fimmtudagur, 19. mars 2009

Auðmannadekur Samfylkingarinnar

Það er pínu kómískt að fylgjast með sumum viðbrögðunum við 20% skuldaniðurfærsluleiðinni sem Framsóknarflokkurinn setti fram sem eina af átján tillögum til aðgerða í efnahagsmálum. Tillaga sem Framsóknarflokkurinn á langt í frá nokkurn höfundarrétt að, né halda flokksmenn því fram, og framsóknarmenn eru síður en svo einir um að styðja.

Sérstaklega eru móðursýkisleg viðbrögð ágæts samfylkingarfólks athyglisverð, til dæmis Árna Páls í Silfri Egils síðasta sunnudag, og bloggpistlar Steinunnar Valdísar og Önnu Sigrúnar hér á eyjan.is. Viðbrögðin bera með sér að fæstir virðast hafa kynnt sér forsendur tillagnanna og því síður að viðkomandi bjóði upp á annan kost, fyrir utan jú tillögur um greiðsluaðlögun sem á eftir að setja landið endanlega á hausinn ef ekki verður komið með önnur úrræði samhliða eða strax í kjölfarið. Meira um það síðar.

Hið kómíska, jafnvel frekar tragí-kómíska, við viðbrögð Samfylkingarfólks við 20% niðurfærsluleiðinni er að sérstaklega virðist angra þau annars vegar sú staðreynd að því meira sem þú skuldar því meiri niðurfærslu (eða afslátt) færð þú í krónum talið, og hins vegar að „einhver“ muni jú þurfa að borga og sá kostnaður muni lenda á ríkissjóði og skattborgurum.

Ekki heyrðist þessi gagnrýni þegar fulltrúar þessa ágæta flokks sátu í ríkisstjórn síðastliðið haust þegar hrunið varð og ákveðið var að tryggja allar bankainnistæður án þaks, þrátt fyrir að engin lagaskylda væri til slíks. Engar áhyggjur komu fram þá að verið væri að taka skattfé hins almenna borgara – verkakonunnar, ruslakallsins og kennarans – til að greiða t.d. innistæður auðmanna upp á tugi eða jafnvel hundruðir milljóna.

Að sama skapi heyrðist ekki múkk frá þessu sama ágæta fólki þegar með fulltingi þeirra ágætu fulltrúa var farið út í að tryggja stærsta hluta innistæðna í peningamarkaðssjóðum, án þess að fyrir því væri nokkur lagaskylda og án nokkurs þaks. Þar var einföld prósenta látin ráða.

Í báðum tilvikum er kostnaðurinn vegna þessa að lenda á okkur almenningi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margir milljarðar umfram það sem heimild var til í lögum.

Einu aðilarnir sem Samfylkingarfólk virðist vilja setja í sérflokk erum við skuldarar þessa lands – við eigum að taka á okkur höggið af kerfishruninu að fullu. Við fáum í mesta lagi smá plástur og magnyl í formi lenginga í lánum og frystinga, en á endanum eigum við að borga allt upp í topp. Meira að segja þegar nokkuð virðist ljóst að „manipulerað“ var bæði með verðbólguna og gengi krónunnar á síðustu árum.

Í orði er vinum mínum í Samfylkingunni tamt að segja frá umhyggju sinni fyrir almúga þessa lands – á borði virðist þeim hafa verið annast um þá sem auðinn eiga...

19 ummæli:

 1. Það er náttúrlega út úr kú að td., þeir kappar sem Morgunblaðið segir frá í dag, sem lánuðu sjálfum sér milljarða, fái 20% niðurfærslu. Það þarf að setja þak á niðurgreiðslurnar og miða kannski við 10-12 milljónir.
  Almennt finnst mér stjórnmálamenn óttalegar pempíur þegar kemur að auðmönnum. Td að ekki sé búið að handtaka neinn og setja í yfirheyrslur.

  SvaraEyða
 2. Þetta með innlánin meikar ekki sens, talaðu við einhvern sem veit eitthvað um innlán.

  SvaraEyða
 3. Hvað með prósentudekur Framsóknarmanna með hjálp Tryggva...?

  http://baggalutur.is/skrif.php?t=1&id=1601

  SvaraEyða
 4. Útskýrðu fyrir okkur hvernig Íbúðalánasjóður á að geta staðið undir 20% niðurfellingu skulda. Segðu okkur hverjir eiga að borga þann hluta.

  Í leiðinni má alveg koma fram hvernig fyrirsögnin er hugsuð (mér finnst hún út úr kú).

  SvaraEyða
 5. Hver tekur við skuldunum þegar fólk er búið að gefast upp á þeim ? Skyldi það ekki falla á verkakonurnar , kennarar og ruslakallarnir iiiiiiii jú. Líkt og þeir milljarðar sem við erum nú þegar búin að taka við frá "auðmönnum" Íslands
  kv Halla Signý

  SvaraEyða
 6. Þetta er skemmtilegur útúrsnúningur.
  Þú segir að athugasemdirnar séu "móðursýkislegur" og beri þess vott að forsendurnar hafi ekki verið kannaðar. Það er nú það sem er mergur málsins - forsendan er jú að búið sé að selja gömlu lánasöfnin með 50% afslætti og því sé rúm fyrir þessa leið. Vandinn er jú að það er EKKI búið að selja lánasöfnin og enn er verið að meta virði þeirra. Svo ... duh!
  Það er ekkert á bak við þessa tölu hjá ykkur - 20% - annað en popúlismi.
  Lestu Morgunblaðið í dag, grein Jóns Steinssonar og Gauta Eggerts.

  SvaraEyða
 7. Góður punktur Friðrik.

  Auðmannadekrið blasir við öllum. Ungu Blairistarnir, atvinnublaðrarar á borð við Árna Pál og Björgvin, munu ekki reynast Samfylkingunni happafengur.

  SvaraEyða
 8. Menn þurfa að setja sig betur inn í málin áður en þeir tjá sig.

  Skuldaniðurfellingin væri eingöngu gagnvart nýju bönkunum þannig að auðskríllinn myndi ekki sleppa. Lán glæpamannanna eru í gömlu bönkunum.

  SvaraEyða
 9. Gaman væri að fá það alveg á hreint Friðrik hvort hugmyndin sé að fella niður 20% af ÖLLUM skuldum. Líka skuldum auðmanna sem hafa offjárfest í góðærinu en geta alveg staðið undir þessu, líka skuldum stórfyrirtækja sem eru kannski ekki neinum vandræðum. Mér finnst einhvern veginn svolítið öfugsnúið að nota stórfé í að hjálpa svoleiðis en gera svo ekki
  nóg til þess að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Að ekki sé talað um að ætla að nota 800 milljarða í æfinguna. Tvöföld áætluð útgjöld ríkisins. Sé ekki alveg hvernig það á að ganga upp, Friðrik.
  Hitt er annað mál að ég er sammála því að það hafi verið mistök að ábyrgjast allar innistæður að fullu. Það gerir bara þessa hugmynd ekkert betri. Því miður.

  Ingibjörg Stefáns

  SvaraEyða
 10. Góðir punktar og réttir. Það vakti undrun og reiði víða (þrátt fyrir að fjölmiðlar fjölluðu ekki mikið um málið einhverja hluta vegna) var þegar ríkið "henti" peningum inní sjóðina án allra takmarkanna. Þannig að t.d. sægreifinn sem átti 500 millj. inní þessum sjóðum fékk verulegan fjárstuðning frá okkur skattborgurum þessa lands.

  SvaraEyða
 11. Ég las grein Jóns og Gauta og? Ég hef alltaf kosið Samfylkinguna en ekki mikið lengur! Ég var svo glöð þegar flokkurinn minn sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn ... en nú hafa runnið á mig tvær grímur! Bara prófkjörið í Reykjavík er eitt! Ég fæ ekki séð að flokkurinn minn sé að gera neitt sem hjálpar fólkinu í landinu. Flokkurinn minn er ekki að hjálpa okkur við að ná uppgjöri við fortíðina. Flokkurinn minn er orðin flokkur sem beitir forræðishyggju og talar niður til mín. Flokkurinn minn hefur gleymt fólkinu sem missti eða er að missa vinnuna. Það er erfitt að reka heimili á einni fyrirvinnu hvað þá ein á atvinnuleysibótum. Samfylkingin heldur að vandamálin komi seinna og ætlar að bíða með raunhæfar aðgerðir! Hún beið með Sjálfstæðisflokknum meðan bankar voru ryksugaðir og ætlar að láta okkur bera þungann af því eins lengi og við getum. Hún ætlar að láta okkur borga þangað til við brotnum niður og getum ekki meir. Við erum mörg sem getum ekki meir. Flokkurinn minn hefur brugðist mér. Ég tek undir með Dofra H. sem segir að það sé ekki lausn að lengja í lánum. Það er ekki jafnaðarmannastefna að bjóða börnunum sínum að erfa lánin sín.

  SvaraEyða
 12. Innilega sammála þér Friðrík. Er samfó bara blairisk loftbóla eftir allt saman. Furðulegt að talsmenn jafnaðarstefnu skuli tala svona

  SvaraEyða
 13. Þú ættir að svara sumum ágætis mótrökum sem hér hafa birst. Annað dregur úr gildi pistilsins.

  SvaraEyða
 14. Hér er farið ágætlega yfir málið, http://www.herdubreid.is/?p=370#more-370.

  Ef Friðrik er þessari umfjöllun ósammála væri auðvitað fróðlegt að sjá rökstudd viðbrögð hans.

  SvaraEyða
 15. Hvernig kemur GJÖFIN bráðum 20000 atvinnulausum sem alls ekki geta greitt af lánum sínum til góða?
  Stefán Benediktsson

  SvaraEyða
 16. Framsóknarflokkurinn hefur aldrei dekrað við auðmenn.

  S-hópurinn, Finnur Ingólfsson, Ólafur Ólafsson ofl, er samsettur af kórdrengjum.

  Sigurður Einarsson (Ágústssonar, framsóknarráðherra) er sunnudagaskólabarn.

  Gift er bara gjafapappír.

  Skyldi Frikka ekki vera kalt? Búinn að brjóta allar rúðurnar í glerhúsinu.

  SvaraEyða
 17. Hér er farið ágætlega yfir málið, http://www.herdubreid.is/?p=370#more-370.

  Ef Friðrik er þessari umfjöllun ósammála væri auðvitað fróðlegt að sjá rökstudd viðbrögð hans.

  Þetta er hörmuleg umfjöllun af "blaðamanni" sem ekki hefur kynnt sér hugmyndirnar.

  1. Það er verið að tala um húsnæðisskuldir ekki allar skuldir.
  2. Það þarf ekki að hækka skatta þar sem að þetta snýst ekki um að auka útgjöld heldur lágmarka tap. Kostnaður upp á 6-800 miljarða er því útúrsnúningur.
  3. Forsendur fyrir þessari leið er að gengið sé frá samningum við erlenda kröfuhafa. Fyrr er ekkert hægt að gera.
  4. Ef að menn hafa ekki lesið hinar tillögurnar þá má sjá þar að bankarnir verði færðir í hendur kröfuhafa til að viðhalda greiðsluflæði milli Íslands og umheimsins.
  5. Lánasöfn Íslensku bankanna ganga nú kaupum og sölum á 1-5% af nafnvirði svo að einhverjar líkur eru á góðum afskriftum.

  SvaraEyða
 18. ÞA: 20% niðurfærslan hvað varðar heimilin snýr að niðurfærslu á húsnæðislánum, ekki öðrum lánum. Tekið er fram sérstaklega að það megi gjarnan vera með ákveðnu hámarki. Hvað varðar fyrirtækin er lagt til að kannað verði með 20% niðurfærslu yfir alla, en það er augljóslega umdeilanlegra, enda eru önnur tól til reiðu hvað varðar fyrirtækin. Krónutöluþak á niðurfærslu húsnæðislána er þannig velt upp sem möguleika í tillögum Framsóknarflokksins.

  Og já, hingað til hefur verið óttalegur pempíuskapur hvað varðar meðhöndlunina á þessum fyrrum auðmönnum.

  Nafnlaus 1: Athugasemdin „meikar ekki sens“.

  Nafnlaus 2: Prósentuleiðin er ein leið – valkostur. Með þaki yrði hún ásættanlegri, en skuldaniðurfærsla með einum eða öðrum hætti er óumflýjanleg hvað varðar heimilin í landinu.

  Nafnlaus 3: Sjá efnahagstillögur Framsóknarflokksins (http://framsokn.is/files/efnahagstillogur_framsoknar.pdf) þar er þetta útskýrt ágætlega.
  Fyrirsögnin er hugsuð sem nett ádeila á samfylkinguna þar sem þeir hafa gagnrýnt niðurfærsluleið Framsóknar sem m.a. auðmannadekur og horfa framhjá því að aðgerðirnar sem þeir stóðu sjálfir fyrir varðandi innstæður á bankareikningum og sérstaklega varðandi innistæður á peningamarkaðsjóðum voru meiriháttar auðmannadekur m.v. þeirra eigin forsendur. Ekkert þak var á ábyrgðunum og engin heimild var fyrir því að velta þeim með þessum hætti yfir á okkur skattborgarana.

  Halla Signý: Nákvæmlega!

  Anna Sigrún: Duh sjálf! 20% niðurfærslan er tillaga um leið til lausnar vandans og á fullkomlega rétt á sér sem slík og að hún sé rædd á vitrænum forsendum, en ekki með upphrópunum og krúttlegum útúrsnúningum. LÍN-leið Jóns og og Gauta er fínt innlegg inn í umræðuna - en langt í frá gallalaus.

  Nafnlaus 4: Merci!

  Nafnlaus 5: Danke schön!

  Ingibjörg: 20% gagnvart heimilunum snýr einungis að húsnæðislánum. Gagnvart fyrirtækjunum er hún 20% flatt yfir allar skuldir þeirra. Þetta snýst m.a. um þá ágætu reglu jafnræðisregluna því við höfum jú öll lent í þessu stórslysi sem er bankahrunið og efnahagskreppan – við höfum það öll verra. 800 milljarða talan er forsendulaus ágiskun!

  Nafnlaus 6: Einmitt...!

  María: Við eigum að krefjast þess af öllum flokkum að tala í lausnum en ekki upphrópunum.

  Nafnlaus 7: Takk. Samfylkingin er ágæt, nema þegar hún dettur í sjálfhverfuna og skinhelgina!

  Gísli: Ég er að reyna að svara þeim. Aðallega vil ég að tillögur séu ræddar án sleggju- og fordóma. Og ekki átómatískt afskrifaðar aðallega af því að þær eru studdar af framsóknarmönnum, sem stundum virðist vera einskonar „default“ stilling hjá sumum samfylkingarvinum mínum...

  Nafnlaus 8: Svör við Herðubreiðarpistlinum fást með því að lesa tillögu Framsóknarflokksins frá upphafi til enda, þ.m.t. þá fyrirvara og álitaefnum sem þar er velt upp.

  Stefán: Minnkar skuldavandann um 20%. En fyrir 20 þúsund atvinnulausa dugar auðvitað ekkert annað en mjög massíf aðgerð til að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik. Í þeim efnum er ljóst að grípa verður til róttækra, og já, jafnvel mjög óhefðbundinna aðgerða. Við núverandi ástand verður ekki unað lengi enn.

  Nafnlaus 9: Framsóknarflokkurinn á sína mjög svo vafasömu fortíð hvað varðar dufl við karaktera sem léku miður skemmtilega rullu í loftbóluhagkerfi undanfarinna ára. Búíð er að gera upp við sumt en ekki allt. Finnur Ingólfs hefur ekki komið nálægt flokkstarfi lengi, Ólafur Ólafs er ekki einu sinni í flokknum og ekki heldur Sigurður Einars.

  Gift er sérkapítuli. Ógeðfeldur óþverraskapur sem átti aldrei að líðast. Í því dæmi kristallast einn stærsti mögulegi ókostur samvinnufélaga sem er að til getur orðið fé án hirðis. Það gerðist þarna og hyskið sem náði stjórn á þeim peningum sem voru í reynd eign tryggingartaka Samvinnutrygginga höfðu ekkert að gera með það að misnota það til eigin auðgunar. Ég hef reyndar fjallað um þetta áður í aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins með gagnrýnum hætti, sjá: http://fridrik.eyjan.is/2009/01/n-framt-n-framskn.html

  Mér er vel hlýtt og bý í holsteinshúsi!

  Guðmundur: Vel mælt...!

  SvaraEyða
 19. Innlegg í umræðuna:
  http://www.deiglan.com/index.php?itemid=12480

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.