laugardagur, 14. mars 2009

Flottur listi Framsóknar í norðvestur

Þá er lokið talningu í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Niðurstaðan er til fyrirmyndar, þó eflaust megi gagnrýna að ekki sé meiri kynjadreifing í fimm efstu sætin, en þrír karlar sitja í þremur efstu og tvær konur í fjórða og fimmta sæti.

Leiðtogi listans er þaulvanur og öflugur pólitískur höfðingi úr Skagafirðinum, Gunnar Bragi Sveinsson, og ekki við öðru að búast en að hann muni rækja það hlutverk af stakri prýði.

Honum til halds og trausts í öðru sætinu er týndi sonurinn sem sneri aftur heim, Guðmundur Steingrímsson, og naut hann án efa öflugs pólitísk ættboga til viðbótar við eigið atgervi.

Í baráttusætinu er síðan stórbóndinn mikli, í fleiri en einni merkingu, úr Borgarfirðinum, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.

Verðandi varaþingmenn eru síðan kjarnorkukonurnar Elín Líndal og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Allt er þetta úrvalsfólk sem ég nýt þess heiðurs að geta kallað vini mína eftir að hafa þeyst með þeim um kjördæmið á níu fundi á níu dögum, dagana fyrsta til níunda mars síðastliðinn.

Ég var sem sagt einn af þeim fjórum frambjóðendum sem ekki komst á blað í þessari póstkosningu, sem ég skal fúslega viðurkenna að var ekki það sem ég stefndi að við upphaf þeirrar vegferðar að bjóða mig fram til forystu á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Ég hins vegar gerði mér ljóslega grein fyrir að um mjög væri á brattann að sækja þar sem ég í fyrsta lagi er tiltölulega óþekktur meðal framsóknarmanna í kjördæminu og í öðru lagi hafði engin fjárráð til að kosta í framboðið.

Í þriðja lagi vissi ég sem var að í þessu ágæta kjördæmi eru skoðanir mínar til nokkurra hitamála ekki sérlega vel til vinsælda fallnar, svo sem skýr afstaða mín í Evrópumálum – en ég vil ekki aðeins sækja um aðild, ég vil inn að því gefnu að hagfelldur aðildarsamningur náist – sem að mínu mati er vel hægt.

Ég tel það auk þess vera eitt af mestu hagsmunamálum fyrir íslenskt atvinnulíf og þá sérstaklega sjávarútveg og landbúnað að ná góðum aðildarsamningi við Evrópusambandið í samræmi við ályktun flokksþing Framsóknarflokksins. Þessir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar munu ekki geta vaxið, dafnað og skapað fleiri störf án þess að til komi aðildar með stórauknu markaðsaðgengi á Evrópumarkað fyrir meðal annars fullunnar vörur. Fagnaðarlætin á framboðsfundum þar sem ég hélt fram þessari afstöðu minni voru hins vegar frekar lágstemmd!!!

Það er mér hins vegar sérstakt ánægjuefni að þrátt fyrir allt endurspegla efstu sæti listans ákveðið jafnvægi í Evrópumálum, sérstaklega hvað varðar stefnu flokksins eins og hún var ákveðin á síðasta flokksþingi.

Að sama skapi var lítil kæti yfir því þegar ég t.d. á fundi á Sauðárkróki minnti fundarmenn á að þrátt fyrir marga kosti samvinnuformsins í atvinnurekstri væru engu að síður á því einstakir ágallar sem ekki væri hægt að líta framhjá, eins og til dæmis sá að í samvinnufélögum er hætta á að til verði fé án hirðis.

Í fjórða lagi viðurkenni ég fúslega að annir við önnur störf – mína mjög svo skemmtilegu, krefjandi og gefandi dagvinnu – settu mér verulega stólinn fyrir dyrnar hvað varðar möguleikann á því að geta rekið kosningabaráttu.

Í fimmta lagi er svo sú staðreynd að sá ágæti hópur sem keppti um sæti á þessum lista var mjög frambærilegur. Við slíkar aðstæður er vandi kjósenda ánægjulegur – að geta valið úr hópi að góðu fólki vitandi nokkuð vel að sama hver niðurstaðan verður að þá verður hún að öllum líkindum góð og flokknum til framdráttar.

Framsóknarmenn allir í Norðvesturkjördæmi mega þannig vel við una þau úrslit sem töldust upp úr póstumslögunum í kvöld. Listi flokksins verður ekki aðeins vel samkeppnisfær, heldur yfirburðalisti í kjördæminu í þeim kosningum til Alþingis sem eru framundan.

Fylgja þessum lista af minni hálfu hugheilar hamingjuóskir til frambjóðenda, annarra Framsóknarmanna og allra kjósenda í kjördæminu.

Öllum mínum ágætu meðframbjóðendum í þessari póstkosningu þakka ég fyrir skemmtilega og drengilega keppni. Þetta var lærdómsrík reynsla sem ég mun búa að til langrar framtíðar.

Frekara pólitískt brölt af minni hálfu er hins vegar allt í deiglu - eðlilega.

9 ummæli:

 1. Ja ég get nú ekki séð neitt flott við þennan lista. 3 framsóknar karlhlunkar í efstu sætunum og fyrir utan það hef ég aldrei séð neitt flott við það að vera framsóknarmaður.

  SvaraEyða
 2. Þekki þig svo sem ekki nema af blogginu og get því ekki dæmt um hvort betra hefði verið að hafa ig ofar á lista, verð þó að viðurkenna sem gallhörð framsóknarkona að ég ætti erfitt með að kjósa lista með 3 körlum í efstu sætum. Vonandi verður kynjadreifingin betri hjá okkur á Norðurlandi eystra

  SvaraEyða
 3. Á athugasemdina hér fyrir ofan og ætlaði alls ekki að hafa hana nafnlausa enda tel ég að þeir sem ekki geta skrifað undir nafni eigi bara að sleppa því en nafn mitt er Bjarnveig Ingvadóttir, gat ekki sett hana inn undir nafni

  SvaraEyða
 4. Forðaðu þér, drengur.

  SvaraEyða
 5. Það er ekki mikið flott við þennan lista.

  SvaraEyða
 6. Mér sýnist þetta vera fínn listi, þótt það hefði verið betra að sjá konur þarna ofar. Les bloggið þitt reglulega og hef gaman af. Haltu þínu striki, þinn tími mun koma.

  SvaraEyða
 7. Flottur listi. Þrír menn inn fyrir Framsókn í Norðvestur, engin spurning.

  Þínar skoðanir fara vissulega ekki saman við skoðanir meginþorra manna í kjördæminu. Þú átt hins vegar að halda þínu striki því þetta eru sjónarmið sem þarf að halda á lofti.

  SvaraEyða
 8. Þú ert drengur góður, tekur niðurstöðunni sem drengskaparmaður þótt markmið hafi ekki náðst. Ég vona að Framsókn nái þremur mönnum kjörnum, allt úrvals fólk.
  Kveðja frá stoltum framsóknarmanni sem lætur ekki sjúklegar aðdróttanir frá skrýtnu fólki hafa áhrif á sig !

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.