðum, án þess að fyrir því væri nokkur lagaskylda og án nokkurs þaks. Þar var einföld prósenta látin ráða.

Í báðum tilvikum er kostnaðurinn vegna þessa að lenda á okkur almenningi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margir milljarðar umfram það sem heimild var til í lögum.

Einu aðilarnir sem Samfylkingarfólk virðist vilja setja í sérflokk erum við skuldarar þessa lands – við eigum að taka á okkur höggið af kerfishruninu að fullu. Við fáum í mesta lagi smá plástur og magnyl í formi lenginga í lánum og frystinga, en á endanum eigum við að borga allt upp í topp. Meira að segja þegar nokkuð virðist ljóst að „manipulerað“ var bæði með verðbólguna og gengi krónunnar á síðustu árum.

Í orði er vinum mínum í Samfylkingunni tamt að segja frá umhyggju sinni fyrir almúga þessa lands – á borði virðist þeim hafa verið annast um þá sem auðinn eiga...

mánudagur, 16. mars 2009

Atvinnuleysi 10,5%

Sé á heimasíðu vinnumálastofnunnar að atvinnuleysið í dag er komið upp í 16.955 manns. Kynjaskiptingin er þannig að 10.774 karlar eru skráðir atvinnulausir og 6.181 kona.

Að baki hverju prósenti í atvinnuleysistölum eru u.þ.b. 1.620 manns. Atvinnuleysið hér er því komið upp í u.þ.b. 10,5%.

Á morgun mun fjöldin fara yfir 17.000. Með sama hraða verður fjöldin komin yfir 20.000 fyrir páska.

Hvar endar þetta?

laugardagur, 14. mars 2009

Flottur listi Framsóknar í norðvestur

Þá er lokið talningu í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Niðurstaðan er til fyrirmyndar, þó eflaust megi gagnrýna að ekki sé meiri kynjadreifing í fimm efstu sætin, en þrír karlar sitja í þremur efstu og tvær konur í fjórða og fimmta sæti.

Leiðtogi listans er þaulvanur og öflugur pólitískur höfðingi úr Skagafirðinum, Gunnar Bragi Sveinsson, og ekki við öðru að búast en að hann muni rækja það hlutverk af stakri prýði.

Honum til halds og trausts í öðru sætinu er týndi sonurinn sem sneri aftur heim, Guðmundur Steingrímsson, og naut hann án efa öflugs pólitísk ættboga til viðbótar við eigið atgervi.

Í baráttusætinu er síðan stórbóndinn mikli, í fleiri en einni merkingu, úr Borgarfirðinum, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.

Verðandi varaþingmenn eru síðan kjarnorkukonurnar Elín Líndal og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Allt er þetta úrvalsfólk sem ég nýt þess heiðurs að geta kallað vini mína eftir að hafa þeyst með þeim um kjördæmið á níu fundi á níu dögum, dagana fyrsta til níunda mars síðastliðinn.

Ég var sem sagt einn af þeim fjórum frambjóðendum sem ekki komst á blað í þessari póstkosningu, sem ég skal fúslega viðurkenna að var ekki það sem ég stefndi að við upphaf þeirrar vegferðar að bjóða mig fram til forystu á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Ég hins vegar gerði mér ljóslega grein fyrir að um mjög væri á brattann að sækja þar sem ég í fyrsta lagi er tiltölulega óþekktur meðal framsóknarmanna í kjördæminu og í öðru lagi hafði engin fjárráð til að kosta í framboðið.

Í þriðja lagi vissi ég sem var að í þessu ágæta kjördæmi eru skoðanir mínar til nokkurra hitamála ekki sérlega vel til vinsælda fallnar, svo sem skýr afstaða mín í Evrópumálum – en ég vil ekki aðeins sækja um aðild, ég vil inn að því gefnu að hagfelldur aðildarsamningur náist – sem að mínu mati er vel hægt.

Ég tel það auk þess vera eitt af mestu hagsmunamálum fyrir íslenskt atvinnulíf og þá sérstaklega sjávarútveg og landbúnað að ná góðum aðildarsamningi við Evrópusambandið í samræmi við ályktun flokksþing Framsóknarflokksins. Þessir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar munu ekki geta vaxið, dafnað og skapað fleiri störf án þess að til komi aðildar með stórauknu markaðsaðgengi á Evrópumarkað fyrir meðal annars fullunnar vörur. Fagnaðarlætin á framboðsfundum þar sem ég hélt fram þessari afstöðu minni voru hins vegar frekar lágstemmd!!!

Það er mér hins vegar sérstakt ánægjuefni að þrátt fyrir allt endurspegla efstu sæti listans ákveðið jafnvægi í Evrópumálum, sérstaklega hvað varðar stefnu flokksins eins og hún var ákveðin á síðasta flokksþingi.

Að sama skapi var lítil kæti yfir því þegar ég t.d. á fundi á Sauðárkróki minnti fundarmenn á að þrátt fyrir marga kosti samvinnuformsins í atvinnurekstri væru engu að síður á því einstakir ágallar sem ekki væri hægt að líta framhjá, eins og til dæmis sá að í samvinnufélögum er hætta á að til verði fé án hirðis.

Í fjórða lagi viðurkenni ég fúslega að annir við önnur störf – mína mjög svo skemmtilegu, krefjandi og gefandi dagvinnu – settu mér verulega stólinn fyrir dyrnar hvað varðar möguleikann á því að geta rekið kosningabaráttu.

Í fimmta lagi er svo sú staðreynd að sá ágæti hópur sem keppti um sæti á þessum lista var mjög frambærilegur. Við slíkar aðstæður er vandi kjósenda ánægjulegur – að geta valið úr hópi að góðu fólki vitandi nokkuð vel að sama hver niðurstaðan verður að þá verður hún að öllum líkindum góð og flokknum til framdráttar.

Framsóknarmenn allir í Norðvesturkjördæmi mega þannig vel við una þau úrslit sem töldust upp úr póstumslögunum í kvöld. Listi flokksins verður ekki aðeins vel samkeppnisfær, heldur yfirburðalisti í kjördæminu í þeim kosningum til Alþingis sem eru framundan.

Fylgja þessum lista af minni hálfu hugheilar hamingjuóskir til frambjóðenda, annarra Framsóknarmanna og allra kjósenda í kjördæminu.

Öllum mínum ágætu meðframbjóðendum í þessari póstkosningu þakka ég fyrir skemmtilega og drengilega keppni. Þetta var lærdómsrík reynsla sem ég mun búa að til langrar framtíðar.

Frekara pólitískt brölt af minni hálfu er hins vegar allt í deiglu - eðlilega.

mánudagur, 9. mars 2009

Spjörunum úr...

Í gær var haldinn síðasti sameiginlegi kynningarfundur þeirra frambjóðenda sem sækjast eftir sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi. Í allt voru 10 fundir haldnir á 9 dögum,

Mér tókst að mæta á 9 af tíu fundum, sem voru hver öðrum skemmtilegri. Á hverjum einasta fundi var mest spurt um afstöðu og viðhorf frambjóðenda til Evrópusambandsins og hugsanlegrar aðildarumsóknar Íslands.

Langflestir frambjóðenda lýstu sig sammála ályktun flokksþings Framsóknarflokksins um að sækja um aðild með skýrum skilyrðum. Það breytir því þó ekki að margir þeirra eru algerlega andstæðir aðild sama hver niðurstaða slíkra viðræðna yrði.

Upplifði ég sjálfan mig sem hálfgerðan hrópanda í eyðimörkinni á þessum fundum hvað varðar afstöðuna til ESB og áhrif hugsanlegrar aðildar á íslenskt atvinnulíf, þá sérstaklega sjávarútveg og landbúnað, og á íslenskt efnahagslíf almennt.

Afstaða mín er nefnilega sú að í fyrsta lagi sé vel hægt að ná fram þeim skilyrðum sem sett voru fram í ályktun flokksþing í aðildarviðræðum við ESB, og í öðru lagi að aðild að ESB sé nauðsynleg þessum tveimur grunnatvinnuvegum þjóðarinnar til að tryggja þeim aukinn markaðsaðgang og aukna möguleika til markaðssóknar og aukinnar fullvinnslu. Við núverandi aðstæður verða engin ný störf til í hvorki sjávarútvegi né landbúnaði. Hagræðing og aukin framleiðni í þeim greinum án aðildar að ESB verður einungis með frekari samrunum og fækkun starfa. Aukinn markaðsaðgangur er eini möguleikinn til hins gagnstæða og eini alvöru markaðurinn sem stendur til boða er Evrópumarkaður við aðild.

Ekki get ég fullyrt að þessum sjónarmiðum mínum hafi verið tekið fagnandi um sveitir og sýslur Norðvesturkjördæmis, en ljóslega mátu fundamenn við mig að tala tæpitungulaust um afstöðu mína til Evrópumála - þó einhverir hefðu jafnvel talið það jaðra við fífldirfsku!

En það breytir ekki því að það að taka þátt í fundaherferð af þessu tagi var allt í senn skemmtilegt, gefandi og fræðandi. Hvernig sem póstkosningin fer mun maður búa að reynslu undangenginnar viku til langrar framtíðar. Ég er því þakklátur öllum þeim sem komu að skipulagi þessara funda og þá sérstaklega þeim sem lögðu á sig að mæta, hlusta og spyrja.

Félag ungra framsóknarmanna í Skagafirði hefur síðan birt á heimasíðu sinni svör frambjóðenda við spurningum sem þeir sendu til okkar allra. Svar mitt var birt seint á laugardagskvöldið og fer hér á eftir:

Hver ert þú og hvaðan kemur þú ?

Ég heiti Friðrik Jónsson og er búsettur á Akranesi. Hef búið þar síðan haustið 2006, en flutti þangað frá Kaupmannahöfn. Ég er formaður framsóknarfélags Akraness. Er kvæntur og á 4 börn á aldrinum 3 til 25. Ættir mínar rek ég til V.Húnavatnssýslu, austan af héraði, og frá Þýskalandi. Ég er starfsmaður utanríkisþjónustunnar og hef verið það frá því í janúar 1996. Í augnablikinu er ég “í láni” hjá Varnarmálastofnun sem verkefnis- og sviðsstjóri og hef meðal annars yfirumsjón með heræfingum og gegni hlutverki fjölmiðlafulltrúa. Ég er með BA próf í alþjóðasamskiptum, og tvær meistaragráður, aðra í alþjóðaviðskiptum (MBA) og hina í alþjóðasamskiptum með sérhæfingu í öryggis- og varnarmálum (MA). Á meðan að ég var í námi bjó ég m.a. í Þýskalandi og Belgíu, en á vegum utanríkisþjónustunnar hef ég unnið á aðalskrifstofu ráðuneytisins auk þess að þjóna sem fulltrúi Íslands í sendiráðum okkar í Washington og í Kaupmannahöfn.

Afhverju á fólk að kjósa þig ?

Fólk má gjarnan kjósa mig þar sem ég vil taka þátt í og leiða nauðsynlega uppbyggingu/endurskipulagningu þjóðfélagsins. Vinnusemi mín, útsjónarsemi, menntun og reynsla eru einstakur bakgrunnur til þess að takast á við verkefnin framundan.Ég er heiðarlegur og hef engin tengsl við sérhagsmuni af neinu tagi. Heiðarlegur og trúr minni sannfæringu. Hef breiða þekkingu og að eigin viti þokkalega víðsýni og getu til að meta og lesa mál frá mismunandi hliðum.

Hvert verður þitt fyrsta verk á Alþingi ?

Mitt fyrsta verk yrði að kynna mig fyrir starfsfólki þingsins. Reynsla mín er sú að til að ná árangri á nýjum vinnustað er vænlegt að kynnast strax vel þeim sem fyrir eru, þar með talið þeim sem ekki eru að vinna á nákvæmlega sama sviði og þú sjálfur. Metnaður minn liggur svo til þess að leggja sem fyrst fram frumvarp til laga um endurreisnarsjóð atvinnulífsins, en ég hefði viljað sjá það sem lið í efnahagsáætlun Framsóknarflokksins. Það er alger forgangur að fá hjól atvinnulífsins til að snúast að nýju, og þ.m.t. að hafa sem hluta af þeim sjóði að veita framkvæmdafé til sveitarfélaga til fjármögnunar á mannaflsfrekum verkefnum eins og viðhaldsverkefnum.

Hvernig viltu að landbúnaður þróist á íslandi ?

Ég vil sjá aukna nýsköpun og meiri fullvinnslu afurða. Íslenskur landbúnaður þarf aukinn markaðsaðgang á erlenda markaði og hér er framtíðarhlutverk Evrópumarkaðar mikilvægt. Þess vegna tel ég það mikla hagsmuni fyrir íslenskan landbúnað að annars vegar að fyrirliggjandi matvælafrumvarp verði samþykkt og hins vegar að sótt verði um aðild Íslands að Evrópusambandinu. EES-samningurinn veitir íslenskum landbúnaði takmarkaðan aðgang að Evrópumarkaði og aðallega með hrávörur, ekki með fullunnar landbúnaðarafurðir. Þessu þarf að breyta.

Hvað á að gera í atvinnumálunum ?

Ríki/sveitafélög þurfa að geta veitt fé til framkvæmdaverkefna. Það hefur keðjuverkandi áhrif fyrir allt atvinnulífið. Einmitt núna er mikilvægt að ríki og sveitafélög fari ekki í sparnaðargírinn og hugsi einungis um fjárlagahalla – það er þess virði að vera með fjárlagahalla til skemmri tíma til að halda atvinnulífinu gangandi. Til fjármögnunar slíkra verkefna væri t.d. Endurreisnarsjóður atvinnulífsins sem ég gat um hér í fyrra svari. Slíkan sjóð mætti m.a. fjármagna með aðkomu lífeyrissjóðanna. Við þurfum í aðgerðum í núverandi ástandi að hugsa til lengri tíma og vega og meta áhrifin til framtíðar.

Hvað finnst þér mikilvægast að gera í kjördæminu ?

Hér í kjördæminu þarf að leggja fyrst og fremst áherslu á atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og samgöngubætur, bæði rafrænar og raunverulegar! Það þýðir lítið að hafa gott hjarta og snjallan heila ef að æðakerfið á milli þeirra er í lamasessi. Hér í kjördæminu er of mikið um það að tengingar milli staða séu ófullnægjandi, hvort heldur sem vegtengingar eða nettengingar. Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni, hvort sem er í iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustu, sérstaklega ferðaþjónustu, er háð því að þessir hlutir séu í lagi. Punktur.

Í fimm skýrum spurningum voru frambjóðendur s.s. spurðir spjörunum úr, en það er um að gera að heimsækja heimasíðu ungra í skagafirði, einhverja öflugustu pólitísku ungliðahreyfingu landsins, og kynna sér svör annarra frambjóðenda - og kaupa af FUF í Skagafirði framsóknarbindi!

miðvikudagur, 4. mars 2009

Nokkur áherslumál

Undanfarna daga hef ég varið bæði að þeytast um kjördæmið á frambjóðandakynningarfundi og að sinna vinnunni þannig að lítið svigrúm hefur gefist til skrifta. Ég mun vonandi bæta úr því á næstu dögum.

Til fróðleiks set ég hins vegar inn hér nokkur þau atriði sem ég legg áherslu á:

...að settur verði á fót öflugur Endurreisnar­sjóður í samvinnu við Lífeyrissjóði og Samtök atvinnulífsins til þess að fjármagna brýnar framkvæmdir, m.a. samgöngubætur og mannaflsfrek viðhaldsverkefni

... að sveitarfélögum verði tryggð sérstaklega ákveðið hlutfall fjármögnunar úr þessum sjóði til að kosta atvinnuskapandi verkefni í heimabyggð

... að gerðar verði skattkerfisbreytingar sem miði að aukinni skilvirkni, gagnsæi og sanngirni. Nauðsynlegar skattahækkanir vegna efnahagskrísunnar verði tímabundnar og bitni síst á þeim sem verst hafa kjörin.

...að höfuðáhersla verði lögð á að vinna bug á verðbólgu og lækka vexti. Skattastefna stjórnvalda taki mið af þessu markmiði.

...að undið verði ofan af Ohf-væðingu hreinna ríkisstofnanna.

...að vinna að framgangi skynsamlegra verkefnum sem verða til að auka atvinnu og verðmætasköpun í landinu.

...að gripið verði til aðgerða í gjaldmiðilsmálum þ.a. hér geti þrifist atvinnulíf og heimili með aðgangi að lánafjármögnun á eðlilegum vaxtakjörum.

...að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu í samræmi við ályktun flokksþings Framsóknarflokksins.

...að til framtíðar verði vísitala neysluverð leiðrétt til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

...að verðtrygging verði afnumin.

...að stimpilgjald veðlána verði afnumið.

...að tillögur Framsóknarflokksins um skuldaniðurfærslu verði teknar til alvarlegrar skoðunar í samvinnu stjórnvalda við hagsmunasamtök launþega og atvinnulífs. Teljist sú leið fær, verði hún farin. Það getur ekki talist þjóðhagslega hagkvæmt að mörg þúsund heimili og fyrirtæki fari í þrot.

...að helstu eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins verði teknar til gagngerrar endurskoðunar og þær efldar og hlutverk þeirra endurskipulögð þar sem þar á við. Sérstaklega þarf að skerpa tilgang og valdheimildir stofnanna eins og Ríkisendurskoðunar, Umboðsmanns Alþingis, Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins.

...að einn eða fleiri af ríkisbönkunum verði seldur í hendur erlendum kröfuhöfum.