mánudagur, 9. mars 2009

Spjörunum úr...

Í gær var haldinn síðasti sameiginlegi kynningarfundur þeirra frambjóðenda sem sækjast eftir sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi. Í allt voru 10 fundir haldnir á 9 dögum,

Mér tókst að mæta á 9 af tíu fundum, sem voru hver öðrum skemmtilegri. Á hverjum einasta fundi var mest spurt um afstöðu og viðhorf frambjóðenda til Evrópusambandsins og hugsanlegrar aðildarumsóknar Íslands.

Langflestir frambjóðenda lýstu sig sammála ályktun flokksþings Framsóknarflokksins um að sækja um aðild með skýrum skilyrðum. Það breytir því þó ekki að margir þeirra eru algerlega andstæðir aðild sama hver niðurstaða slíkra viðræðna yrði.

Upplifði ég sjálfan mig sem hálfgerðan hrópanda í eyðimörkinni á þessum fundum hvað varðar afstöðuna til ESB og áhrif hugsanlegrar aðildar á íslenskt atvinnulíf, þá sérstaklega sjávarútveg og landbúnað, og á íslenskt efnahagslíf almennt.

Afstaða mín er nefnilega sú að í fyrsta lagi sé vel hægt að ná fram þeim skilyrðum sem sett voru fram í ályktun flokksþing í aðildarviðræðum við ESB, og í öðru lagi að aðild að ESB sé nauðsynleg þessum tveimur grunnatvinnuvegum þjóðarinnar til að tryggja þeim aukinn markaðsaðgang og aukna möguleika til markaðssóknar og aukinnar fullvinnslu. Við núverandi aðstæður verða engin ný störf til í hvorki sjávarútvegi né landbúnaði. Hagræðing og aukin framleiðni í þeim greinum án aðildar að ESB verður einungis með frekari samrunum og fækkun starfa. Aukinn markaðsaðgangur er eini möguleikinn til hins gagnstæða og eini alvöru markaðurinn sem stendur til boða er Evrópumarkaður við aðild.

Ekki get ég fullyrt að þessum sjónarmiðum mínum hafi verið tekið fagnandi um sveitir og sýslur Norðvesturkjördæmis, en ljóslega mátu fundamenn við mig að tala tæpitungulaust um afstöðu mína til Evrópumála - þó einhverir hefðu jafnvel talið það jaðra við fífldirfsku!

En það breytir ekki því að það að taka þátt í fundaherferð af þessu tagi var allt í senn skemmtilegt, gefandi og fræðandi. Hvernig sem póstkosningin fer mun maður búa að reynslu undangenginnar viku til langrar framtíðar. Ég er því þakklátur öllum þeim sem komu að skipulagi þessara funda og þá sérstaklega þeim sem lögðu á sig að mæta, hlusta og spyrja.

Félag ungra framsóknarmanna í Skagafirði hefur síðan birt á heimasíðu sinni svör frambjóðenda við spurningum sem þeir sendu til okkar allra. Svar mitt var birt seint á laugardagskvöldið og fer hér á eftir:

Hver ert þú og hvaðan kemur þú ?

Ég heiti Friðrik Jónsson og er búsettur á Akranesi. Hef búið þar síðan haustið 2006, en flutti þangað frá Kaupmannahöfn. Ég er formaður framsóknarfélags Akraness. Er kvæntur og á 4 börn á aldrinum 3 til 25. Ættir mínar rek ég til V.Húnavatnssýslu, austan af héraði, og frá Þýskalandi. Ég er starfsmaður utanríkisþjónustunnar og hef verið það frá því í janúar 1996. Í augnablikinu er ég “í láni” hjá Varnarmálastofnun sem verkefnis- og sviðsstjóri og hef meðal annars yfirumsjón með heræfingum og gegni hlutverki fjölmiðlafulltrúa. Ég er með BA próf í alþjóðasamskiptum, og tvær meistaragráður, aðra í alþjóðaviðskiptum (MBA) og hina í alþjóðasamskiptum með sérhæfingu í öryggis- og varnarmálum (MA). Á meðan að ég var í námi bjó ég m.a. í Þýskalandi og Belgíu, en á vegum utanríkisþjónustunnar hef ég unnið á aðalskrifstofu ráðuneytisins auk þess að þjóna sem fulltrúi Íslands í sendiráðum okkar í Washington og í Kaupmannahöfn.

Afhverju á fólk að kjósa þig ?

Fólk má gjarnan kjósa mig þar sem ég vil taka þátt í og leiða nauðsynlega uppbyggingu/endurskipulagningu þjóðfélagsins. Vinnusemi mín, útsjónarsemi, menntun og reynsla eru einstakur bakgrunnur til þess að takast á við verkefnin framundan.Ég er heiðarlegur og hef engin tengsl við sérhagsmuni af neinu tagi. Heiðarlegur og trúr minni sannfæringu. Hef breiða þekkingu og að eigin viti þokkalega víðsýni og getu til að meta og lesa mál frá mismunandi hliðum.

Hvert verður þitt fyrsta verk á Alþingi ?

Mitt fyrsta verk yrði að kynna mig fyrir starfsfólki þingsins. Reynsla mín er sú að til að ná árangri á nýjum vinnustað er vænlegt að kynnast strax vel þeim sem fyrir eru, þar með talið þeim sem ekki eru að vinna á nákvæmlega sama sviði og þú sjálfur. Metnaður minn liggur svo til þess að leggja sem fyrst fram frumvarp til laga um endurreisnarsjóð atvinnulífsins, en ég hefði viljað sjá það sem lið í efnahagsáætlun Framsóknarflokksins. Það er alger forgangur að fá hjól atvinnulífsins til að snúast að nýju, og þ.m.t. að hafa sem hluta af þeim sjóði að veita framkvæmdafé til sveitarfélaga til fjármögnunar á mannaflsfrekum verkefnum eins og viðhaldsverkefnum.

Hvernig viltu að landbúnaður þróist á íslandi ?

Ég vil sjá aukna nýsköpun og meiri fullvinnslu afurða. Íslenskur landbúnaður þarf aukinn markaðsaðgang á erlenda markaði og hér er framtíðarhlutverk Evrópumarkaðar mikilvægt. Þess vegna tel ég það mikla hagsmuni fyrir íslenskan landbúnað að annars vegar að fyrirliggjandi matvælafrumvarp verði samþykkt og hins vegar að sótt verði um aðild Íslands að Evrópusambandinu. EES-samningurinn veitir íslenskum landbúnaði takmarkaðan aðgang að Evrópumarkaði og aðallega með hrávörur, ekki með fullunnar landbúnaðarafurðir. Þessu þarf að breyta.

Hvað á að gera í atvinnumálunum ?

Ríki/sveitafélög þurfa að geta veitt fé til framkvæmdaverkefna. Það hefur keðjuverkandi áhrif fyrir allt atvinnulífið. Einmitt núna er mikilvægt að ríki og sveitafélög fari ekki í sparnaðargírinn og hugsi einungis um fjárlagahalla – það er þess virði að vera með fjárlagahalla til skemmri tíma til að halda atvinnulífinu gangandi. Til fjármögnunar slíkra verkefna væri t.d. Endurreisnarsjóður atvinnulífsins sem ég gat um hér í fyrra svari. Slíkan sjóð mætti m.a. fjármagna með aðkomu lífeyrissjóðanna. Við þurfum í aðgerðum í núverandi ástandi að hugsa til lengri tíma og vega og meta áhrifin til framtíðar.

Hvað finnst þér mikilvægast að gera í kjördæminu ?

Hér í kjördæminu þarf að leggja fyrst og fremst áherslu á atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og samgöngubætur, bæði rafrænar og raunverulegar! Það þýðir lítið að hafa gott hjarta og snjallan heila ef að æðakerfið á milli þeirra er í lamasessi. Hér í kjördæminu er of mikið um það að tengingar milli staða séu ófullnægjandi, hvort heldur sem vegtengingar eða nettengingar. Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni, hvort sem er í iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustu, sérstaklega ferðaþjónustu, er háð því að þessir hlutir séu í lagi. Punktur.

Í fimm skýrum spurningum voru frambjóðendur s.s. spurðir spjörunum úr, en það er um að gera að heimsækja heimasíðu ungra í skagafirði, einhverja öflugustu pólitísku ungliðahreyfingu landsins, og kynna sér svör annarra frambjóðenda - og kaupa af FUF í Skagafirði framsóknarbindi!

2 ummæli:

  1. Glæsilegt framtak hjá þér Friðrik og um leið finn ég til með þér að vera sá sem þarf að opna augu samflokksfélaga þinna. Ég myndi bjóða þér að ganga til liðs við minn flokk ef ég þyrfti ekki einmitt á þér að halda við að koma Evrópuvitinu fyrir framsóknarmenn almennt.

    Ægir

    SvaraEyða
  2. Það er gott að vita af hugsandi fólki í framsókn.
    Það er alveg með ólíkindum að íslenskir bændur sjái ekki sóknarfæri í að stækka markaðinn fyrir íslenskar afurðir úr 300 þúsund í rúmlega 400 milljón neytendur. Þvílík forheimska. Það er líka merkilegt að íslensk iðnfyrirtæki eru almennt hlynnt ESB og ekki eru þau á styrkjum, heldur standa nú þegar í beinni samkeppni við innflutta iðnaðarvöru.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.