föstudagur, 27. mars 2009

Ólögleg ríkisaðstoð?

Ég velti því fyrir mér hvort lánin til VBS og Saga Capital geti talist ríkisaðstoð.

Í EES-samningnum segir í 61. grein: 61. gr.: "Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila."

Fyrirgreiðsla þessi, þrátt fyrir að hún sé bundin skilyrðum, hlýtur að minnsta kosti að dansa alveg á mörkum þess að vera samrýmanleg EES-samningnum.

Það hlýtur að vera hægt að fá úr því skorið.

Samkvæmt sömu grein EES-samningsins á ríkisaðstoð við t.d. í tilvikum "...til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða." Auk þess getur hún við t.d. ef þarf að "...ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis."

Sú meginregla gildir án efa í þeim efnum að ekki sé um samkeppnishamlandi eða -truflandi aðgerð að ræða og jafnræðis sé gætt.

Fullt tilefni hlýtur þannig að vera fyrir þá aðila sem keppa á sama markaði og VBS og Saga Capital að kanna forsendur þessarar lánafyrirgreiðslu og hvort hún geti flokkast sem óeðlileg, jafnvel ólögleg, ríkisaðstoð.

Í ljósi takmarkaðs aðgengis að lánsfé hljóta bæði lánveitingin sjálf, auk hinna mjög svo hagstæðu vaxtakjara, að koma til álita.

4 ummæli:

 1. Ætli hún sé eitthvað ólöglegri en allar þær upphæðir sem evrópskar ríkisstjórnir hafa dælt í fjármálakerfi sitt. Ég býst við að neyðarréttur sé EES samningnum rétthærri.

  SvaraEyða
 2. Málið er mjög einfalt.
  Líklega væri þetta löglegt ef sömu kjör stæðu til boða fyrir alla, svo er ekki. Þetta hlýtur að teljast ólöglegt þar sem um augljósa ríkisstyrki er um að ræða.

  SvaraEyða
 3. Vandinn snýst um það hvernig er valið, þ.e.a.s. hvaða fyrirtæki fá svona fyrirgreiðslu og hver ekki. Jafnræði, áhrif á samkeppnisstöðu, áhrif á markað o.s.frv. er það sem líta þarf til. Þegar tveir fjárfestingabankar eins og VBS og Saga Capital eru tekin út fyrir sviga með þessum hætti og veitt fyrirgreiðsla af þessu tagi verða rökin á bakvið að standast skoðun og ferlið að vera þokkalega gegnsætt. Þetta eru augljósega fyrirtæki í samkeppnisrekstri þ.a. hvaða áhrif hefur þessi fyrirgreiðsla á þeirra samkeppnisaðila sem ekki hafa fengið sambærilega fyrirgreiðslu?

  SvaraEyða
 4. Er alls ekki sammála þessum styrkjum enda tel ég að réttast hefði verið að gera það sama og gert var við SPRON við þessi fyrirtæki ef þau ekki gátu staðið af sér storminn. Ef fara átti út í þessa styrki að þá átti það að fara fyrir fjárlaganefnd Alþingis og finnst mér það útí hött að þetta sé bara ákveðið á lokuðum fundum sem enginn veit hverjir sátu á.

  Efast samt um að EES samningurinn gildi þessa daganna enda krefst hann t.d. frjáls flæðis fjármuna. Það verður því að líta svo á að með gjaldeyrishöftunum hafi fengist defacto undanþágu frá EES samningnum meðan verið er að ná landinu úr bráðahættu.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.