Þá liggur fyrir niðurstaða hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi. Einar K. fellur af stalli, en vestfirðingar engu að síður halda þremur af fjórum efstu sætum. Oddvitinn verður hins vegar Ásbjörn Óttarsson úr Snæfellsbæ.
Á Akranesi eru menn úr öllum flokkum nema Samfylkingu hins vegar að átta sig á því að engir skagamenn eru í öruggum sætum á lista. Undantekningin er Guðbjartur Hannesson, þingforseti og oddviti Samfylkingarinnar í kjördæminu.
Þetta hefur víst orðið einhverjum tilefni til að ræða, hálft í gamni – hálft í alvöru, að réttast væri fyrir skagann að tefla fram sínu eigin framboði í kosningunum. Sérstaklega ef lög um persónukjör næðu fram að ganga. Þá væri ekkert því til fyrirstöðu að fólk úr fleiri en einum flokki sameinuðust í sérframboði, t.d. Skagalistanum, og biðu fram.
Slíkur listi ætti að geta náð nokkrum árangri því u.þ.b. þriðjungur atkvæðabærra manna í Norðvestur kjördæmi býr á og við Akranes. Skagalistinn ætti þannig tæknilega séð að geta náð þremur mönnum á þing, en að teknu tilliti til Guðbjarts, líklega frekar tveimur.
Akranes er að auki löngu orðið úr takti við restina af kjördæminu og ætti í sjálfu sér mun frekar heima sem hluti af t.d. Suðvesturkjördæmi. Akranes er eiginlega lýsandi dæmi fyrir það hvað núverandi kjördæma- og kosningaskipan er arfavitlaus.
Akranes á þannig meiri hagsmuni sameiginlega með Hafnarfirði en Borgarnesi, svo dæmi sé tekið, í ljósi sinna stóriðju- og eftirlifandi sjávarútvegshagsmuna. Akranes þjónar líka hlutverki úthverfabæjarfélags frá Reykjavík, rétt eins og kraginn.
Reyndar má hið sama segja um sveitarfélögin á Reykjanesi – hagsmunir þeirra liggja fremur nær sveitarfélögum í kraganum en á suðurlandsundirlendinu – en það undirstrikar líka hvað núverandi kosninga- og kjördæmakerfi gengur illa upp. Fyrir utan nú delluna með skiptingu Reykjavíkur í tvennt.
Skagamenn geta reyndar líka að vissu leyti sjálfum sér um kennt. Þeir eru ekki eins duglegir að taka þátt í pólitísku starfi og almennt er í öðrum sveitarfélögum í kjördæminu og ennfremur ekki eins duglegir að standa með sínum sveitungum í t.d. prófkjörum innan flokkanna.
Þess vegna meðal annars eru skagamenn jafn illa settir hlutfallslega hvað varðar fulltrúa í efstu sætum lista flokkanna vegna næstu Alþingiskosninga.
Og þess vegna fá einhverjir svona hugdettur eins og Skagalistann.
Yrði það X-A fyrir Akranes?
Mér finnst að það eigi að sameina Ísafjörð og Akranes,, þá gæti það verið x- ÍA hljómar það ekki sennilega
SvaraEyðaÞað er aðeins tvennt um að ræða. Búa til Skagalista eða flykja sér um Guðbjart og gera skýra kröfu um ráðherradóm. Sú krafa hlýtur reyndar að vera þegar komin fram innan Samfylkingarinnar
SvaraEyðaHvernig ætla menn að selja þennan lista fyrir suður hluta kjördæmisins? Hvernig ætla allir aðrir flokkar en Samfylkingin yfirleitt að selja þriðjungi kjósenda lista sína. Að þetta sé svo gott fólk? Fólk sem vann fyrir kvótanum sínum? Þið eigið ekki að hugsa um fólkið heldur stefnuna?
SvaraEyðaÞað er greinilegt að Borgnesingum og Skagamönnum hefur verið skákað út með ýmsum kosningabandalögum. Fólkið í suðrinu kaus lista sem dreifðist yfir kjördæmið en aðrir kusu bara sinn mann og allt annað en keppinauta af sunnan. Gömul saga og ný. Gerðist allstaðar nema hjá Gutta en staða hans er svo sterk að enginn átti séns. Hann hefur auk þess tekið sitt prófkjör slíkum tökum að um 80% kosninga var í fyrsta sæti ef ég man rétt. Valkostirnir eru því: Sitja heima, sérframboð í suðrinu eða styðja Guðbjart hannesson til áhrifastarfa og oddvita í kjördæminu.
Samkvæmt þeim tölum sem ég hef heyrt um úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi um liðna helgi, þá hafði framboð Þórðar Guðjónssonar mikil áhrif á úrslit þess. Hann bauð sig fram í 1.-3. sæti og fékk um 180 atkvæði í fyrsta sætið á Akranesi. Hefði hann boðið sig fram eingöngu í 3. sætið ( sem að mínum dómi var mun raunhæfara markmið hjá honum) þá er líklegt að úrslit kjörsins hafi litið öðruvísi út. Einar Kristinn hefði fengið fleiri atkvæði í 1. sætið (og úrslitin um það sæti hefðu getað orðið tvísýnni), Bergþór hefði orðið ofar á lista, jafnvel náð 3. sætinu (vegna þeirra atkvæða sem Þórður fékk í sætin fyrir ofan 3. sætið) og loks hefði Þórður hugsanlega getað náð sæti í topp 6. Það má því segja að það sé skortur á stragetískum vinnubrögðum sem valdi því að Skagamaður sé ekki ofar á lista í þessu tilfelli, því Bergþór og Þórður voru að reita atkvæði hver af öðrum.
SvaraEyðaHinsvegar er vert að íhuga það hvort frambjóðendur eigi að vera fulltrúar bæjarfélags eða kjördæmisins í heild.
Smá komment á þetta síðasta hjá Hartmann. Norðvesturkjördæmi er svo stórt að við gætum allt eins verið í einu kjördæmi eins þessu. Nú verandi uppstilling flokkanna hallar verulega á suðursvæðið og viðkomandi þekkja ekki og geta ekki myndað þau tengsl á stuttum tíma sem þarf til að gæta hagsmuna þessa fólks. Vestfirðingar (þar sem ég þekki vel til) kósa ekki sunnlendinga í prófkjöri eins og tölurnar sýna. Sunnlendingar gera það hins vegar og eru rassskelltir eins og dæmin sýna s.l. 10-12 ár. Liðsuppstillingar flokkanna selja ekki á suðursvæðinu ef við teljum kannski Guðbjart oddvita Samfylkingar frá.
SvaraEyða